Gamla tímatalið og eyktarmörk
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir fjallar m.a. um „Gamla tímatalið og Eyktarmörk“ í skrifum sínum um „Vitnisburð búsetuminja“ í Smáriti Byggðasafns Skagfirðinga árið 2010:
Gamla tímatalið
Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir.
Í Smáritinu er ýmiss fróðleikur um búsetuminjar tekinn saman og þær útskýrðar. Hér verður þó einungs fjallað um tvennt ofangreint:
„Þótt mánaðaheitin okkar hafi gilt áður fyrr eins og þau enn gera þá var fólki tamara að nota önnur og eldri heiti sem fremur voru bundin við athafnir og afkomu fólks heldur en mánaðaheitin. Nöfn eins og mörsugur um háveturinn sem lýsir því að þá reynir á vetrarforðann og sýgur mörinn af tvífættum jafnt og ferfættum, eða heyannir um þann tíma sem heyskapur stóð sem hæst. Þessi þula lýsir vel við hverju mátti búast á hverjum tíma.
–Mörsugur, á miðjum vetri, markar spor í gljúfrasetri.
–Þorri hristir fannafeldinn, fnæsir í bæ og drepur eldinn.
–Góa á til grimmd og blíðu, gengur í éljapilsi síðu.
–Einmánuður andar nepju, öslar snjó og hendir krepju.
–Harpa vekur von og kæti, vingjarnleg og kvik á fæti.
–Skerpla lífsins vöggu vaggar, vitjar hrelldra, sorgir þaggar.
–Sólmánuður ljóssins ljóma leggur til og fuglahljóma.
–Heyannir og hundadagar, hlynna að gæðum fróns og lagar.
–Tvímánuður allan arðinn, ýtum færir heim í garðinn.
–Haustmánuður, hreggi grætur, hljóða daga, langar nætur.
–Gormánuður, grettið tetur, gengur í hlað og leiðir vetur.
–Ýlir ber, en byrgist sólin. Brosa stjörnur, koma jólin.“
Árni Björnsson.
Eftirfarandi um Gamla tímatalið er úr bók Árna Björnssonar, „Saga daganna„:
„Harpa var fyrsti mánuður sumars og líklega ársins. Harpa hófst með sumardeginum fyrsta. Nafnið Harpa er ekki mjög gamalt, e.t.v. frá 17. öld, og uppruni þess óljós en tengist kannski vorhörkum, herpingi. Í Snorra-Eddu er mánuðurinn kallaður gaukmánuður og sáðtíð. …
Sumardagurinn fyrsti er einhver elsti hátíðisdagur þjóðarinnar . Hann er nefndur í Íslendingasögum og elstu lögbókum landsins. Sumargjafir eru þekktar allt frá 16. öld og þær því miklu eldri en jólagjafir.
Skerpla var annar mánuður sumars og hófst á laugardegi í 5. viku sumars (19.–25. maí). Nafnskýring er óljós en hugsanlega er vísað til þess að á þessum árstíma er gróður skammt á veg kominn. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður eggtíð og stekktíð .
Gamla tímatalið.
Sólmánuður var þriðji mánuður sumars og hófst mánudaginn í 9. viku sumars (18.–24. júní). Heitið sólmánuður skýrir sig sjálft. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður einnig nefndur selmánuður .
Heyannir var fjórði mánuður sumars og hófst með miðsumri (23.–29. júlí). Heitið heyannir vísar til mikils annatíma í sveitum. Mánuðurinn sjálfur, eða nokkur hluti hans, mun einnig hafa borið nafnið miðsumar .
Tvímánuður var fimmti mánuður sumars og hófst þriðjudaginn í 18. viku sumars (22.–28. ágúst). Nafnið vísar hugsanlega til þess að við upphaf hans voru tveir mánuðir eftir af sumri. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður líka nefndur kornskurðarmánuður.
Haustmánuður var síðasti mánuður sumars. Haustmánuður hófst (oftast) á fimmtudegi í 23. viku sumars (21.–27. september).
Gamla tímatalið.
Gormánuður var fyrsti mánuður vetrar. Gormánuður hófst fyrsta vetrardag . Nafnið mun vísa til sláturtíðar en gor þýðir hálfmelt fæða í innyflum dýra, einkum hjá grasbítum. Fyrsti vetrardagur var á laugardegi sem nú fellur á milli 21. og 27. október. Sumardagurinn fyrsti var alltaf á fimmtudegi svo að sumarvikum lauk á miðvikudegi. Dagarnir frá síðustu viku sumars og fram að fyrsta vetrardegi, þ.e. fimmtudagurinn og föstudagurinn, voru kallaðir veturnætur. Veturnætur og fyrsti vetrardagur voru samkomu- og veislutími til forna hjá norrænum mönnum enda heppilegur sem slíkur því að þá var til gnótt matar og drykkjar eftir uppskeru haustsins og sláturtíð. Í fornsögum er víða minnst á veislur og brúðkaup á þessum tíma. Kirkjan mun hafa amast við þessum hátíðum og því lögðust þær af eða færðust yfir á allraheilaramessu , 1. nóvember, sem var hátíðisdagur kirkjunnar.
Gamla tímatalið.
Ýlir var annar mánuður vetrar. Hann hófst með mánudegi í 5. viku vetrar (20.–26. nóvember). Nafnið trúlega skylt orðinu jól. Í Snorra-Eddu er þessi mánuður kallaður frermánuður .
Mörsugur var þriðji mánuður vetrar. Mörsugur hefst með miðvikudegi í 9. viku vetrar (20.–26. desember). Hvað nafnið mörsugur þýðir er ekki vitað. Þessi mánuður var einnig kallaður jólmánuður . Í Snorra-Eddu er hann kallaður hrútmánuður, enda var þá hrútum hleypt til ánna .
Þorri var fjórði mánuður vetrar, miðsvetrarmánuður. Þorri hefst með föstudegi í 13. viku vetrar (19–25. janúar). Ekki er nákvæmlega vitað hvað nafnið merkir. Oftast er það þó tengt sögninni að þverra eða að minnka eða talið skylt lýsingarorðinu þurr. Einnig hefur verið nefnt að það gæti verið gælunafn Ása-Þórs.
Þorri var persónugerður sem vetrarvættur á miðöldum. Fyrsti dagur þorra var tileinkaður húsbændum og síðar var farið að kalla hann bóndadag . Líklega eru þorrablót ævagömul hefð sem hefur verið endurvakin á síðustu áratugum.
Öskudagur. Af þeim bræðrum bolludegi, sprengidegi og öskudegi er sá síðastnefndi langelstur. Heiti hans er þekkt allt frá 14. öld en flengingar og bolluát munu ekki hafa borist til landsins fyrr en með erlendum bökurum seint á 19. öld. Á öskudag reyndu konur að láta karla bera ösku en karlar að fá konur til að bera steina. Til að svo mætti verða saumaði fólk litla poka sem konur setti ösku í en karlar steina og reyndu svo að hengja pokana á hitt kynið svo að lítið bæri á. Þetta er mjög gamall siður á Íslandi en þekkist ekki í öðrum löndum.
Lambagjá í Haustmánuði.
Góa (áður gói ) var fimmti mánuður vetrar. Góa hófst með sunnudegi í 18. viku vetrar (18.–24. febrúar). Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa heitis. Góa var líka vetrarvættur sem skyldi fagna, rétt eins og þorra, og var fagnaðurinn tileinkaður húsfreyjum. Í fornum sögnum var góa talin dóttir þorra en síðar talið að hún væri eiginkona hans.
Einmánuður var síðasti mánuður vetrar. Einmánuður hófst á þriðjudegi í 22. viku vetrar (20.–26. mars). Ekki er vitað hvað heitið einmánuður merkir en kannski vísar nafnið til þess að mánuðurinn er síðastur vetrarmánaða, aðeins einn mánuður eftir af vetri.“
Eyktamörk
Eyktarhringur.
„Hverjum sólarhring var skipt í 8 eyktir. Í hverri eykt voru 3 klst. Sólin vísaði á hvað tímanum leið. Menn settu áttirnar á sig og fundu út mið fyrir eyktahringinn, eða einskonar sólarúr allan sjóndeildarhringinn. Miðin voru kölluð eyktamörk og þegar sólin var yfir eyktamarkinu var hún á hátímanum, hver sem hann var. Þegar sólar gætti ekki gat verið erfitt að átta sig, en fólk var yfirleitt ekki í vandræðum með það.
Eyktamörkin voru jafnframt áttatákn þannig að örnefnið Hádegishólar var hluti af eyktahringnum og eru í hásuðri frá einhverjum bæ. Út frá því má finna hverjir notuðu það sem eyktamark sé það ekki þekkt.“
Heimild:
-Smárit Byggðasafns Skagfirðinga – Lesið í landið; Vitnisburður búsetuminja, Guðný Zoëga Sigríður Sigurðardóttir, bls. 20-21, 2010.
-Tímatal Íslendinga til forna, Sigurbjörn Svavarsson 2020.
-Árni Björnsson, Saga daganna, Mál og menning, 1993.
Þorbjarnarstaðir – Miðdegisvarðan; Hádegisvarðan frá Straumi.