Á sjávarbakka í botni Fossvogs á klettinum Hanganda/Votabergi um 110 m vestur af Kringlumýrarbraut og 122 m norðvestur af bensínstöð N1 er skotbyrgi.
Byrgið tilheyrði Camp Fossvogi sem var fyrir botni vogsins og var síðar einnig nefndur Camp Cook South. Kampurinn er skráður undir jörðina Laugarnes.
Á bakkanum norðvestan við eru leifar af tveimur undirstöðum og grunni sem tilheyrðu einnig kampinum.
Byrgið er heillegt skotbyrgi. Veggir eru hlaðnir en þakið er steypt með halla að framan. Gengið er niður þrjú steypt þrep í byrgið á norðausturhlið. Byrgið er þakið jarðvegi og er grasi vaxið.
Norðvestan við er lágt garðlag um 20 m á lengd, liggur norður-suður með ströndinni og annað minna 10 m austar, um 10 m á lengd, bæði garðlögin eru greinileg á loftmyndum frá árinu 1954 og síðar, ekki er ljóst hvaða garðlög þetta eru.
Úr byrginu var útsýni til sjávar þannig að þar hefur verið hægt að fylgst með skipaferðum og flugi yfir Fossvog. Fyllt hefur verið upp í skotraufina en líklega hefur það verið notað sem geymsla fyrir matjurtir seinna.
Hlaðin eða steypt skotbyrgi frá stríðsárunum eru 50 talsins á höfuðborgarsvæðinu.
Heimild:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.