Glaumbær í Hraunum II

Glaumbær

Eftir að baráttan við berklaveikina fór að bera árangur og staða berklasjúklinga í þjóðfélaginu að batna, beindist líknarstaf Kvenfélagsins Hringsins inn á nýjar brautir. Þá fór félagið að styrkja fátæk og veikluð börn úr Hafnarfirði til sumardvalar í sveit. Barnaverndarfélag Hafnarfjaðar átti mikinn þátt í, að barnaheimilið Glaumbær var stofnað 1957 og lagði því talsvert fé.
Bátur á þurru landi við GlaumbæGlaumbær er í Óttarsstaðalandi. Tildrög þess að sumardvalarheimili tók þar til starfa árið 1957 voru þau að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafði oft rætt á fundum sínum um nauðsyn þess að koma á fót sumardvalarheimili fyrir börn á aldrinum 6-8 ára. Mjög erfitt hafði reynst fyrir foreldra að koma börnum á þessum aldri í sveit á sumrin og Hafnfirðingar höfðu aldrei átt barnaheimili fyrir þennan aldursflokk. KFUM í Kaldárseli hafði öðru hverju bætt úr mestu vandræðum fólks og tekið börn til dvalar stuttan tíma í einu, en aldrei sumarlangt. Rauði krossinn hafði einnig unnið gott starf á þessu sviði, og, og Kvenfélagið Hringurinn hafði árum saman styrkt hafnfirsk börn til sumardvalar í sveit.

Hleðslur í einni hamraborginni - sennilega eftir Theodór

Snemma árs 1957 var ljóst, að Kvenfélagið Hringurinn fengi ekki inni fyrir börn úr Hafnarfirði á sumardvalarheimilum Rauða krossins á Hörðuvöllum. Dagheimili Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar á Hörðuvöllum var ætlað börnum á aldrinum 2-6 ára, og í vinnuskólann í Krýsuvík komust aðeins drengir á aldrinum 8-12 ára. Barnaverndarnefnd var ljóst, að nauðsynlegt var að reyna að brúa þetta bil, t.d. á þann hátt að koma á fót sumardvalarheimilli. Snemma árs 1957 komst nefndin á snoðir um, að sumarbústaður Theodórs heitins Mathiesens læknis suður í Hraunum væri til sölu, Hún skrifaði bæjarráði og óskaði eftir fyrirgreiðslu þess í sambandi við kaup á húsinu. Bæjarráð tók málaleitan nefndarinnar vel og lofaði ábyrgð bæjarins, ef nefndinni tækist að útvega lán til kaupanna. Enn fremur skrifaði barnaverndarnefnd þeim félögum í bænum, sem höfðu barnavernd og líknarstarfsemi fyrir börn á stefnuskrá sinni og óskaði eftir samvinnu þeirra um lausn málsins. Þetta bréf var dagsett 18. marz 1957.
Undirtekir voru mjög góðar. Tvö þeirra, Barnaverndarfélagið og Rauðakrossdeildin, tæmdu þegar sjóði sína. Þau gáfu 10.000 kr. hvert, og síðan jók Barnaverndarfélagið framlag sitt um 15.000 kr. og Rauðakrossdeildin bætti 20.000 kr. við framlag sitt. Barnaverndarnefnd útvegaði með aðstoð Axels Kristjánssonar í Rafha 40.000 kr. lán hjá Iðnaðarbankanum. Fleiri lögðu hönd á plóginn.
Klettaborgir GlaumbæjarÁ sumardaginn fyrsta þetta ár var Barnaheimilissjóður Hafnarfjarðar stofnaður. Tilgangur sjóðsins var að kaupa og reka barnaheimili fyrir hafnfirsk börn. Sjóðurinn keypti síðan sumarbústað Theodórs, er nefndist Glaumbær, 16. maí 1957 fyrir 80.000 kr. Glaumbær var á kyrrlátum stað skammt frá Hafnarfirði, stutt frá þjóðvegi, en þó úr alfaraleið. Húsið stóð á fögrum stað í skemmtilegu umhverfi, í snyrtilegum og vel ræktuðum lautarbolla, og klettaborgir gnæfðu við himinn allt um kring.
Hinn 16. júní 1957 hófust framkvæmdir í Glaumbæ. Húsið var lengt með viðbyggingu og fékkst þar mjög gott svefnloft fyrir 24 börn. Niðri var svefnstofa fyrir stúlkur, snyrtiherbergi með salerni og steypibaði, svo og rúmgóður gangur og pláss fyrir miðstöðvarketil. Einnig var byggt rafstöðvarhús og rotþró og unnið að ýmsum fleiri framkvæmdum.

Glaumbær

Sumardvalarheimlið í Glaumbæ tók til starfa 10. júlí 1957, og dvöldust þar 24 börn til 20. ágúst. Starfsemin gekk ágætlega, og þrifust börnin vel á heimilinu. Þau þyngdust að jafnaði um 4 kíló hvert, meðan á dvölinni þar stóð. Heimilinu veittu forstöðu hjónin Guðjón Sigurjónsson íþróttakennari og Steinunn Jónsdóttir. Þeim til aðstoðar var Ólöf Kristjánsdóttir. Þegar stafi heimilisins lauk í ágúst, var barnaheimilissjóðurinn orðinn mjög skuldugur, enda var starfsemin í Glaumbæ kostnaðarsöm. Sjóðurinn tók lán hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, og fjársöfnun meðal bæjarbúa var haldið áfram. Var því unnt að hefja starfsemi barnaheimilisins á ný sumarið 1958.
Barnaheimilið í Glaumbæ var starfrækt með líku sniði á hverju sumri frá 1957-68, en þá var starfseminni þar hætt, m.a. vegna hugsanlegrar mengunarhættu frá Álverinu í Straumsvík, sem var að hefja starsfemi sína um þær mundir.

Glaumbær

Glaumbær sem sumarhús.

Húsið stóð lengi autt uns það brann, líkt og nafni þess í Reykjavík nokkrum árum síðar. Enn má sjá klettaborgirnar sem og aðrar minjar um veru barnanna í Glaumbæ á framangreindu tímabili.
Óttarsstaðir var hof- og kirkjustaður fyrr á öldum. Þar er grafreitur, jafnvel á fleiri en einum stað. Heimild er fryrir því að árið 1379 votta þeir Kári Þorgilsson, Jón Oddsson og Ólafur Koðráðsson að hafa heyrt máldaga kirkjunnar í Viðey lesinn og að Ólafur hafi lesið hann sjálfur áður en kirkjan brann. Þann 9. september 1447 höfðu þeir Einar Þorleifsson og Steinmóður Viðeyjarábóti með sér jarðaskipti. Meðal þeirra jarða sem komu í hlut klaustursins voru 10 hundruð í Ottastöðum í Kálfatjarnarkirkjusókn. Óttarsstöðum bregður fyrir í fógetareikningunum 1547-1552 og eru þá líkt og aðrar Viðeyjarklaustursjarðir komnir í konungs eigu.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir.

Óttarsstaðir eru meðal svokallaðra Hraunajarða. Á árunum 1825–1874 áttu sér stað ýmsir atburðir er snérust um tengsl Hraunajarða og almenningslands Álftnesinga á Reykjanesi. Óttarsstaðir voru seldir úr konungseigu þann 28. ágúst 1839. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 er getið bæði Óttarsstaða og Óttarsstaðakots þrátt fyrir að hvorki prestur né sýslumaður geti hjáleigunnar. Ástæða þess er að nokkru leyti ábúendatalan sem sýslumaður gaf upp á öllum Óttarsstöðum en að auki var hún byggð 1803. Í jarðamatinu 1849 er kafli um jörðina Óttarsstaði með hjáleigunum Óttarsstaðakoti og Nýjakoti.
Þrjú landamerkjabréf fyrir Óttarsstaði voru undirrituð 26. maí 1890 og þeim öllum þinglýst 9. júní sama ár. Fyrsta bréfið fjallaði um landamerki milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Í fasteignamatinu 1932 er að finna lýsingar á eftirfarandi jörðum í Óttarsstaðahverfi: Óttarsstaðir I og II og Óttarsstaðagerði.

Glaumbær

Glaumbær sem barnaheimili. Á meðfylgjandi mynd af Glaumbæ má húsið eftir að það var lengt sem og stíginn heim að húsinu. Í dag sést grunnur hússins enn sem og stígurinn.

Klettaborgirnar ofan við Glaumbæ gefa tilefni til að rifja upp gamla deilu um landamerki Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur þar sem segir „… að öðru leyti hefi jeg ekki að athuga [við landamerkjabréf Krýsuvíkur] nema óráðið mun um rjetta þekkingu á „Markhellu“ að vestanverðu.“ Undir þetta skrifaði Oddur V. Gíslason prestur á Stað í Grindavík … Önnur athugasemd var gerð og var hún svohljóðandi: „Sem eigendur og umboðsmenn Hvassahraunshverfisins leyfum við oss að gjöra þá athugasemd við framanskráð landamerki að í staðinn fyrir „Markhellu“ sjé settur „Markhelluhóll.Að öðru leyti samþykkt.“ Þetta undirskrifa Einar Þorláksson og Sigurmundur Sigurðsson. Athugasemdin um Markhelluhól hefur verið tekin til greina því skjalinu er þinglýst með því nafni. Nefnd Markhella er allnokuð austan við Búðarvatnsstæðið og Markhelluhól.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða. Markhellan er allnokkuð austar.

Setninguna „… Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði“ er vert að athuga nánar. Ca. km fyrir ofan vatnsstæðið er trúlega hinn eina sanna Markhella og á landakortum síðustu ára eru mörkin um hana. Á hólnum er lítil varða og stendur hann rétt ofan við djúpa en þrönga gjá og eru stafirnir sem getið er um í landamerkjabréfi Óttastaða – Hvassahrauns meitlaðir stórum stöfum á hólklöppina sem snýr til norðausturs. Það er merkilegt hvað stafirnir eru greinilegir ennþá og vel getur verið að þeir hafi verið skýrðir upp einhverntíman á síðustu öld. Steindranginn, sem nefndur er í lýsingunni, er til þarna í nágrenninu og er hann spöl neðan og vestan við helluna út í illfæru og grófu apalhrauni. Rétt við steindranginn er gömul mosagróin varða, há og mikil um sig, hlaðin úr stórum hraunhellum. Í lýsingunni hefur því verið blandað saman í eitt mark, hólnum og drangnum og eins gæti hugsast, að mörkin hafi einhvern tímann legið neðar, þe.a.s um drangann en ekki hólinn. Hvassahraunsbændur gerðu sér grein fyrir þessu við undirskrift bréfsins og að hægt var að ruglast á stöðunum vegna líkra nafngifta.

Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar, Ásgeir Guðmundsson, 1983.
-Íslenzkt fornbréfasafn, IV. b. Kaupmannahöfn. 1895-1897, s. 707-708.
Glaumbær