Fornleifar – nýting

Bessastaðir

Sú hugmynd hefur komið fram að nýta megi fornleifar í þágu þjóðarinnar – á þann hátt, sem flestir gætu verið sammála um. Hugmyndin gengur út á það að peningar fáist fyrir verðmæti, sem þegar eru til eða verða til með tímanum.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Þar sem svo lítill áhugi er yfirleitt á gildi fornleifanna meðal almennings, og jafnvel ráðamanna, væri ekki úr vegi að reyna að gera verðmæti úr því sem þó er til, a.m.k. þessa stundina, og gera þannig tilraun til að efla áhuga þeirra sömu á efninu og samræma um leið tvennt; annars vegar varðveislu og nýtingu og hins vegar eyðingu gegn gjaldi. Flestir ættu að geta samþykkt það – a.m.k. miðað við núverandi stöðu. Reynslan hefur jú sýnt að peningar eru það sem málið snýst um – þegar upp er staðið. Mikið af fornleifum hafa farið forgörðum í gegnum tíðina, án þess að nokkur hafi sagt nokkurn skapaðan hlut – eða gjald komið fyrir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Garðahrauni / Hafnarfjarðarhrauni.

Stjórnmálamenn reikna gildi hlutanna út frá hagnaði, eða kostnaði, eftir hvernig á það er litið. Áhuginn vex í réttu hlutfalli við mögulegan arð, eða minni kostnað. Ef gerð yrði gangskör í því að koma núverandi fornleifum í verð myndi skapast svigrúm til að leita að öðrum – til að selja. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar peningar, sem hingað til hefur vantað, og hins vegar myndu „nýjar“ og áður óþekktar fornleifar finnast, en hingað til hefur ólaunað áhugafólk fundið flestar „óhefðbundnar“ fornleifar, sem merkilegar geta talist hér á landi.
Þetta fyrirkomulag kallar á nýja hugsun – nýja nálgun á viðfangsefninu – ódýrari nálgun en áður hefur þekkst. Núverandi stofnanir yrðu með því óþarfar. Það myndi spara umtalsverða opinbera fjármuni. Auk þess myndi verkið verða boðið út og meginsöluandvirði minjanna renna i ríkissjóð. Sem sagt; ekki bara útgjaldasparnaður heldur og tekjumyndun. Hvaða þingmaður gæti mælt gegn slíkum rökum?

Garðastekkur

Garðastekkur.

Verktakar, sem fengju úthlutað einstökum framkvæmdum, s.s. vegagerð, virkjunum eða byggingu annarra mannvirkja, ættu kost á að kaupa fornleifar á framkvæmdarsvæðunum og ráðstafa þeim að vild (eins og reyndar er gert er í dag), en andvirðið myndi renna í ríkissjóð. Þannig myndi vinnast a.m.k. tvennt; annars vegar getur ekkert komið í veg fyrir framgang framkvæmda og hins vegar gætu fornleifar á svæðinu orðið til þess að verktakinn þyrfti sjálfur að taka þátt í kostnaði við framkvæmdina. Einungis það myndi auk alls þess, sem að framan greinir, draga úr útgjöldum ríkissjóðs og fela í sér aukin sparnað. Hvaða alþingismaður gæti mælt gegn slíku?
Hvers virði eru þá, ef tekið er mið af öllu framangreindu, hinir huglægu þættir fornleifanna – áþreifanlegu tengsl nútímamannsins við fortíðina, í aurum talið? Svar stjórnmálmannsins ætti ekki að þurfa að verða erfitt: „EINSKIS VIRÐI“.

Allians

AllianZ-fiskreitur við Hrafnistu. Var eyðilagður er viðbygging var gerð.

Að vísu hefur allnokkrum óarðbærum fjármunum verið sóað í að grafa upp minjar, sem vitað er hverjar eru. Hvers vegna ekki að nýta frekar féð í að finna „nýjar“ minjar, sem hægt er að gera úr einhver verðmæti? Og hvers vegna ætti að varðveita þekktar fornminjar með miklum opinberu tilkostnaði? Og það á tímum hraðþróun alþjóðavæðingar þegar fæstir innfæddir og engir aðfluttir hafa áhuga á hinum gleymdu leifum eða gömlum minjum hvors sem er! Og hverjir eru þá eftir? Örfáir meðvirkir og einstaka fræðimaður – og nokkrir ferðamenn, sem vantar myndefni. Þessir fáu ættu þó varla að koma í veg fyrir að framangreind hugmynd næði fram að ganga. Myndefnið verður til staðar eftir sem áður – í eigu einkaðila.
Örfáir menn – og konur – hafa lagt mikla áherslu á mikilvægt gildi fornleifanna, einkum vegna þess að þær sýna við hvaða ólýsanlegu aðstæður forfeður og -mæður vorar þurftu fyrrum að takast á við til að koma okkur, nútímafólkinu, til manns. Hugsjónin er eitt (og einskis virði) – verðmætamatið annað (og enn norkkurs virði). Nú er því rétti tíminn til að selja „hlutabréfin“ í fornleifunum.
Að sjálfsögðu er hér um að ræða frumlega framsetningu, en öllu gamni fylgir jú einhver alvara – einkum ef tekið er mið af núverandi stöðu þessara mála.

Dómhringur

Dómhringur.