Garðhús – gestahús
Í Grindavík standa nútíminn og fortíðin hlið við hlið, fjöldi nýrra íbúðarhúsa bera vott um góða afkomu, en niðri á sjávarkambinum standa nokkur rauðmáluð bárujárnshús og bera fortíðinni vitni.
Láta mun mærri að 30 bátar séu nú gerðir út frá Grindavík og sjálfsagt eru útgerðarmenn þar af leiðandi stærri hluti af bæjarbúum en víðast annars staðar. Nú færist þorpið upp á flatlendið ofan við gamla plássið og þar er víða fagurt, þegar sést austur mið ströndinni og þokan hylur ekki Þorbjörn. Frá fornu fari hefur byggð þarna verið skipt í þrennt, Staðahverfi, Járngerðarstaðahverfi, Þórkötlustaðarhverfi. Staðarhverfið mun nú vera komið í eyði. Þar stóð áður prestsetrið Staður.
Sagan um þær Járngerði og Þórkötlu er alkunn úr þjóðsögum og verður ekki rakin hér. Jafnframt því sem útgerð í Grindavík blómgast og nýbyggingar þjóta upp til norðurs og vesturs, hrakar þeim smám saman, gömlu húsunum á sjávarkambinum.
Þarna hafa orðið kapítulaskipti, ný kynslóð hefur tekið við og hún skeytir ekki alltaf sem skyldi um þau mannvirki, sem ekki eru lengur í notkun. En það er gagnlegt og fróðlegt að huga að fortíðinni og heiðra með því minningu þeirra manna, sem auðvelduðu öðrum lífsbaráttuna með framtaki sínu og brugðu stórum svip yfir dálítið hverfi. Einar í Garðhúsum var einn þessara manna. Hann var athafnamaður í beztu merkingu þess orðs og þess nutu Grindvíkingar og raunar fleiri um daga hans.
Ennþá standa rauðmáluðu bárujárnshúsin á sjávarkambinum í Grindavík, sum ærið feiskin og veðruð eftir átök við storm og seltu. Þar á meðal er gamla búðin, verzlunarhús Einars í Garðhúsum og lengst af eina búðin í Grindavík. Nú er neglt fyrir glugga hennar og hún er sem hvert annað hrörnað gamalmenni á ytra borðinu. En öll eru þessi hús hjer af góðum viðum og gætu varðveizt um langan aldur, væri þeim sómi sýndur. Þarna voru pakkhús og netageymslur og ýmiskonar húsnæði vegna útgerðar Grindvíkinga fyrr á árum.
Skammt frá liggur gamall bátur, einnig hann fær að grotna þar niður í friði, en meðan eitthvað sézt eftir af honum, er hann brot af atvinnusögu Grindavíkur. Á sólbjörtum sumardegi ilmar þetta allt af seltu, en sumt er að fúna og hverfa í jörðina án þess að því sé gaumur gefinn. Sum þessara gömlu húsa eru í einhverri notkun. Þar geyma sumir hinna mörgu útgerðarmanna í Grindavík eitt og annað vegna útgerðar sinnar.
Þegar farið er frá gömlu húsunum vestur stíginn, blasa Garðshús við. Það má segja, að nú er hún Snorrabúð stekkur hjá því sem áður var. Andi Einars í Garðhúsum svífur að vísu ennþá yfir þeim gömlu byggingum, sem verða þó að teljast talsvert niðurníddar.
Steinhús það, sem Einar í Garðhúsum byggði stendur enn með fullri reisn, og það er í rauninni erfitt að ímynda sér, hvað það hefur borið mikið af öðrum húsum í þessu plássi fyrir rúmlega hálfri öld. Yfir því hefur verið álíka reisn og húsi því, sem Thor Jensen byggði sunnan við Fríkirkjuna í Reykjavík á sínum tíma. Þeir Thor Jensen og Einar í Garðhúsum voru ef til vill ekki svo ólíkir um margt, hvorttveggja heiðarlegir framfaramenn, sem létu margt gott af sér leiða.
Bak við steinhúsið í Garðhúsum er lítið timburhús, sem raunar er áfast við aðalhúsið og lætur lítið yfir sér. Þetta hús á merkisafmæli um þessar mundir, það er 100 ára í ár, og mjög verðugt að þess sé minnst.
Til að segja sögu þess í fáum orðum, verður að byrja á Einari eldra Jónssyni í Garðhúsum, sem byggði þetta hús. Hann kvæntist Guðrúnu Sigurðardóttur árið 1860 og þau fóru að búa í Garðhúsum. Einar var innfæddur Grindvíkingur, og varð bráðlega frammámaður og hreppstjóri í Grindavík. Af þeim sökum var ærinn gestagangur þar, bæði af alþýðu manna og embættisstétt, og Einari þótti slæmt að geta ekki hýst menn sómasamlega. Þessvegna réðist hann í að byggja sérstakt gestahús árið 1868 og var efnið, rekaviður af fjörum, allt saman sagað niður á staðnum með stórviðarsög, sem enn er til í Garðhúsi. Þetta hús er eina og gefur að skilja ekki stórt að flatamáli, en það var gert úr góðum viði, sem enn er ófúinn með öllu, sex og allt upp í tíu tommu breið borð. Þar var lítið eldhús, svefnherbergi og stofa. Loft var haft yfir og þar er skarsúð.
Einar Jónsson var hin mesta driffjöður hvers konar athafna, og stundaði bæði búskap og útgerð. Einar yngri var orðinn formaður á báti hjá föður sínum kornungur og var formaður um nokkurra ára skeið áður en hann byrjaði að verzla áriS 1894. Þá verzlun rak hann ásamt útgerð fram á efri ár en, verzlun Einars í Garðhúsum var lögð niður árið 1959, fáum árum eftir dauða hans.
Einar yngri byggði steinhúsið árið 1914 og hann hélt áfram að nota gestahúsið, en síðar var það klætt að innan með pappír og málað. Er þetta tíræða hús án efa miklu fallegra í hinni upprunalegu gerð sinni og væri lítið verk að rífa niður pappírinn, svo gamla timburklæðningin fengi aftur að njóta sín. Um skeið var húsið notað sem sumarbústaður, en um allt langt árabil hefur það staðið tómt og gagnlaust að öðru leyti en því, að það eru geymdir nokkrir gamlir munir úr búi Einars í Garðhúsum. Þar er meðal annars gömul spunavél, handsmíðuð sem áður var í eign Kvenfélags í Grindavík, en Hlöðver sonur Einars bjargaði henni, þegar átti að henda henni þar eru einnig þrír kvensöðlar í góðu ástandi, harðviðarsögin, sem notuð var við húsbygginguna, skrifborð Einars í Garðhúsum og margt fleira. Þessi dugmikli framfaramaður hafði umsvif bæði á sjó og landi og vestan við bæinn standa vegleg peningshús, sem nú hafa raunar verið tekin til annarra nota. En allt hefur það verið vandlega gert á sínum tíma, og án efa talsvert á undan sinni samtíð.
Atvikin höguðu því svo til að áframhald gat ekki orðið á verzlun Einars í Garðhúsum, því börn hans fluttust á aðrar slóðir. En Garðhús eru ennþá í þeirra eigu og nú hefur heyrzt að áhugamenn mundu vilja stuðla að því að koma upp einskonar byggðasafni í Garðhúsum. Mætti benda á, að þarna er líklega kjörið viðfangsefni fyrir Félag Suðurnesjamanna, hreppsfélagið í Grindavík, eða jafnvel Lionsklúbbinn þar á staðnum, sem skipaður er ágætum mönnum og hefur reynt að láta gott af sér leiða. Ýmsir gamlir Grindvíkingar hafa áhuga á því, að þarna gæti risið minjasafn um gamla atvinnuhætti í Grindavík. Hefur sumt af þessu fólki í fórum sínum merka gripi frá fyrri tíð og mundu þeir verða gefnir til safnsins yrði það stofnað. Kennir þar margra góðra grasa, og er einstakt að slíkir mumir skuli enn vera í eigu einstaklinga, en sýnir um leið, að ekki hafa allir til að bera skeytingarleysi gagnvart gömlum munum og minjum.
Það er smán og svívirða að láta húsið í Garðhúsum grotna niður í óhirðu og ekki á það síður við gestahúsið, sem áður er á minnst. Hér þarf að bregða við skjótt og bjarga því sem bjargað verður. Í fyrsta lagi þarf að flytja gömlu búðina af sjávarkambinum og koma henni fyrir nálægt Garðhúsabænum. Þar þarf að gera við glugga og að innan þyrfti að gera búðina sem líkasta því sem hún var. Vera má að önnur hús á sjávarkambinum séu þess virði að þau væru einnig flutt og ber að athuga það. Í hlöðunni, þar sem nú er netaverkstæði, væri hægt að koma upp sjóminjasafni Grindavíkur og þangað þyrfti að færa bátinn, sem nú er að fúna og grotna niður austur á fjöru. Án efa eiga Grindvíkingar enn merka hluti í sínum fórum, sem annað hvort ættu heima á sjóminjasafninu eða byggðarsafni Grindavíkur og eru raunar heimildir fyrir því, að fólk bíði með hluti, sem það ætlar að gefa þessu safni ef það verður stofnað.
Gestahús Einars eldra í Garðhúsum þarf að gera upp og hafa það sem líkast því, er það var. Í sjálfu steinhúsinu væri hægt að koma fyrir byggðasafni Grindavíkur og fengi þetta veglega hús þá verðskuldað hlutverk.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 25. ágúst 1968, bls. 6-7.