Flugslys við Vogshól 1942 og 1944

Vogshóll

Ferlir hafði staðsett 31 flugslysastaði á Reykjanesskaganum. Nú var komið að því að leita uppi og skrá þann 32. í röðinni.
vogshol-2Í bók Friðþórs Eydals, Frá heimstyrjöld til herverndar, er ljósmynd af flugslysi á Njarðvíkurheiði 27. desember árið 1942 og meðfylgjandi texti: „Flak Katalína-flugbáts Bandaríkjaflota við Vogshól í Njarðvíkurheiði 27. desember 1942. Flugvélin sundraðist og brann er eldsneyti og djúpsprengjur sprungu (NARA 80-G-27553).
FERLIR hafði samband við Friðþór með það fyrir augum að leita nánari staðsetningar flaksins. Hann brást vel við – að venju: „Já, ég geri það svona nokkurn veginn samkvæmt lýsingum félaga míns sem hefur farið á staðinn. Viltu að ég útvegi lýsinguna?“ Eftir jákvæða umleitan barst eftirfarandi svar: „Kunningi minn leitaði slysstaðinn uppi fyrir nokkrum árum og sagðist hafa fundið smá brak á víð og dreif. Staðsetningin er er þessi: .,-.“
Auðvelt var að finna brakið eftir lýsingunni. Það var undir lágum klapparhrygg. Meginbrakið, þ.e. sjálfur slysstaðurinn, var allgreinilegur. Umhverfis var brak á víð og dreif; vélarhlutir, skot og skrokkhlutar.
Í framhaldinu var leitað bæði til Sævars Jóhannesonar og Karls Hjartarssonar. Báðir búa þeir yfir miklum fróðleik um flugslysasögu stríðsáranna. Báðir buggju yfir áhugaverðum upplýsingum.
Um flugslys Bandaríkjamanna á þessum tíma er til dagbók stríðsins (VP-84 War Diary). Meðfylgjandi henni vogsholl-3eru svo skýrslur um sérhvert slysanna. Auk þess má sjá atvikum lýst í bréfum frá herstjórninni til höfuðstöðvanna í Bandaríkjunum (Letter from Comm. VP-84 to Comm. Air Force, U.S. Atlantic Fleet). Bréf þessa efnis var dagsett 28. ágúst 1943.
Svo er að sjá sem átta manna áhöfn hafi farist í flugslysinu; fjórir foringjar og fjórir óbreyttir.
Í nefndri slysaskýrslu (Accident Record sheet) segir m.a. um atvikið: „Dagur: 27. 12. 1942. Tími: 07:44. Deild: VP-84, USN, Tegund: PBY-5A. Nr.: 04402. Kódi: (enginn). Flugmaður: Lt. H.H. Luce, USNR. Stöð: FAB Reykjavík. Staðsetning: Keflavíkursvæði. Tjón: Alger eyðilegging.
Lýsing: 1) Kl. 07:26 tók flugvél nr. 04402, eftirlitsvél undir stjórn Lt. H.H. Luce, á loft í þeim tilgangi að veita kafbátum mótspyrnu. Kl. 07:44 hrapaði vélin nálægt Keflavík. Öll áhöfnin lést.
2. Þann 27. desember 1942, tók Lt. H.H. Luce, A-V (N), USNR, á loft með tveimur flugmönnum og áhöfn fimm manna. Það var tunglskinsnótt, en 5/10 takmarkað skyggni með mikilli snjóvindhviðum á svæðinu. Lt. Luce kom inn í eina slíka vindhviðu án þess að átta sig á skaðsemi hennar og hrapaði á Keflavíkursvæðinu. Tvær aðrar flugvélar, sem hófu flug á sama tíma vöktu athygli á sérstaklega mikilli ókyrrð þessarrar vindhviðu eftir að þær lentu í henni.

vogsholl-6

Ein þeirra steyptist og hún nánast hrapaði áður en náðist að rétta hana af. Það er ómögulegt að greina snjóvindhviður að næturlagi og að forðast þær er jafn erfitt. Öll áhöfn flugvélarinnar létust í hrapinu. Flugvélin brann í snertingu við jörðina. Þeir sem létust voru: Lt. H.H. Luce, A-V(N), USNR, Lt (jg) D.A. Helms, A-V(N), USNR, skráður G.S. Nelson, a-V(N), USNR, Bryan, J.L., AMM3c, USN, Eichelberger, C.A., ARM1c, USN, Coode, B.W., ARM3c, USN, Hammond, W.C., AMM3cV6, USNR, Kantz, W.P., AMM1c, USN.
Athugasemdir: Í framhaldi af viðræðum við deildarmeðlimi kom fram hjá fyrirliða C.O., Tt.Cdr. Jesse J. Underhill, USN, að hann taldi veðrið væri viðunandi til flugs og fór til Capt. Daniel V. Gallery, C.O. á flotastöðinni með þá kröfu að flugi þennan morgun yrði aflýst. Þessari kröfu var hafnað af Capt. Gallery, og fimm flugvélar tóku á loft á A/S „sópum“ frá kl. 07:07 til kl. 08:58. Frá kl 09:47 til kl. 10:15 móttöku allar flugvélarnar skilaboð um að snúa til baka til stöðvarinnar. Umræddar flugvélar voru: 7276 Lt (jg) J.T. Hocan 0707-1253, 2457 Lt (jg) E.W. Merkt 0802-1155, 7261 Lt (jg) L.L. Davis 0722-1210, 2459 Lt P.F. Bankhard 0858-1025 og 0442 Lt H.H. Luce 0726-0744 (hrapaði).“ Tölurnar aftan við nöfnin eru tímasetningar flugtaks og lendinga.
vogsholl-9Á vettvangi flugslyssins á Njarðvíkurheiði var augljóst að þangað hafði enginn komið um langa tíð.
Á nútíma landakortum sem og á herforingjakortunum er Vogshóll merktur austan við Skipsstíg, sunnan Sjónarhóls. Í ljósi framangreindra upplýsinga virðist þurfa að skoða það eitthvað nánar.
Í framhaldi af framangreindri umfjöllun hafi Ólafur
Marteinsson samband með eftirfarandi upplýsingar:
„Ágætu Ferlir. Ég var að lesa frásögn á heimasíðu ykkar um flugslys við „Vogshól“ á Njarðvíkurheiði. Frásögnin um Catalina flugbátinn er að miklu leiti rétt enda byggð á samtíma skýrslum hersins.
Ég hef athugasemd við seinni tíma frásagnir af slysinu við „Vogshól“. Þessum frásögnum fylgja myndir sem ekki eru af Catalina slysstaðnum. Samtímamynd Friðþórs Eydal er eina myndin sem tilheyrir Catalina slysinu. Ég fór í leiðangur á „Vogshól“ sl. sumar og fann slysstaðinn fljótt eftir mynd Friðþórs.

vogsholl-4

Strax þegar ég kom á staðinn sá ég að staðurinn þar sem mest var af flugvélahlutum var ekki slysstaður Catalína flugbátsins. Á staðnum var talsvert af hlutum t.d. sveifarás með 18 stimpilstöngum, af þessu mátti sjá að hreyfillinn var 18 strokka en ekki 14 strokka eins og hreyflar Catalína eru. Einnig var mjög áberandi ca. 5 m löng tvískipt pústgrein sem ekki var úr Catalina flugbát.
Hófst nú nákvæmari rannsókn á því hvaða flugvél lá þarna utan í „Vogshól“ og hvar var Catalina flugbáturinn?
Ég skoðaði hluti og skráði part númer og raðnúmer.  Teiknaði upp nokkra skoðunarstimpla sem voru sæmilega glöggir. Þessar upplýsingar gáfu til kynna að hlutirnir voru frá Republic Aviation flugvéllaframleiðandanum.
Flugvélin sem þarna fórst 8. júli 1944 var Republic P47 Thunderbolt orrustuflugvél s/n 42-26100 frá USAAF 33  Fighter Squadron / 342 Composit Group, staðsett á Meeks Field, Keflavík. Orsök slyssins var hreyfilbilun. Flugmaðurinn Latham, Thomas J bjargaðist í fallhlíf.  Latham, Thomas J bjargaðist í fallhlíf í svipuðu flugslysi við Húsatóftir 13. Júní 1944.

Vogshóll

Brak við Vogshól.

Ég fór aftur á staðinn stuttu seinna, stækkaði leitarsvæðið og eftir dágóða yfirferð fann ég dreifða hluti, sem báru ártöl, part númer og skoðunarstimpla frá Consolidated Aircraft flugvélaframleiðandanum. Meðal annars var á staðnum grind úr hæðarstýrisfleti og á grindinni voru leifar að dúkklæðningu. Þessi hlutur var úr Catalína en ekki Thunderbolt.
Flugvélin sem þarna fórst 27. desember 1942 var Consolidated Catalina PBY-5A flugbátur, BUNO 0442 frá US Navy. VP-84 Squadron.
Hlutir úr Catalinu flugvélinni eru dreifðir yfir stórt svæði og skarast það svæði við svæði þar sem finna má hluti úr Thunderbolt flugvélinni.
Við „Vogshól“ hafa orðið tvö flugslys og einhverra hluta vegna hafa sögur af Catalina slysinu fengið meiri umfjöllun.
33. flugslysastaðurinn á Reykjanesskaganum er kominn fram!
Með kveðju – Ólafur Marteinsson.“

Heimildir:
-Frá heimsstyrjöld til herverndar – Keflavíkurstöðin 1942-1950, Friðþór Eydal 2007, bls. 220.
-Friðþór Eydal.
-Karl Hjartarsson.
-Sævar Jóhannesson.
-Ólafur Marteinsson – áhugamaður um Aviation Archeology.

Vogshóll

Brak við Vogshól.