Esjan – Ingvar Birgir Friðleifsson
Sjáið tindinn, þarna fór ég!
Eftirfarandi viðtal um Esjuna og nágrenni tók Anna G. Ólafsdóttir við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing, fyrir Morgunblaðið sunnudaginn 20. september 1998:
„Fátt þykir Reykvíkingum betra en að hafa óskert útsýni yfír Esjuna. Anna G. Ólafsdóttir grófst fyrir um hin ólíku svipbrigði fjallsins í spjalli við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing og skólastjóra Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Ingvar Birgir þekkir Esjuna manna best því hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði fjallsins fyrir aldarfjórðungi.
Æ fleiri Reykvíkingar geta tekið sér orð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar „Sjáið tindinn, þarna fór ég!“ í munn og litið stoltir í átt til Esjunnar í norðri. Reykvíkingur er varla nema hálfur Reykvíkingur án þess að hafa klifið Esjuna minnst einu sinni. Esjan er í tísku og sprækustu íþróttamenn hafa lagt af sprikl í yfirfullum íþróttasölum til að geta sveigt kroppinn og andað að sér fersku lofti í Esjuhlíðum.
Langalgengast er að lagt sé upp frá Skógrækt ríkisins við Mógilsá og fetað eftir gönguslóða upp hlíðina með stefnu á Þverfellshorn í norðri.
Gönguleiðin er falleg og hefur þann ótvíræða kost að vera flestum fær. Engu að síður er ekki nema eðlilegt að eftir nokkrar ferðir upp og niður svipaða leið vakni áhugi á nánari kynnum við Esjuna enda sé fortíð fjallsins margbrotnari en í fyrstu virðist.
Einna nánust kynni við Esjuna hefur haft Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, en hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar árin 1970 til 1973. Ingvar Birgir segist hafa dvalist nánast öllum stundum þegar veður leyfði í Esjunni í þrjú sumur. Hann leynir ekki aðdáun sinni á fjallinu og viðurkennir með fjarrænt blik í augum að tilfinningin fyrir því að koma aftur á fallegan reit í Esjunni eftir 25 ára fjarveru sé að mörgu leyti eins og að hitta aftur gamla kærustu.
Blaðamaður getur ekki orða bundist og spyr hvort að hann geti greint breytingar í fjallinu á þessu tímabili. Ekki stendur á svarinu hjá Ingvari Birgi. „Esjan breytist miklu hægar en kærusturnar en samt finnast alltaf á henni nýjar hliðar.“
Eins og maðurinn er landið nefnilega lifandi og tekur breytingum í tímans rás. Esjan er þar engin undantekning og veitir með fjölbreytileika sínum ágæta innsýn í stórbrotna jarðfræði Íslands.
Ef grafist er fyrir um fortíð Esjunnar er eðlilegt að byrja á því að rifja upp hvernig eins konar flekar mynda jarðskorpuna. Ein af höfuðflekamótunum á Atlantshafshryggnum kljúfa ísland frá suðvestri til norðausturs. Flekana rekur til vesturs og austurs frá flekamótunum og er rekhraðinn að jafnaði talinn vera um einn sm á ári í hvora átt. Þó þarf ekki að óttast að landið klofni í tvo eða fleiri hluta því að við gos á gosbeltinu á flekamótunum fylla gosefni í skarðið. Á norðanverðu landinu fara flekamótin í gegnum Þingeyjarsýslu og valda því að sýslan tútnar smám saman út. Á sunnanverðu landinu horfir svolítið öðruvísi við því að flekaskilin klofna í tvær kvíslar: að vestanverðu í Gulibringusýslu og Árnessýslu og austanverðu í Rangárvallasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Uppruninn á Þingvöllum
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbelti því sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og hefur mjakast í takt við rekhraðann í átt til vesturs. Elsti hluti Esjunnar að vestanverðu er 2,8 milljóna ára gamall og hefur því ferðast tæplega 30 km frá Þingvöllum. Einn yngsti hluti fjallsins er Móskarðshnúkar, um 1,8 milljóna ára gamlir, en þá hefur rekið um 18 km frá gosbeltinu í Þingvallavatni.
Á sama tíma og landið rak til vesturs hélt gosvirknin áfram inni í sjálfu gosbeltinu á flekamótunum. Vestan við gosbeltið er röð af megineldstöðvum sem hafa myndast í því. Fyrst er að telja eldstöðvar í Hafnarfjalli og Skarðsheiði en þær voru virkar fyrir um 4,5 milljónum ára. Hvalfjarðareldstöðin aðeins austar tók svo við fyrir um 3 milljónum ára. Smám saman dó virknin þar út og Kjalarneseldstöðin tók við og átti stóran þátt í myndun Esjunnar. Kjalarneseldstöðin var virk í um hálfa milljón ár þar til landrekið olli því að virknin dofnaði. Stardalseldstöðin tók því næst við og Hengillinn með háhitasyæði allt um kring er megineldstöð í gosbeltinu í dag.
Esjan myndaðist í rauninni við stöðuga eldvirkni í um milljón ár fyrir 2 til 3 milljónum ára. Mótunin var hins vegar langt frá því að vera lokið fyrir um tveimur milljónum ára. Jökulskeið koma á um 100.000 ára fresti og áttu eftir að marka landslagið með ýmsum hætti. Allra stærstu jöklarnir skófu út Hvalfjörðinn, sundin og fjalllendið á höfuðborgarsvæðinu. Minni jöklar skófu ofan af sjálfu fjallinu og minnstu jöklarnir skófu út dali í fjallið eins og verið væri að taka með óskipulögðum hætti tertusneiðar af stórri lagköku.
Ingvar Birgir segir að til að einfalda jarðsöguna líki hann mótun Esjunnar stundum við æviskeið konu um sjötugt. „Barnvöxtinn tekur hún út á Kjalarnesi, um fermingu gengur yfir merkilegt vaxtarskeið með kvikuhlaupum og háhitavirkni í Skrauthólum og Þverfelli. Hátindi líkamlegs þroska nær hún liðlega tvítug með myndun Móskarðshnúka en þá er hún bústin og heit. Æskublóminn fer því næst að dvína, holdin tálgast utan af henni hér og þar, þó háhitavirknin í Stardalsöskjunni endist nokkuð lengi. Hún eldist illa og varta sprettur út úr henni á Mosfelli um sextugt. Önnur sprettur svo upp í Sandfelli í Kjós nokkrum árum síðar.“
Spennandi gönguleiðir
Eins og áður segir hefjast Esjugöngur gjarnan við Mógilsá. Ingvar Birgir segir ágætt að meginstraumurinn fari þar um. „Þarna hefur verið komið til móts við almenning með ágætis bílastæði og stigum yfir girðingar landeiganda á leiðinni upp á Þverfellshorn. Göngugarpar taka gjarnan eftir hvítu bergi í sprungum í gilinu og upp með Mógilsánni. Hvíta bergið er kalk og þarna var kalk tekið í fyrstu sementsgerðina á Íslandi. Kalkið var flutt á bátum yfir til borgarinnar og heitir Kalkofnsvegur, þar sem Seðlabankinn og bílageymslan undir honum eru nú, eftir kalkgerðinni. Eins hafa niðurstöður rannsókna gefið til kynna að þarna sé að finna vott af gulli og er í björtu veðri hægt að sjá glampa á steina í fjallinu. Þar glittir hins vegar því miður aðallega í glópagull.
Gangan tekur dálítið á en er nánast öllum fær langleiðina upp á Þverfellshorn eða þangað til komið er að klettabelti síðustu 20 til 30 m. Lofthræddum gæti orðið um og ó og vafalaust væri til bóta að setja þarna upp reipi til stuðnings eða einfaldlega fyrir lofthrædda að vita af.“
Hins vegar segist Ingvar Birgir undrast að sumir skuli hafa áhuga á því að fara sömu gönguleiðina oft og jafnvel mörgum sinnum í hverjum mánuði. „Af Þverfellshorni er frábært útsýni yfir Sundin og yfir Reykjanesið. Aftur á móti þarf að ganga töluvert langa leið uppi á sjálfu fjallinu til að njóta útsýnisins til norðurs.
Að fara hjá Skrauthólum upp á Kerhólakamb eða fjalllendið þar fyrir vestan gefur mun víðari sjóndeildarhring. Eins er hægt að fara upp á Móskarðshnúka til að sjá yfir höfuðborgarsvæðið, suðurfyrir og austur í gosbeltið á Þingvöllum, Kjósina og norður um allt. Löngu er orðið tímabært að varða þarna fleiri gönguleiðir fyrir göngufúsa.“
Aðrir eiga eflaust eftir að halda áfram að skeiða sömu leið upp á Þverfellshorn.
„Kunningi minn er einn af þeim,“ segir Ingvar Birgir og gefur til kynna að kunninginn hafi reynt að útskýra fyrir honum hvað lægi að baki atferlinu. „Hann sagðist hafa farið í World Class og hamast þar í svitaskýi frá sér og öðrum áður fyrr. Á meðan hann nyti líkamsræktarinnar einn í Esjunni þyrfti hann hins vegar aðeins að þola svitalyktina af sjálfum sér. Hann andaði að sér fersku útilofti og nyti fegurðarinnar í umhverfinu. Síðast en ekki síst þyrfti hann ekki að velta því fyrir sér hvaða stefnu bæri að taka heldur skeiða einfaldlega ósjálfrátt upp sömu leið eins og af gömlum vana.“
Flestar gerðir gosbergs
Ekki er að undra að Esjan sé talsvert notuð í kennslu því þar er að finna flestar gerðir íslensks gosbergs. „Ísland er að 90 hundraðshlutum basalt og því er efniviðurinn nánast allur sá sami. Lögun og ásýnd fer einfaldlega eftir því við hvaða aðstæður gosin hafa orðið. Ef gos verður á þurru landi myndast gígaröð og hraunið rennur í nokkra metra þunnu lagi yfir stórt svæði eins og til dæmis í Heiðmörk eða kringum Reykjavík. Ef gosið verður á hinn bóginn í sjó, stöðuvatni eða undir jökli verða mun meiri átök. Glóandi kvikan, hátt í 1.200 gráðu heit, snarkólnar og veldur gufusprengingu. Basaltblandan þeytist í háaloft, rignir aftur niður á jörðina og myndar hrúgur. Gott dæmi um hvort tveggja er þegar Surtsey myndaðist. Eftir að Surtsey var orðin svo há að sjórinn náði ekki lengur inn í gíginn hvarf feikimikill gufustrókur og basaltkvika með nákvæmlega sömu samsetningu fór allt í einu að mynda þunnt hraunlag,“ útskýrir Ingvar Birgir.
Hann rifjar upp að á milljón ára myndunarskeiði Esjunnar hafi gengið yfir um 10 jökulskeið. „Gosin urðu því gjarnan undir jökli og mynduðu stóra móbergshrauka eins og við sáum beinlínis í sjónvarpinu þegar gaus í Vatnajökli fyrir tveimur árum. Á hlýskeiðum hörfuðu jöklarnir og eftir stóðu fallega mynduð móbergsfjöll. Ef gos urðu á hlýskeiðum tóku við hraunlög og eftir því sem hlýskeiðin voru lengri og gosvirknin meiri grófst meira og meira af móberginu undir hraunlög. Með þversniði af Esjunni væri því auðveldlega hægt að greina heilu móbergsfjöllin inni í sjálfu fjallinu. Móbergið gefur Esjunni sérstakan blæ og ekki síst vestast. Þar hefur bergið orðið fyrir áhrifum frá feikilega stórum kvikuþróm frá tímum Kjalarneseldstöðvarinnar. Kvikuþrærnar teygðu sig upp og hituðu bergið í efstu lögum jarðskorpunnar. Bergið er mestmegnis úr gleri og svo viðkvæmt að við 100 til 200 gráðu hita fara sum efnanna að leysast upp og bergið fær á sig ljósan blæ.
Þegar Þórbergur kvað „Esjan er yndisfögur utan úr Reykjavík. Hún ljómar sem litfríð stúlka í ljósgrænni sumarflík,“ er hann að lýsa ljósu skriðunum þarna.“
Ingvar Birgir segir fróðlegt að líta upp í hlíðarnar í vestanverðri Esjunni. „Athyglisvert er að sjá hvernig dökk hraunlögin liggja neðan og ofan við móbergið.
Ef vel er að gáð sést sumstaðar hvernig jarðhitasprungur ná upp í gegnum móbergið og hraunlögin þar fyrir ofan. Hraunlögin eru þéttari fyrir og hafa því ekki ummyndast eins og móbergið. Fjallið er ekki heldur frítt við líparít. Líparítið kom upp í gosi í hringlaga sprungu utan við Stardalsöskjuna fyrir um 2 milljónum ára. Hringsprungan sker Þverárkotsháls, fer um suðurhlíðar Móskarðshnúka, klórar utan í Skálafell og aðeins í hæðina Múla fyrir austan Stapa. Oftar en einu sinni hefur gosið í hringsprungunni og ágætt er að sjá hvað kom út úr gosunum í Móskarðshnúkum. Ekki verður heldur undan skilið að stórir líparítgangar fara í gegnum Þverárdal, yfir Grafardal og ná langleiðina upp á hátind Esjunnar“, segir hann og tekur fram að hægt sé að sjá líparítið langar leiðir. „Oft finnst fólki að sólskin sé austast í Esjunni af því að Móskarðshnúkarnir eru svo ljósir.“
Ágæt dæmi um innskotsberg eru að sögn Ingvars Birgis í Þverfelli í Esjunni og á Músarnesi á Kjalarnesi.
Á Músarnesi, hinu eiginlega Kjalarnesi, séu skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi. „Ekið er að Brautarholti á Kjalarnesi og falast eftir leyfi landeiganda að fara niður í fjöruna þar. Mjög skemmtileg fjara er norðanmegin Músarnessins og gaman að ganga um klettaborgirnar. Eins er hægt að skoða Presthúsatanga á austanverðu Kjalarnesinu.
Skemmtileg ganga er frá Skrauthólum og upp á Kerhólakamb í vestanverðu fjallinu. Önnur skemmtileg ganga er frá Skeggjastöðum inn í hjarta Stardalseldstöðvarinnar í farvegi Leirvog inn að Tröllafossi. Auðvelt er að greina móberg sem myndaðist í öskjuvatni Stardalsöskjunnar og sjá hvernig hraunlögin undir móberginu halla inn að öskjumiðjunni. Svo hefur kvika troðið sér inn í móbergið og myndað grófkornótt innskot.
Fyrir þá sem ekki eru mjög uppteknir af jarðfræðinni getur verið gaman að sjá þarna hrafhslaup með ungum og tilheyrandi á sumrin,“ segir Ingvar Birgir og bætir því við að til að sjá enn meiri fjölbreytileika í landslagi sé gaman að halda áfram fram hjá Hrafnahólum. „Inn eftir Þverárdal er hægt að keyra hvaða bíl sem er að Skarðsá og þaðan er hægt að ganga upp í stórt innskot sem heitir Gráhnúkur og virða fyrir sér fallegt stuðlaberg. Á
fram er svo hægt að ganga upp á gígtappann Bláhnúk og alla leið upp á Móskarðshnúka.“ „Önnur auðveld leið er með gamla þjóðveginum upp í Svínaskarð. Efst úr Svínaskarði er svo auðvelt að ganga á austasta Móskarðshnúkinn. Þaðan er frábært útsýni til suðurs, austurs og norðurs. Stardalshnúkur er svo í sérstöku uppáhaldi hjá klifrurum. Þarna er einna fallegast innskot á vestanverðu landinu. Bergið er fallega stuðlað og svo grófkristallað að þarna eru góðar festur fyrir þá sem stunda fjallaklifur með reipum.“
Spurningum ósvarað
Eins og áður segir er Ingvar Birgir skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og fram kemur að doktorsverkefnið hafi á sínum tíma tengst jarðhita. „Ein aðalástæðan fyrir því hversu nákvæmlega ég rannsakaði fjallið var að ég hafði áhuga á að vita meira um í gegnum hvaða jarðlög verið væri að bora eftir heitu vatni i þéttbýlinu hér sunnanlands. Eini munurinn á jarðlögunum í Esjunni og í borholum eftir heitu vatni fyrir Reykvíkinga, Seltirninga og íbúa í Mosfellssveit er að hægt er að sjá jarðlögin í fjallinu með berum augum í giljum og klettaveggjum en jarðlögin í holunum koma aðeins upp í svarfi. Að mörgu leyti er því hægt að skilja betur eðli jarðhitans á höfuðborgarsvæðinu með því að skoða Esjuna.“
Ingvar Birgir segir að þó hann haldi að með rannsóknum sínum hafi hann getað dregið fram helstu einkenni í myndunarsögu fjallsins sé enn mörgum spurningum ósvarað. „Eftir að styrkari stoðum hefur verið rennt undir framhaldsnám í jarðfræði við Háskóla íslands er ekki ólíklegt að fleiri fari að rannsaka jarðlög í megineldstöðvum eins og í Esjunni. Ný greiningartækni er spennandi kostur og gefur ítarlegri upplýsingar en hægt var að nálgast á áttunda áratugnum.“
Heimild:
-Morgunblaðið, sunnudagur 20. september 1998, bls. 22-23.