Eyrarbakkki – Hús dönsku verslunarinnar; skilti
Nálægt gatnamótum Hafnarbrúar og Nesbrúar á Eyrarbakka er skilti: „Hús dönsku verslunarinnar„. Á því er eftirfarandi texti:
„Verslunarhús dönsku verslunarinnar stóðu á þessu svæði frá því seint á 17. öld þar til þau voru rifin vorið 1950. Þetta var þyrping átta húsa umhverfis húsagarð, byggð og endurbyggð á löngum tíma frá því 1755-1896. Talið að elstu uppistandandi húsin hafi verið byggð á fyrri hluta 19. aldar. Byggingar voru fleiri og meiri á Eyrarbakka en á öðrum verslunarstöðum landsins. Bryggja var fram undan húsunum og var hún tekin upp á vetrum.
Umdæmi Eyrarbakkaverslunarinnar var víðáttumest og fjölmennast af öllum verslunarumdæmum landsins. Það spannaði þrjár sýslur; Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skafatfellssýslu. ar bjuggu 20% þjóðarinnar árið 1703. Auk þess var Eyrarbakki verslunarhöfn Skálholtsstaðar sem var um aldir höfuðstaður Suðurlands.
Á lokaskeiði verslunarrekstrar í húsunum gengu þau undir heitinu Vesturbúðin. Það var til aðgreiningar frá annarri verslun í þorpinu, Austurbúðinni. Hóllinn sem húsin stóðu á gengur undir heitinu Vesturbúðarhóllinn. Skarðið sem brotthvarf húsanna myndaði í byggðamunstur þorpsins hefur verið líkt við sár. Niðurrif húsanna var eitt stærsta menningarslys á landinu á 20. öld.“
Skammt frá skiltinu um „Hús dönsku verslunarinnar“ er skilti um „Síðasta flaggmanninn“ á Eyrarbakka. Á því stendur:
„Kristinn Gunnarsson, síðasti flaggmaðurinn, er hér að störfum. Brimflögg voru í notkun á Eyrarbakka fram yfir 1960. Þau voru notuð til að vara sjófarendur við ef sundin versnuðu snögglega eða urðu ófær og var þá flaggað frá.
Brimflöggin voru þrjú. Flaggað var hvítu ef allt var í lagi, rauð flaggi ef það var varasamt en svörtu flaggi ef sundin urðu ófær.“