Feluskátar
Skátafélag var stofnað í Hafnarfirði þann 22. febrúar 1925. Starfsemin hafði því varað í eitt hundrað ár þann 22. febrúar s.l.
Hreyfingin hefur allan þennan tíma átt dygga og trausta félaga og gott forystufólk hér í Hafnarfirði og víðar. Góður félagsskapur, þroskandi uppeldi, útivist, ríkur skilningur og þekking á umhverfi og samfélaginu hafa einkennt skátastarfið. Þetta eru þau gildi sem fylgja öllum sem verið hafa góðir félagar í skátastarfinu alla tíð.
Félagsskapurinn stuðlar að vexti og þroska ungmenna, bæði sem einstaklinga og sem samfélagsþegna, með verkefnum og frumkvæði að leiðarljósi. Í skátahreyfingunni fá ungmenni tækifæri til að læra, öðlast sjálfstæði, hafa frumkvæði, vera lausnamiðuð og verða góðir leiðtogar sem eru ávallt reiðubúnir að veita aðstoð og stuðla að jákvæðum breytingum í samfélaginu. Starfið stuðlar að vexti, þroska og framförum ungmenna. Þau fá tækifæri til að læra í gegnum skemmtileg, ögrandi og þroskandi verkefni, útivist og samveru. Í þessum verkefnum öðlast þau sterkara sjálfstraust og hugrekki sem verður að þykja dýrmætt vegarnesti til undirbúnings framtíðarinnar.
Framangreind gildi hafa þó ekki einungs verið bundið við skráða félaga í bækur hreyfingarinnar. Starfsemin hefur náð langt út fyrir hana, þótt leynt hafi farið, og má því segja að hún eigi sér miklu fleiri velvildarmenn í bænum en í fljótu bragði virðist.
Sumarið 1953 var tekin upp sú nýbreytni, að Hafnarfjarðarbær kom á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Milli 40 og 50 drengir dvöldust að öllu leyti í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Þeir héldu til í starfsmannahúsi Krýsuvíkurbúsins. Þessi starfsemi naut mikilla vinsælda meðal Hafnarfirðinga, enda bætti hún úr brýnni þörf. Færri drengir komust að en vildu. Í skólanum kynntust þeir ýmsum hagnýtum vinnubrögðum, voru undir góðum aga, lærðu að bjarga sér og var kennt að meta gildi vinnunnar.
Meðal verkefna innan dyra þurfti að búa um rúm, þvo þvott, skúra gólf, vinna við eldhússtörf, leggja á borð og vaska upp. Utan dyra var unnið að lagfæringu og snyrtingu á lóðum, vinnu í gróðurhúsum, ræktun kartaflna, aðstoð við ræktunarframkvæmdir og heyskap, viðgerðir á girðingum og margt fleira. Auk þess stunduðu þeir íþróttir og leiki og fóru í langar gönguferðir undir leiðsögn.
Á árunum eftir 1960 voru drengirnir í vinnuskólanum í Krýsuvík á aldrinum 8-12 ára. Var þá lögð sérstök áhersla á leiki, og var drengjunum t.d. veitt sérstök tilsögn í knattspyrnu. Nutu þá fleiri drengir dvalar en áður, því starfað var í tveimur flokkum, og dvaldi hvor flokkur fimm vikur í Krýsuvík. Þeir unnu venjulega fimm til sex stundir á dag, og var vinnan sem áður fyrst og fremst í þágu búsins og gróðrarstöðvarinnar í Krýsuvík.
Sumrin 1959 og 1960 unnu drengirnir í unglingavinnunni í Krýsuvík að skógrækt í skógræktargirðingunni í Undirhlíðum og settu þar niður samtals 100.000 trjáplöntur. Þessi skógræktarstörf voru unnin í samvinnu við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar.
Vinnudagurinn hófst með morgunkaffi. Síðan var yfirleitt unnið í flokkum hálfan daginn. Einn varð verkstjóri er hélt öðrum að vinnu og skráði hjá sér verðskulduð laun hvers og eins, allt eftir dugnaði og ástundun. Um var að ræða afkastahvetjandi launakerfi. Eftir hádegisverð var gengið um fjöll og fyrnindi. Um helgar voru leikir eða íþróttakeppnir.
Á kvöldin, fyrir kvöldkaffið, voru kvöldvökur eða kvikmyndasýningar á ganginum á fyrstu hæðinni, sem lauk með samsöng vors- eða sumarlags. Fyrir svefninn var farið með Faðirvorið. Allir áttu jafnan auðvelt með svefn eftir erfiðan dag.
Starfsfólk vinnuskólans var í einu orði sagt frábært. Það hafði utanumhald um hlutina, hélt uppi hæfilegum aga en veitti jafnfram nægan stuðning ef á þurftu að halda. Það var leiðbeinandi og gerði kröfur, en það verðlaunaði alla þá er áttu það skilið með eftirminnilegum hætti. Þannig eiga flestir þátttakendur vinnuskólans enn a.m.k. eitt handunnið viðurkenningaskjal, sem þeir fengu fyrir hvaðanæva það er þeir gerðu vel – í lok hvers tímabils.
Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands og svæðisleiðsögunám, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í nefndum og formaður nokkurra þeirra.
Sú „prófgráða“, sem hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn „útskrifaður“ frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.
Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður 1964 vegna ómerkilegar þrætur stjórnmálamanna bæjarins sem og tilkomu nýrra skilyrða í heilbrigðisreglugerð af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar stýrðu starfseminni, en skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum og stýrðu nemendum til verka. Má þar t.d. nefna skólastjórnedurnar Helga Jónasson og Hauk Helgason og skátaforingjana Ólaf Proppe, Hörð Zóphanísson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson, Sævar Örn Jónsson, auk kennaranna Eyjólfs Guðmundssonar og Snorra Jónssonar o.fl.
Framangreindir aðilar nutu mikillar virðingar hinna 550 ungu Vinnuskólanemenda á tímabilinu, langt umfram það sem ætlast var til, bæði vegna mannkosta þeirra sjálfra, en ekki síst vegna þeirrar aðferðarfræði sem þeir notuðu. Fræðin sú var í anda skátahreyfingarinnar. Segja má að allir stjórnendurnir, sem og hver og einn, hafi verið hreyfingunni til mikils sóma í hvívetna.
Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er skátaforinginn Hörður Zóphaníason:
:Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…:.
Heimildir m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar – Krýsuvík.
-Saga Hafnarfjarðar.
-Alþýðublaðið 13. ágúst 1957, bls. 4.
-Alþýðublaðið 13. júlí 1962, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.
-Alþýðublaðið 44. árg., laugardagur 13. júlí 1963, bls. 5.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar 16. maí 1962, bls. 5.
-Myndir tók Haukur Helgason.
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-i/
-https://ferlir.is/krysuvik-vinnuskolinn-ii/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-i-krysuvik/
-https://ferlir.is/vinnuskolinn-rjomaterta-fyrir-goda-umgengni/