Fornleifar í Skúlatúni og í Helgadal

Helgadalur

Fornleifar í Skúlatúni og í Helgadal
heimildir og tillaga um rannsókn

Skúlatún

Skúlatún

Í Árbókinni 1908 fjallar Brynjúlfur Jónsson um „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907„; annars vegar í Gullbringusýslu og hins vegar í Skúlatúni. Þar fjallar hann bæði um tóftir í Skúlatúni og í Helgadal. ÓSÁ tók saman.

„Í Árbók fornleifafélagsins 1903, bls. 33—34, hefi eg getið þess, að nafn Skúlastaða, — þar sem Ásbjörn landnámsmaður Özzurarson bjó, — sé nú týnt, og jafnframt, að eg hefði síðan heyrt sagt frá því, að hrauni umgirtur grasblettur uppi undir Lönguhlíð væri nefndur Skúlatún.

Helgadalur

Helgadalur

Kom mér í hug að það væri stytt úr Sculastatun; þar hefði bærinn verið og orðið undir hraunflóði, en túnið, eða nokkur hluti þess, hefði staðið upp úr hrauninu. Ásetti eg mér að nota fyrsta tækifæri til að koma á þenna stað. En í þeirri ferð, sem eg var þá í, var það um seinan, er eg heyrði Skúlatúns getið. Auðvitað gerði eg mér eigi háar vonir um að finna þar fornleifar, einkum eftir að eg hafði séð, að dr. Þorvaldur Thoroddsen hafði komið þar, á ferðinni um Reykjanesskagann, og álitið tvísýnt að þar hefði bær verið. Samt þótti mér ófróðlegt að sjá ekki þenna stað, og fór eg þangað í sumar.

Landslagi er svo háttað, að hraunfláki mikill fyllir víðlenda dæld sunnan frá Lönguhlíð norður að ásahrygg þeim, er gengur frá Námahálsinum vestan við Kleyfarvatn (inn frá Krýsuvík) alt inn á milli Kaldársels og Helgafells.

Helgadalur

Helgadalur.

Suðausturhliðin á ásahryggnum, sú er veit að Lönguhlið og hraunflákanum áðurnefnda, kallast Bakhlíðar [Gvendarselshæð], og eru þær lægri en Undirhlíðar, þar eð hraunflákinn er hærri en hraunin fyrir neðan ásahrygginn.

Helgadalur

Helgadalur.

Þaðan til Lönguhlíðar er þvervegur hraunflákans, og hygg eg hann hátt upp í mílu, en langvegurinn er frá Helgafelli og Grindaskarða hraunbálkinum út að botninum á Breiðdal, sem er fyrir norðan Kleifarvatn, og hygg eg hann yfir mílu. Allur er hraunflákinn sléttur ofan, vaxinn grámosa og eigi gamallegur útlits. Hann er hallalítill, og mun dældin, sem hann hefir fylt, hafa verið nokkuð djup með mishæðóttu láglendi, sem nú er ekki hægt að gera sér ákveðna hugmynd um. Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á öllum þessum þrem stöðum er einkennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti eg trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleifum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannaverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmegin þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvestan-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upprunalega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var i þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum. Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér hefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið »Skúlatún«, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“

Helgadalur

Tóftir í Helgadal. Vel sést móta fyrir skála v.m. á myndinni.

Þá fjallar Brynjúlfur um minjarnar í Helgadal:

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skamt þaðan héti Helgadalur og skoðaði eg því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa. Helgadalur er skamt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur hóll norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni.

Helgadalur

Helgadalur – tóft – skissa ÓSÁ.

En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefir runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt síg vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn. Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhlið-vegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn. Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér að eins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Eg dró upp mynd af rústinni.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafl verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nu eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (sbr. Árb. fornl.-fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskamt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Í dag, árið 2011, mótar ekki fyrir húsum í Skúlatúni. Þar með er ekki sagt að þar kunni ekki að leynast hús, einkum austast í túninu. Í Helgadal sér fyrir 9 m löngum skála sem og þremur öðrum byggingum.

Skúlatún

Ungar í hreiðri í Skúlatúni.

Líklegt má telja að í dalnum hafi verið tímabundin búseta kúabúskapar yfir sumartímann allt frá fyrstu tíð búsetu hér á landi, líkt og sá má við sambærilegar aðstæður við Urriðavatn. Við uppgröft þar mætti eflaust finna þar skálann, fjós og jafnvel fleiri byggingar. Líklegt má telja að minjar við Rauðshelli tengist Helgadalstóftunum.

Lagt er til að kannað verði hvort mannvistarleifar leynist í Skúlatúni og að könnunarrannsókn fari fram á tóftunum í Helgadal með það að markmiði að leggja að heildstæðum fornleifauppgrefti á staðnum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ef niðurstaðan verður skv. væntingum ætti að verða auðvelt að ganga þannig frá mannvistarleifunum í Helgadal að áhugasamt göngufólk um sögu og menningu svæðisins eigi auðveldan aðgang að því.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1908, Brynjúlfur Jónnsson; Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson. Í Gullbringusýslu. II Skúlatún, bls. 9-11.
-Þorvaldur Thoroddsen. Ferðabók I (ferð 1883). Kaupmannahöfn 1913.
-Þorvaldur Thoroddsen. Lýsing Íslands II. Kaupmannahöfn 1911.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.