Gjásel – Ara(hnúks)sel – Ólafsgjá
Ara(hnúks)sel geymir fimm hús. Þrjú þeirra eru tvískipt. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór.
Í selstöðunni í Gjáseli eru „raðhús“ undir háum gjárbarmi líkt og í Arahnúksseli. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni. Mögulega hafa einhverjir bæir sameinast þarna um selstöður um tíma. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg.
Ætlunin var að ganga upp Vogaheiði með viðkomu í framangreindum seljum sem og í Hólsseli (Hólaseli) – í sumarbyrjun. Í Bakaleiðinni var ætlunin að koma við í Ólafsgjá.
Í BA-ritgerð ÓSÁ í fornleifafræði er fjallað um „Sel vestan Esju“. Þar segir m.a. um Arasel og Gjásel:
Vogasel VI (Arasel /Arahnúksel) – (Ö): „Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel.“
Líklega tekur selið nafn af Arahnúk og því rétt að kalla selstöðuna Arahnúkssel.
(Ö): „Og næsta gjá þar ofar heitir Stóra-Aragjá eða öðru nafni Arahnúksgjá og dregur þá nafn sitt af háum hól sem er við hana og heitir Arahnúkur og undir honum er Arahnúkasel, eru þar miklar rústir og hvanngrænar á hverju sumri, talsvert svæði.“
SG segir frá Arahnúkseli: „Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel….Arahnjúkaselstæði er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnum við tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból er við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir.“
Höfundur skoðaði Ara[hnúks]-sel árið 2003: Undir Arahnúk er Arahnúksel (Arahnúkssel) eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
Arahnúkselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn. Þar má sjá tíu kofatóftir saman. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið, en snjór hefur verið í djúpum gjánum langt frameftir sumri. Stór varða er á gjárbarminum skammt sunnan við selið og önnur minni (og nýrri) skammt austar.
Tóftirnar geyma fimm hús. Þrjú þeirra eru tvískipt. Kvíin, eða öllu heldur stekkur er undir hamraveggnum skammt suðvestan við tóftaþyrpinguna, sem er nokkurn veginn í beina línu undir veggnum. Eitt húsanna, tvískipt, stendur þá framar, lengra frá veggnum. Af ummerkjum að dæma virðast þrjár selstöður hafa verið í selinu. Stekkurinn er enda óvenjustór og er líklegt að hann hafi verið samnýttur. Svo er að sjá að þrjú hólf hafi verið í honum, auk safnhólfsins. Veggir tóftanna eru grónir, en gefa vel stærð og rýmin til kynna. Stekkurinn er einnig heillegur.“
Þá var haldið í Gjásel. Í örnefnalýsingum segir: Ö: „Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel. Enn austar er svo Vogaselið gamla.“
(Ö): „Þá er á barminum Stapaþúfa. Litla-Aragjá er næst fyrir sunnan Holtsgjá. Austur með henni er Gjásel og þá er hún kölluð Gjáselsgjá.“
(Ö): „Í suðaustur frá Einiberjahólnum blasir við Gjáselsgjá, sem snýr hömrum í norðvestur; undir hömrunum er Gjásel. Þar mótar fyrir tóftarbrotum. Sennilega hefir selið verið notað af búanda eða búendum úr Brunnastaðahverfi.“
(Ö): „Í Gáseli, en svo heita gamlar selstöður, má nú sjá átta til níu tóttarbrot. Lítið seltún mun hafa verið þar framanvið. Ofan við selið er Gjáselsgjái, sem sagt var um að í væri óþrjótandi vatn, en erfiðleikum bundið að ná því.“
SG segir frá Gjáseli: „Af Einiberjahólum sjáum við vel til Gjásels sem kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703 og virðast tóftirnar þar verið með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu. Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir fjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta þessarar aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum.“
Höfundur skoðaði Gjásel árið 2003: Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáseli, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Þær mynda fjögur hús og eru tvö þeirra tvískipt, eitt þrískipt og eitt stakt. Þar gæti hafa verið eldhús? Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ/bæjum selstaðan þarna var.
Tóftir húsanna standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum, sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli. Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu, en jarðskjálftar á fyrri hluta síðustu aldar hafi eytt þessum eina „fossi“ í hreppnum.
Um er að ræða þrjú eða fjögur hús í selinu og stekk skammt sunnar. Hann er orðinn nokkuð óljós, en tóftirnar hafa varðveist vel. Veggir eru grónir og sjá má móta fyrir hleðslum í sumum þeirra. Húsin er öll í einni röð undir gjárveggnum, sem fyrr segir. Nyrsta húsið er utan í þrískiptu húsi. Hin húsin eru tvískipt með nokkuð stórum rýmum (af seljum að vera). Það bendir til þess að þau séu ekki mjög gömul miðað við sum önnur selin í heiðinni. Mögulega hafa einhverjir bæir sameinast þarna um selstöður um tíma. Sjá má grjót í innveggjum, sem fyrr segir. Vel gróið er í kringum tóftirnar og er selstaðan mjög vel greinileg þegar komið er að henni neðanfrá.
Magnús Ágústsson í Halakoti sagði að þegar smalar í heiðinni hefðu farið um Gjásel hefðu þeir losað stein í gjárveggnum og þá hefði komið þar út vatn til drykkjar.
Í bakaleiðinni var komið við í Ólafsgjá.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir:
-Örnefnaskrár.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja Guðmundsdóttir.
-ÓSÁ- Sel vestan Esju, BA-ritgerð.