Geirfuglinn afhjúpaður
Mannhæðarhár bronsskúlptúr af geirfuglinum sáluga verður afhjúpaður í dag við Valahnjúk á Reykjanesi.
Geirfuglinn er gjöf frá bandaríska listamanninum Todd McGrain en hann sóttist eftir því sjálfur að fá að koma fuglinum fyrir í fjörunni neðan við Valahnjúk á Reykjanesi. Verkið er hluti af stærra verkefni sem kallast Lost Bird Project og er tileinkað fimm útdauðum fuglategundum.
„Ég hef unnið að þessu verkefni undanfarin fimm ár og hef gert fimm skúlptúra af fimm útdauðum fuglategundum, þar á meðal geirfuglinum. Geirfuglinn var einn fyrsti fuglinn sem ég stúderaði en segja má að það séu um tíu ár síðan fuglinn „kom“ fyrst til mín,“ segir Todd McGrain.
Listamaðurinn eyddi meðal annars sex mánuðum á Ítalíu, í Róm, þar sem hann grandskoðaði fuglinn, sem verður afhjúpaður í dag klukkan 14. Listaverkið er gert í minningu geirfuglsins en 3. júní árið 1844 voru tveir síðustu geirfuglarnir í heiminum drepnir á syllu í Eldey, suðvestur af Reykjanesi. McGrain kom til landsins fyrir ári til að skoða aðstæður og sá geirfuglinn strax fyrir sér í fjörunni neðan við Valahnjúk. Þá heimsótti hann meðal annars Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem uppstoppaður geirfugl er geymdur.
„Við höfum myndað allt ferlið í kringum smíði fuglsins, flutning og uppsetningu og ætlum að vinna heimildarmynd út frá því og ég er viss um að þessi innsetning muni færa gróskufullt menningarlíf bæjarins upp á við. Veður og vindar í fjörunni munu svo gera fuglinn enn fegurri með tímanum en staðsetningin hefur bæði sögulega tilvísun og minnir á dramatísk örlög fuglsins.“
Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, sérblað bls. 10.