Fagradalsfjall

Fagradalsfjall

Gengið var vestur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu, upp Brattháls undir Lyngbrekkum og beygt áleiðis til norðurs austan hans. Þaðan var gangið upp á Langahrygg og skoðað flugvélaflak, sem þar er efst í öxlinni. Gengið var áfram til norðurs að Stóra-Hrút, haldið til vesturs sunnan hans, í átt að Geldingadal. Horft var niður í dalinn og síðan haldið áleiðis til norðurs upp á Langhól, hæstu bungu Fagradalsfjalls (385 m.y.s.). Efst undir Langhól eru leifar flugvélaflaks.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og umhverfi.

Gengið var niður af Langhól til norðausturs, skammt austan við fallegan þverskorinn gíg nyrst í fjallinu og gengið niður að Dalsseli. Frá því var haldið um Nauthólaflatir og Fagradal til suðurs, gengið milli fjallsins og Sandhóls-innri, um Kastið, skoðað flugvélaflak þar og síðan niður af því að sunnanverðu, haldið framhjá Sandhól og síðan um Borgarhraun framhjá Borgarfjalli til baka. Á leiðinni var komið við í Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsfjárborgin skoðuð áður en komið var að upphafsstað.
Fagradalsfjall er vestasta fjall Reykjanesfjallgarðsins. Er það raunverulega fjölbreytileg lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var slóðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum. Vísan var eftirfarandi:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera allra meina bót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra. Þá mætti ekki saurga vatnið, enda fékk sá sem það gerir, bágt fyrir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn í Drykkjarsteinsdal.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (f:1921)ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson íHerdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – gígur.

Sumsstaðar er jeppaslóðinn kominn yfir veginn. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.
Haldið var áfram upp með austanverðum Bratthálsi og Lyngbrekkum og stefnan tekin upp með Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill. Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Stóri-Hrútur hægra megin (fjær).

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stórahrút. Stórihrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stórahrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Langihryggur

Langihryggur – brak.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Dalssel

Í Dalsseli.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni. Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir.

Kastið

Kastið.

Eftir göngu til suðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli var komið að Kastinu. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943. Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank M. Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Frank. M. Andrews var æðstur í herafla Bandaríkjanna í Evrópu er hann fórst á Fagradalsfjalli eftir að flugmaðurinn hafði villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. „He was born on February 3, 1884 in Nashville, Tennessee and was killed in an aircraft accident in Iceland on May 3,1943. He was buried in Section 3 of Arlington National Cemetery. Andrews Air Force Base in Maryland is named in his honor. His death in a B-24 Liberator on May 3, 1943 was an enormous loss.“
AndrewsGengið var greiða leið niður af Kastinu að sunnanverðu. Skammt sunnar og austar með fjallinu er Selskálin. Hún er nú að mestu fokin burt. Sunnan hennar er Einbúi, stór hóll. Sunnan hans sést móta fyrir gamalli götu, sem kastað hefur hefur verið upp úr. Við hana er hlaðið gerði. Þaðan var haldið að Borgarhraunsrétt undir hraunbrúninni sunnan Borgarfells og síðan áfram að Borgarhraunsborginni. Gamla gatan frá Siglubergshálsi liggur að Drykkjarsteinsdal. Borgin er norðan hennar og er allstór. Gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar. Frá Borgarhraunsborg var örstutt eftir inn á slóðann frá Drykkjarsteinsdal niður að Ísólfsskála.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 55 mín.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.