Geithafur

Geitur eru eitt af elstu húsdýrunum og talið að þær hafi verið tamdar fyrir um tíu þúsund árum í Sagrosfjöllum Íran. Af þeim eru nýtt mjólk, kjöt, ull og skinn. Geitamjólk er auðmeltari en kúamjólk.

Geit

Karldýr geitar heitir hafur, kvendýrið huðna og afkvæmin kiðlingar.
Geitur eiga sér langa sögu á Íslandi. Þær komu hingað með fyrstu landnámsmönnunum, líkt og nautgripir, hross og sauðfé. Nú eru fáar geitur eftir á Íslandi eða um 400 en til dæmis í kringum 1930 voru þær um 3.000 talsins.
Merki Grindavíkur er geithafur. Í Landnámu kemur  fram að Hafur-Björn hafi (um 930) með liði sínu farið vestur til Grindavíkur og sest þar að: „Björn dreymdi um nótt, at bergbúi kæmi at honum ok bauð at gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir þat kom hafr til geita hans, ok tímgaðist þá svá skjótt fé hans, at hann varð skjótt vellauðigr. Síðan var hann Hafr-Björn kallaðr.“
Áður fyrr var mun meira af geitum í landinu og voru þær gjarnan kallaðar kýr fátæka fólksins, enda gátu þær lifað á Geitafar rýru landi og kjarnminna heyi en önnur húsdýr.
Góð íslensk mjólkurgeit getur mjólkað 200-300 lítra á ári, en stofninn hér á landi er ekki nógu stór til þess að hægt sé að fara út í ostaframleiðslu. Geitaostur þykir mjög góður og er afar vinsæll á erlendri grund.
Áður fyrr voru geitur nýttar aðallega til mjólkurframleiðslu en með breyttum búskaparháttum fækkaði geitum til muna í landinu. Mjólkin var nýtt til ostagerðar en í dag eru litlar forsendur til að hefja ostagerð þar sem aðeins eru um 450 geitur á landinu (heimild: bændasamtök Íslands 2008).

Huðna getur mjólkað allt upp í 11 mánuði á ári og mylk huðna getur mjólkað allt upp að lítra á dag þegar best lætur. Geitamjólkin þykir afar holl og hentar vel fyrir magaveika einstaklinga og fólk sem þolir illa kúamjólk og sojamjólk. Kjötið af geitum er fitusnautt og smakkast mjög vel reykt.
Geitur eru ekki rúnar líkt og kindur, kemba þarf ullina af geitum með sérstökum kambi. Ullin skiptist í tvö lög eins og á kindum, tog og þel, en er kallað stý og fiða hjá geitum. Það er því frekar seinlegt að ná í ull af geit en langan tíma getur tekið að kemba þeim.
Þar sem íslenska geitin hefur verið einangruð hér á eyjunni þetta lengi um 1100 ár, þá er ullin í hávegum höfð því hún líkist mest ull af kasmírgeitum svonefndum, ekki angórutegundunum.
Kasmírull er sérstaklega unnin úr innra laginu, fiðunni, meðan angóruullin einkennist af afar löngum toghárum (mohair). Kasmírullin er því verðmætari þar sem þær geitur eru ekki eins algengar og angórutegundirnar.

Geitur

Geitur eru ekki eins félagslyndar og sauðkindin sín á milli þótt þær geti verið gæfar við mannskepnuna. Þær eru vanalega í minni hópum og er mjög greinileg virðingarröð þeirra á milli. Hafurinn er þar í fyrsta sæti með stærstu hornin, því þau ráða mest þar um, svo raða huðnurnar sér niður á eftir honum. Þær eru stöðugt að stanga hvor aðra til að sýna stöðu sína.
Aðeins eru örfáar kollóttar geitur(ekki með horn) nú á landinu og eins og með allan stofninn sem menn eru að reyna að vernda í dag gegn því að deyja út, þá er það ekki síður menningar- og náttúruverndarmál að rækta ekki kollóttar geitur úr stofninum.
Meðgöngutími huðna er 149 dagar og geta þær verið einkiða eða tvíkiða. Mjög sjaldgæft er að þær verði þríkiða. Huðnurnar eru með tvo spena og er mjólkin ansi frábrugðin mjólk úr ám. Prófað hefur verið sem dæmi að venja lamb undir huðnu en það reyndist ekki vel því það þroskaðist hægar en undir venjulegum kringumstæðum.
Kiðin eru mjög fjörug og klifra, hoppa og skoppa mikið um og hafa litlar áhyggjur af hvar þau skildu við móður sína, annað en lömb sem geta vart séð af móður sinni. GeiturSumum finnst líka nóg um hvað kiðin eru frökk sem dæmi eiga þau til að hoppa upp í barnavagna!
Spendýr nýta fæðuna á mjög mismunandi máta. Rándýr og alætur eiga til dæmis erfitt með að nýta grófa fæðu sem inniheldur mikið beðmi (tréni).
Sumar jurtaætur eins og geitur, kýr og kindur eru jórturdýr sem gerir þeim kleift að brjóta niður beðmið og nýta þannig fæðuna betur. Þau hafa fjórskiptan maga; vömb, kepp, laka og vinstur.
Gras og hey fer að mestu ótuggið í vömb og kepp jórturdýra þar sem það er geymt í smá tíma. Í vömbinni er mikið af örverum sem hafa þann eiginleika að geta brotið niður þau efnasambönd sem eru í beðmi.

Eftir töluverða hvíld þá æla dýrin upp lítilli tuggu og tyggja aftur, það er kallað að jórtra. Þegar fæðan er orðin nægjanlega fínmöluð þá kemst hún áfram í keppinn, laka og vinstur og loks í garnirnar, þetta ferli tekur um fimm sólarhringa.

johanna-haafelli

Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, bóndi að Háafelli í Hvítársíðu í Borgarfirði heldur geitur. Þau hjónin hafa verið að berjast fyrir því að geta sinnt þessu áhugamáli sínu og hafa af því eitthvert lifibrauð. Geitamjólkin er allra meina bót. T.d. hafa foreldrar tveggja veikra barna komist að því að geitamjólkin er það eina sem getur hjálpað þeim. Annað þessara barna er með hvítblæði og hitt er með meltingartruflanir. Árangurinn af geitamjólkinni hefur verið lyginni líkust og hafa foreldrarnir hringt með kökk í hálsi af gleði yfir þeim ótrúlega árangri sem þetta hefur skilað. Þetta er alveg ótrúlegt og í raun kraftaverk og frábært að til skuli vera einhver næring sem hjálpar þessum börnum og öðrum í sömu stöðu. En málið er að þessi búskapur nýtur engrar aðstoðar. Þau hjónin eru að reyna að bjarga íslenska geitarstofninum frá útrýmingarhættu og fá ekki mikla aðstoð til þess. Fram undir þetta hefur þetta verið mesta basl og fjárútlát og hefur kannski mest gengið á hugsjóninni einni saman en því miður virkar það ekki til lengdar, það kostar allt peninga í dag. Vonandi fara hjólin að snúast og fleiri fái að vita af þessum frábæru eiginleikum geitamjólkur fyrir fyrirbura og kornabörn sem ekki geta notið móðurmjólkur. Þá yrðu margar flugur slegnar í einu höggi. Geiturnar myndu fá að lifa og til væri afurð sem myndi hjálpa mörgum veikum börnum.

Heimildir:
-www.husdyragardur.is

Geit