Getum við lært af reynslu forfeðra vorra?
Á Íslandi höfðu landnemar þegar eftir landnámið veruleg áhrif á gróðurfarið. Þeir gengu hart fram, hjuggu skóg til húsbygginga og eyddu hrísi til eldiviðs og skepnufóðurs. Það auðveldaði roföflunum, vatni, vindi og veðri, að vinna á og móta landið. Kólnandi veðurfar kallaði á viðbrögð fólks. Það varð að færa bæi sína neðar á landið, nær ströndinni, en hafði áfram útstöðvar á ytri mörkum landsvæðis síns, sbr. selin.
Stöðug eldgos, um 20 að meðaltali á öld, jarðskjálftar, jöklar, hafís, landsig og sjávarflóð hafa haft áhrif á búsetu landsmanna og kallað á viðbrögð þeirra varðandi húsagerð úr einhæfu efni; torfi og grjóti.
Nútíminn hefur fætt af sér nýjar fræðigreinar. Ein þeirra er fornleifafræðin. Hún tekur, ein fræðigreina, á því viðfangsefni að reyna að “lesa” forsöguna, þ.e. út frá þeim staðreyndum er felast í “frásögn” minjanna, með góðum stuðningi annarra fræðigreina, þ.á.m. textafræðigreina. Fornleifafræðin getur og hefur gefið nútímafólki hugmyndir um hvernig aðstæður og búseta manna voru frá upphafi hér á landi. Það eru mikilvægar upplýsingar því “framtíðin byggist á fortíðinni”, þ.e. upplifun, reynslu og viðbrögðum forfeðranna.
Ýmsar aðferðir við aldurgreiningu minja hafa verið notaðar í gegnum tíðina, s.s. flokkun og greining fornmuna (týpología), en á undanförnum áratugum hefur komið fram ný tækni er gefur enn meiri og betri möguleika á slíku (C14, argon. luminocene, pollen, trjáhringagreining o.fl.). Rannsóknaraðferðum hefur fleygt fram og ávallt eru að fást betri og betri upplýsingar um forsöguna og tilgátukenningar hafa náð að þróast. En þrátt fyrir alla tækni og hugmyndir manna um fortíðina skiptir máli að vanda vel til allra verka og koma síðan þeirri fyrirliggjandi vitneskju á framfæri við áhugasamt nútímafólk.
Nútímafólk býr í upphituðum húsum allt árið um kring og hefur almennt ekki miklar áhyggjur af mögulegri umhverfisröskun þrátt fyrir miklar framkvæmdir er augljóslega gætu leitt af sér engu minni áhrif í þeim efnum en gerðir landnámsmanna höfðu á fyrstu áratugum landnámsins. Fornleifafræðin hefur ekki áhyggjur af því – hennar er að fást við hið liðna, en ómeðvitandi er fræðigreinin þó að fást við viðfangsefni, sem fólk ætti að geta nýtt sér til framtíðar.