Gengið í Ræningjahól
Í „Rauðskinna hin nýrri“ skrifar Jón Thorarensen um Ræningjahól í Krýsuvík.
„Þegar ég var 18 vetra gamall, átti ég heima í Krýsuvík. Ég var þar vinnumaður ásamt fjórum öðrum. Tuttugu manns voru á heimilinu, kátt fólk og skemmtilegt. Vorið 1898 stundaði ég þar veiðar í berginu, náði fugli og eggjum. Ég fór á morgnana niður á berg og var þar allan daginn fram á kvöld.
Krýsuvík var stórbýli, túnið afar stórt og hæðótt, svo ekki sást yfir það allt frá bænum. Í túninu er hæð, sem heitir Ræningjahóll. Þegar komið er sunnan í hól þennan, sét ekki heim að bænum. Hæð þessi er slétt tún og skammt fyrir innan túngarðinn.
Það var, að mig minnir, í níundu viku sumars 1898, að ég svaf hjá einum vinnumanninum, sem heitir Jón Ívarsson. Rúmið okkar var inni við gluggann, og svaf ég fyrir ofan Jón. Þá dreymdi mig draum þann, sem nú skal greina: Mér þótti maður koma inn gólfið, inn að rúmi mínu. Mann þennan hafði ég ekki séð áður; var hann á að gizka um þrítugt. Hann var meðalmaður á hæð. Hann var í stuttbuxum og skóm úr íslensku skinni, sem voru svo djúpir, að þeir náðu upp á ökla, dregnir saman með skinnþvengum. Ég hafði aldrei séð mann með þannig fótbragð. Hann var í svartri prjónapeysu, með prjónahúfu á höfðinu, sem var eins og alpahúfur þær, sem nú eru notaðar. Mér þótti hann heilsa mér og biðja mig um að koma með sér heim til sín.
Föt mín lágu á kofforti, sem stóð við rúm mitt. Mér fannst ég fara fram fyrir Jón og klæða mig í flýti og ganga með manninum út og vestur bæjarhlað og suður að Ræningjahól, og þegar við vorum þangað komnir, erum við allt í einu komnir að bæ, sem ég hafði aldrei fyrr þar séð, því að ég bjóst við að sjá þar aðeins slétt tún. Þessi bær var með tveim húsum, hlið við hlið, og gengið þversum inn í bæinn um hleðsluna. Þegar við komum inn í fremra bæinn, voru gömul hjón þar fyrir, sem sátu á rúmum sínum og sitt barnið hjá hvoru. Voru þau að gefa börnunum að borða skyr eða graut úr tréskálum. Við héldum svo inn í innra bæinn. Þar inni var kona mannsins, sem ég var með. Mér virtist hún vanfær og að því kominn að veikjast og ala barn. Rúmstæði var á gólfinu, sem var brotið, og það bað maðurinn mig að gera við, um leið og hann fékk mér verkfæri, og fór ég að fást við þetta, eins og ég væri vanur smiður.
Þegar ég hafði lokið viðgerðinni, lét konan f´öt í rúmið, en maðurinn hafði orð á því við mig, að hann gæti ekki borgað mér þetta, en hann skyldi minnast mín síðar. Ég hélt því næst heim, og fylgdi maðurinn mér alveg inn að rúmi mínu. Þar kvaddi hann mig og fór út, en mér fannst ég hátta aftur og sofna. Þannig var draumurinn.
Þennan morgun svaf ég fram að fótaferðatíma. Klæddist þá og hélt til veiða niður á berg. Þegar ég var kominn suður með túngarðinum, þá verður mé rlitið upp að Ræningjahól, og þá mundi ég, hvað mig dreymdi um nóttina. Ég hugsaði sem svo, að þetta væri allt tóm vitleysa, þarna gæti enginn bær verið, og svo hvarf þessi draumur alveg úr minni mínu. Ég var allan daginn frammi á bergi, og veiddi ég með mesta móti þennan dag. Ég kom heim klukkan níu um kvöldið; þá var fólkoð að borða kvöldverðinn, margt við sama borð, og ég fór að borða líka.
Þá spyr Jón Ívarsson mig, hvað ég hafi verið að gera út í nótt. „Ég fór ekkert út“, var mér að orði. Þá svaraði hann: „Júm ég sá þig klæðast, og þú varst lengi úti“. „Það getur ekki verið“, svaraði ég. Rétt í þessu kom húsbóndinn inn, heyrði samtal okkar og segir: „Jú, ég var úti og var að reka fé úr túninu um klukkan tvö, og sá þig koma sunnan frá Ræningjahól og fara inn í bæinn“.
Mér þótti þetta nokkuð skrítið og minntist þess þá aftur, er mig dreymdi um nóttina, og sagði fólkinu drauminn, en það varð alveg undrandi af frásögn minni. En aldrei hefir mig dreymt manninn í Ræningjahól aftur. (Handrit Guðmundar Guðmundssonar trésmiðs í Reykjavík).“
Heimild:
-Jón Thorarensen – Rauðskinna hin nýrri, þjóðsögur, sagnaþættir, þjóðhættir og annálar, II. bindi, 1971, bls. 54-56.