Geitur II
Í Búnaðarritið 1932 var m.a. skrifuð merkileg grein um „Geitfé“ – eftir ráðunaut og dýralækni O. P. Pyndt:
„Áhugi manna fyrir geitfjárrækt hefir farið vaxandi í ýmsum löndum, smátt og smátt. Áður fyr höfðu menn geitfé eigi síður vegna sláturafurðanna en vegna mjólkurinnar, eins og áður var á drepið. Margir halda að geitakjöt sé þurrt og strembið, en það er ekki rétt, ef vel er fóðrað. Bæði geitur og geithafrar geta orðið spikfeit, einkum fyrir 4—5 vetra aldur.
Fullvíst er talið. að tamda geitin sé komin af Bezoar-geitinni, sem lifir í Asíu. Geitin er skyld og lík sauðkindinni á margan hátt. Báðar eru jórturdýr, stærðin er lík, tannbyggingin eins, sami meðgöngutími og tala afkvæma, eins og hjá ánni. Aftur á móti skilur á milli um byggingarlag og hárafar. Geitin er beinameiri og beinaberari en sauðkindin, og hún er stríhærð og þellaus. Geitin þolir þess vegna ekki kulda og hrakning eins vel og kindin. Geitur eru svo að segja um allan hnöttinn, að undanskildum allra köldustu löndunum. Útlitið er mismunandi eftir lífskjörum og gildir það þó einkum um hárafarið, t.d. eru sumar tegundir geita í Asíu langhærðar og fínhærðar, en Norðurlanda-geitin stríhærð. Villigeitur eru víða til, en flestar geitur eru þó tamdar eða undir manna
höndum, meira og minna. Kynin eru mörg, venjulegast eitt í hverju landi, en í sumum fleiri, t. d. í Þýzkalandi og Sviss. I Þýzkalandi eru einkum nafnkennd Langenzalzaer-geitin, Schwarzwalder-geitin og Harz-geitin, en í Sviss Walliser- og Saanen-geitin. Í Danmörku er (svokallað) landkyn, og er álitið að
það hafi verið þar síðan landið byggðist, því að á dögum þjóðflutninganna fluttu menn með sér geitur land úr landi. Í heiðnum sið var geitin oft fórnardýr, einkum hafurinn, og það er mál manna, að þá hafi verið gerður áfengur drykkur úr geitamjólkinni. Ætla má að danska landkynið hafi orðið fyrir áhrifum og íblöndun aðfluttra kynja, þótt eigi séu til fyrir því ákveðnar heimildir eldri en frá 1884, en þá voru fluttar inn norskar geitur og ári síðar þýzkar. Er álitið að þessi íblöndun hafi orðið til bóta. Danskar geitur eru ærið misjafnar álitum. Að lit eru þær ýmist ljósgráar, dökkgráar, mórauðar eða flekkóttar, og sumar hafa ál eftir hryggnum. Flestar eru þær langhærðar og meðalþyngdin er um 40 kg. Áður fyr voru þær flestar hyrndar, en fyrir úrval hefir þeim fækkað, en kollóttum fjölgað. Þó eru þær enn fleiri hyrndar en kollóttar. Arsnyt danskra geita er ekki meiri en 300—350 kg, og í gamla daga, þegar fóður og hirðing var lakari en nú, var ársnytin enn minni. Á síðustu árum hafa verið fluttar inn Saanen-geitur frá Þýzkalandi, og hefir ríkissjóður veitt styrk til þess. Er nú þetta kyn víðsvegar um landið. Saanen-geitin er hvít, kollótt, og öllu betri mjólkurgeit en danskar og norskar. Hún er stutthærð og skinnið þunnt, svo að hún þolir ekki eins vel loftslagið í Danmörku eins og danska geitin. Hún er fríð og geðþekk, og er þess vegna uppáhald margra, er geitfé hafa, enda getur hún launað vel góða umhyggju.
Mörgum þykir geitin ófögur og því miður má þetta oft til sanns vegar færa. En oft og einatt er þetta meðferðinni einni að kenna. Geitin er í rauninni falle
skepna, ef hún nýfur góðrar aðhúðar frá upphafi og fær kröfum sínum fullnægt, og það er ætíð fögur sjón að líta vænar geitur í haga. Kynhreinar geitur hafa mikla erfðafestu, en blönduð kyn gefa misjöfn afkvæmi, en oft eru þau þó ágætir gagnsgripir.
Þeir, sem geitfé hafa til mjólkurframleiðslu, eiga (þess vegna) almennt ekki að leggja neina áherzlu á hreint kyn, en þeir eiga að fá sér kið undan góðum mjólkurforeldrum, hraustum og vel byggðum.
Bezti aldur geitarinnar er frá 2—5 vetra. Á þeim árum mjólkar hún mest og gefur bezt afkvæmi. 8—9 vetra eru þær venjulega aflóga, enda þótt dæmi séu til
að geitur hafi orðið 15 vetra og mjólkað töluvert til þess aldurs.
Fáum húsdýrum eru boðin lakari lífskjör en geithafrinum, sem oft er hafður í skúmaskoti, illa hirtur og vanfóðraður. Algengt er að hann sé hafður í fjósi, m.a. vegna þess að því er trúað, að hafursþefurinn varni því að kýr láti kálfi. Því miður er það allt, of algengt, að slíkir vanhirtir hafrar séu hafðir til undaneldis, og venjulegast er alls ekki hugsað um að hafa valda kynbótagripi. Það er ekki undarlegt þótt lítið verði um kynbætur geitfjárins, þegar ekkert er hirt um ætterni karldýranna. Það á og verður að vekja áhuga fyrir því, að hafa kyngóða hafra, því að án góðra karldýra getur aldrei verið um góðan árangur að ræða í búfjárræktinni. Geitfjáreigendur eiga að slá sér saman um góðan hafur. Velja skal fallegan einkiðung og láta hann ganga sem lengst undir móðurinni, eða a.m.k. að gefa honum mjólk allt sumarið og fóðra hann vel fyrsta veturinn. Er þá gott að gefa hafra, ásamt góðu heyi og rófum, ef þær eru til. Og svo er um að gera að hafurinn hafi rúmt um sig, því að án mikillar hreyfingar getur hann ekki náð miklum þroska. Ekki má halda undir hafurinn fyr en hann er 9 mánaða. Hann verður því að vera snemmborinn til þess að hægt sé að nota hann fyrsta veturinn, og þann vetur má ekki ætla honum meira en svo sem 10 geitur. Fullorðnum höfrum má ætla allt að því 100 geitur, en þó ekki meira en 3—4 á dag. Halda skyldi skrá yfir brúkun hafursins, er sýni nöfn geitanna og eigendur þeirra.
Venjulegur fengitími er á haustin og burðartími á vorin. Geitin mjólkar venjulega að eins 8—9 eða mest 10 mánuði. Þyrfti því að hafa misjafnan burðartíma, til þess að geta haft mjólk allt árið, ef um fleiri geitur er að ræða en eina. Tilraunir hafa verið gerðar með þetta og frá Hannover er kunnugt um 37 haustbærar geitur. Það er því eigi óhugsandi að takast megi að ráða burðartíma geita — eins og kúa — og væri að því mikill ávinningur. Meðgöngutíminn er 21—22 vikur, oftast 151 dagur. Sérlega mjólkurlagnar geitur mjólka alveg til burðar, en þær ætti að gelda upp svo sem 2 mánuðum fyrir burð, bæði vegna móðurinnar og kiðlingsins.
Venjulega á geitin 1 eða 2 kiðlinga, enda er hún ekki að jafnaði fær um að fæða fleiri. Móðurmjólkin er kiðlingunum hollust og hana má ekki taka frá þeim. Undir sérstökum kringumstæðum getur þó verið ástæða til að láta kiðlinginn ekki sjúga móðurina, t. d. ef nauðsynlegt er að fá nokkuð af mjólkinni til heimilis, eða ef sérstök vandkvæði eru á að venja kiðlingana undan, nema það sé gert strax. Kiðlingurinn þarf að hafa sem allra mest frjálsræði og aldrei má tjóðra hann. Þeir kiðlingar fá aldrei fullan þroska, sem ekki njóta. þess frjálsræðis, sem þeim er nauðsynlegt.
Geitin þarf að hafa hreint og þurrt loft, en þolir ekki rakt loft og fúlt, né heldur kulda. Hún leitar sér ætíð skjóls í hrakviðrum, og í slíkum veðrum ætti ekki að tjóðra geitur — sízt ef kuldi fylgir. — Mjólkin hrapar úr mjólkurgeitum í kaldri hrakviðratíð, og væri þá bezt að hafa þær inni.
Geitinni er oft viðbrugðið fyrir nægjusemi og margir ímynda sér jafnvel, að geitur geti mjólkað vel, þótt þær hafi lélegt viðurværi. En í rauninni er geitin ekki nægjusamari en önnur húsdýr, og einungis þeir, sem gera vel við geitfé, geta búist við góðum afurðum. Bezt er að láta geiturnar ganga sem mest úfi á
sutnrin, en séu þær ekki hýstar um nætur, þá þurfa þær að geta leitað sér skýlis fyrir regni og kulda í haganum. Beitiland með miklu fjölgresi er geitinni bezt til hæfis, einkum skóg-, lyng- og kvist-lendi til fjalla. Mýrlendi og annað fáskrúðugt beitiland er henni ekki til hæfis, enda getur hún sótt þangað ormaveiki og aðra hættulega sjúkdóma.
Bezt er að geitur gangi sem mest úti — en eigi þó ætíð athvarf, að leita sér að skjóli, og megi njóta þess í hrakviðrum og kulda. Og fái þær ekki nóg úti, verður vitanlega að bæta upp beitina með góðu fóðri. Engin skepna getur gefið mikið af sér, nema hún hafi gott viðurværi og aðhlynningu. Að vetrinum verður heyið vitanlega aðalfóðrið, og er smágert hey bezt. Af því ætti að gefa 1/2—2 kg á dag. Gefa má og grænfóður, 7—8 kg á dag — ef gefa þarf geitum inni, eða með beit, á þeim tíma, sem það væri til. Enn má gefa geitum aðrar fóðurteguudir margsháttar, sem öðrum skepnum eru gefnar, svo sem: rófur, kartöflur, fóðurkökur, korn, síldarmjöl, matarleifar o. s. frv. Af korntegundum eru hafrar taldir beztir handa geitum. Eins og geitin vill hafa fjölbreytni í beitilandinu, vill hún líka hafa það í fóðrinu. Það er ekki hægt að fóðra geitur á samskonar fóðri til lengdar, eins og t.d. sauðfé og kýr, heldur verður sífelt að breyta fóðrinu, að einhverju leyti, annars kemur í þær ólyst. Því hefir verið veitt eftirtekt, að geitur hrekja bezta fóður, en taka í þess stað pappírssnepla, vindlastúfa og annað rusl. Og stundum hrekja þær ilmandi hey, en velja úr rekjurnar og háma þær í sig. Það má kalla þetta kenjar, en það verður að taka tillit til þeirra, og það er að þessu leyti vandasamara að fóðra geitur en annað búfé, svo að þeim sé til hæfis gert.
Geitahús skal vera bjart, hlýtt, þurt og rúmgott. Á þessu er oft misbrestur, og geitur eru alloft hafðar í dimmri kró eða afkima, þar sem allt það vantar, sem vera skyldi. Þarna eru geiturnar kvaldar af vistarverunni langtímum saman, og gagnið verður þá líka eftir því. Geitur eiga helzt að ganga lausar í húsi, þær eru fjörmiklar og þurfa að hafa mikla hreyfingu.“ „Geitur hafa lengi verið illa ræmdar hér á landi. Engu að síður hefir geitunum verið gert rangt til í ýmsu og loðir það enn við. Í lögunum 1896 um sóttvarnarsjúkdóma segir m.a. í 2. grein: „Eptir 2. gr. í lögunum 1896 eru að eins nokkrar sóttir lögskipaðir sóttvarnarsjúkdómar. Eru það kólera, gul hitasótt, útbrotataugaveiki, bólusótt, mislingasótt, skarlatssótt og austurlensk pest. Yfirvöldum þeim, sem sóttvörnum ber stýra, er jafnan skylt að beita sóttvörnum gegn þessum sóttum. Svo eru ýmsir næmir sjúkdómar, sem eigi skal beita sóttvörnum gegn eptir lögunum 1896. fetta gildir um alla langvinna næma hörundssjúkdóma, svo sem holdsveiki, sárasótt, geitur, kláða, reform o. fl.).“
Svo virðist að framangreindu að menn hafi verið um of nátengdari geitum en ætla mætti fyrrum – það hafði verið meginástæða þess að geitahald hafi verið bannað víða um land undir lok 19. aldar…“.
Sendi bæjarstjóranum í Grindavík eftirfarandi í framhaldi af framangreindum upplýsingum: „Þarf að biðja þig um einn smá greiða; hreppsnefnd Grindavíkur, eða annar valdaaðili henni tengdri, lagði til bann við geitahaldi í Grindavík (sennilega á ofanverðri 19. öld eða í upphafi þeirrar tuttugustu). Bannið er enn í gildi (einhverra hluta vegna), þrátt fyrir að geithafur sé í skjaldarmerki bæjarins. Getur þú komist að því (með aðstoð hreppsbóka (jafnvel þótt viðkomandi hreppsbækur eru á Þjóðskjalasafninu)) um hvaða samþykkt getur hafa verið um að ræða – og í framhaldinu komið skráðu afriti af henni (dags., fyrri umræðu, rökstuðningi og niðurstöðu) til mín. Langar til að skoða atvikið og reyna að meta hvort ástæða sé til að leggja til breytinga að breyttum breytanda – bæði í ljósi sögunnar sem og skilyrða í reglum og lögum landsins nú til dags um hið sama… Það gæti jú mögulega orðið bæjarfélaginu til framdráttar í sögulegu samhengi ef þar mætti, þótt ekki væri nema á einum stað, enn berja þar geitur augum.“
Svar bæjarstjóra var: „Ég skal setja einhvern í að leita. Ekki hafði ég hugmynd að geitahald væri bannað í Grindavík. Varla eru nokkur rök fyrir slíku banni, fyrst heimilt er að halda sauðfé.“
Heimild:
-Búnaðarrit 46. árg. 1932, 1. tbl., bls. 1-21.
-Eir, 1. árg. 1900, 1.-3. tbl., bls. 27-29.
-Lögfræðingur, 2. árg, 1898, 1. tbl., bls. 34-35.