Flekkuvík – rúnasteinn
Árni Óla skrifaði um „Rúnastein í Flekkuvík“ í Strönd og Voga:
Rúnasteinn í Flekkuvík
„Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll eða stór þúfa, sem kallast Flekku-leiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.
Hver var Flekka?
Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fékk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra.
Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja vegna víkurinnar svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyldi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.
Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið
Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka, hvort hér gæti verið um font kuml að ræða. Mönnum bar ekki saman um, hvernig lesa skyldi úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið
Flekka, en yfir því stóðu skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri. Töldu sumir, að lesa ætti „hér hýsir“, en aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónasi því fýsilegt að fá úr því skorið, hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið, þá átti svo að vera.
En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans, er þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík.
Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“ Lét Páll þá til leiðast og samþykkti, að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2/2 álnar breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri:
Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla.
… Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4—5 þuml. Hann er því, sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella. … Af því hingað og þangað var að sjá steinsniddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna.“
Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafist þess fyrir fram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýju, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílir“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þama væri Flekka heygð.
Sumarið 1959 kom ég að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar. Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn lokinni.
En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sest í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skýrðir.
Ég reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók ég af þeim meðfylgjandi mynd.
Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja, að Kaalund sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa [ heldur J, eins og kemur líka fram á ljósmyndinni. Þessi rún er nokkum veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sézt yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína.
Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir striki út úr aðalleggnum, en fráleitt held ég að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar.
Þess má geta hér, að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skýrði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir, að rúnirnar sé „greinilegar“, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir, að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað sögurnar um, að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.
Hvaðan er Flekkunafnið?
Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn.
Hér em bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir em báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi, litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er, að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæjarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir giska á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um, að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti), sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, FHkki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja, að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en þó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
Hér skal ekkert fullyrt um, hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undanskilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér, að til hafi verið í forneskju einhver vættur, sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). í Snorra-Eddu er jötunsnafnið Fleggur, en það gæti alveg eins verið Flekkur, því að greinarmunur var ekki gerður á g og k í rúnum.
Flekkuleiði ætti að varðveita
Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helst ekki glatast. Það segir sína sögu um það, hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu, sem hét Flekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík drægi nafn af fjölkunnugri konu, er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna, sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helsti bjargræðisvegurinn.
Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farist þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar. Ákvæði hennar haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða, að menn fari að trúa því, að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún varð sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina.
Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggvið rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku, til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýjar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.“
Rannsókn Jónasar Hallgrímssonar
Jónas Hallgrímsson skrifaði um rannsókn sína á Flekkuleiðinu 1841 eins og fram kemur hér að framan:
„Flekku-leiði í Flekkuvík“
Í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan tún-garðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2’/4 al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri, eins og kunnugt er:
Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því, sem það væri hleðsla. Ég álít því nauðsynlegt, þar sem ágreiningur er um merkingu letursins, að rannsaka staðinn; því á einn bóginn er merkis-álit F. Magnussens, en hinu megin útlit hólsins, er ber öll merki þess að vera kuml, þótt lítið sje, og jafnframt nafnið sjálft, Flekku-leiði, og almenn sögusögn, og svo rík, að þar eru tengdar við bábiljur, svo sem til að mynda, að Flekka hefði sagt, þar myndi ekki farast skip á réttu sundi, meðan hún lægi fyrir opinni leiðinni. þessu trúa Strandarmenn svo ríkt, að þeim stóð hinn mesti stuggur af komu minni, og hét ég þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gjöra þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gjört við helga menn. –
Leyfi til rannsóknarinnar hefi ég nú loksins fengið hjá landsdrottni séra Pétri á Kálfatjörn, og samþykki ábúanda Páls bónda, móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla, þar hóll þessi stendur í óslegnu túni.
Letursteinninn er nú upptekinn og mældur:
lengd hans er 15″ – 16 1/2″.
Breidd 12″.
Þykkt 4″ – 5″.
Hann er því, sem sjá má, lítill og heldur ólöguleg hraunhella. Nú er rannsókninni lokið! Af því hingað og þangað var að sjá steinnibbur út úr brúnum hæðarinnar, ótti líklegt, að vera myndi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur afskorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. – Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið.
Það er því ljóst, að annaðhvort hefir F.M. rétt að mæla, eður þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hjer steininn til að blekkja menn trúgjarna.“
Í viðauka bætir Jónas við um Flekku-liðið: „“Flekku-leiði“; um það og skrif um það sjá Kr. Kå., Isl. Beskr., I., 31.-8. I., „hvorlades“ o.s.frv.; að sjálfsögðu hefir þessi skammstöfun átt að merkja „hér hvílir“. Áletrunin er sennilega frá 17.-18. öld, gerð vegna munnmælanna um að þarna væri „Flekka heygð. – „Flekka“ virðist vera ærnafn eða tíkur og ekki konu., „Dagbog“, vasahverið frá 1840; þar er frumrit af þessari skýrslu, ritað með blýanti á 3 bls. – Bls. 171, 14. l., „séra Pétri“, Jónssyni. – 15. l., „Páls bónda“ Vigfússonar. – 3. l.a.n.“
Um rúnasteininn í Flekkuvík – Þórgunnur Snædal
Þórgunnur Snædal skrifaði um „Rúnaristur á Íslandi“ árið 2003, þ.á.m. rúnasteininn á Flekkuleiðinu:
„5. Flekkuvík, Gullbringusýslu. Hraunsteinn á grasgróinni hraunhæð, svonefndu Flekkuleiði, suðaustur frá bænum, um 90 metra vestan við (gamla) afleggjarann og um þrjá metra inna við túngarðinn. hraunhellan er um 42×33 cm. Steinninn er nokkuð sokkinn í jörð svo þykktin varð ekki mæld, rh. 7,5-9 cm:
hh flecka
H(ér) h(vílir) Flekka.
Rúnirnar eru djúpar og vel varðveittar. Ekki er auðvelt að tímasetja þessa ristu en hún er varla eldri en frá 17. öld. Flekkuleiðis og rúnasteinsins er fyrst getið 1817 í skýrslu séra Guðmundar Böðvarssonar um fornaldarleifar í Kálfatjarnarsókn.“
Gömul sögn – Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson skrifaði um Flekku í Skírnir árið 1978:
„Frá um 1840 eru sagnir um hollvætti sjómanna, Flekku við Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Hafði hún átt að segja að ekkert skip missti lands svo lengi sem hún lægi óhreyfð í leiði sínu, Flekkuleiði. Íbúar á staðnum ömuðust við raski á leiðinu (Kál I, 13).“
Rúnaletur
Rúnir eru elsta form skrifleturs meðal germanskra þjóða. Orðið rún getur merkt leyndarmál, einkamál eða vísdómur. Til eru tvær gerðir af rúnakerfum. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og var notað frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt rúnakerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðeins fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi.
Á Víkingaöld notuðu menn rúnaletur og var letrið rist á horn, tré og steina. Íslenskar rúnaristur hafa fundist á legsteinum frá 1300-1700. Textar í rúnaletri voru ekki mjög langir enda gat verið seinlegt að rista þá. Rúnaletrið var einfalt og sumir stafir gátu táknað meira en eitt hljóð. Rúnastafrófið er nefnt fúþark eftir fyrstu sex stöfunum.
Rúnir hafa verið notaðar allt frá landnámi Íslands. Þegar fyrstu landnemarnir settust að hérna var nýlega búið að taka í notkun yngra rúnaletrið með 16 stöfum í staðinn fyrir 24 stafa rúnaletur.
Íslensku rúnirnar fylgdu þeim norsku fast eftir allt til loka þjóðveldisins með nokkrum undantekningum þó. Eftir lok þjóðveldisins verður munurinn þó smám saman meiri og séríslenskar rúnamyndir verða algengari.
Rúnaletur var notað á Íslandi eiginlega alveg fram á 20. öldina en við lok 19. aldar var farið að birta greinar um rúnir á íslensku, meðal annars skrifaði Björn M. Ólsen, prófessor í íslenskri tungu og menningarsögu, greinar í Árbók Fornleifafélagsins og Finnur Jónsson ritaði einnig um íslenskar rúnaristur og þá hvarf íslenska rúnahefðin og vitneskja um rúnir var sótt í þessi rit.
Heimild:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 206-215.
-Jónas Hallgrímsson, III. Dagbækur, Yfirlitsgreinar o.fl., Flekkuleiði í Flekkuvík, bls. 170-171.
-Þórgunnur Snædal. 2003. „Rúnaristur á Íslandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, bls. 5-68. Hið íslenzka fornleifafélag, Reykjavík.
-Skírnir, Helgi Þorláksson, 1. jan. 1978, bls. 137-138.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=70101
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3887