Glettur – úr lífsins sögu
Hér er til gamans birtur kafli, nr. 32, úr óbirti sögu ungs drengs er ólst upp í sjávarþorpi á Reykjanesskaganum á sjötta tug síðustu aldar. Ameríski herinn hafði bækistöðvar við þorpið og setti það svip sinn á mannlífið. Sögunni fylgir kort af svæðinu, en það verður ekki sýnt hér. Til að leiða lesendur inn í kaflann, sem hér er birtur, er fyrst staldrað við í 31. kafla:
31.
„Drengirnir voru enn að voma á sandinum ofan við Þorpið þegar þeir veittu allt í einu athygli grænleitum pallbíl þar sem honum var ekið eftir veginum að grófriðnu vírnetshliði á girðingunni umhverfis fjarskiptastöð hersins. Ökumaðurinn stöðvaði framan við hliðið og hermaður kom út úr varðskýli þar fyrir innan og opnaði. Þegar bílnum hafði verið ekið inn fyrir var hliðinu umsvifalaust lokað á ný. Bíllinn var stöðvaður framan við bragga skammt innan við varðskýlið. Ökumaðurinn og tveir vopnaðir hermenn, sem verið höfðu farþegar, yfirgáfu hann þar og flýttu sér inn í skúr við endann á bragganum.
 Aftan á bílnum grillti í enda á nokkrum trékössum. Þeir voru að hluta huldir gráum segldúk, en þetta voru samskonar kassar og þeir, sem drengirnir höfðu séð Kanana vera með þegar þeir voru að lauma amerískum bjúgum að Lónsvíkingum eða nota þau í skiptum fyrir eitthvað sem þá vanhagaði um. Lyktin af bjúgunum var svo sterk að hún fylgdi Könunum hvert sem þeir fóru, jafnvel þótt engin bjúgu væru í nánd. Anganin fannst meira segja alla leið niður á Torfu þegar vindur stóð af norðvestri, en það var þó sem betur fer sjaldgæf vindátt á þessum slóðum….
32.
Jón Pétur og Gunnsi voru sammála um að ástæða væri til að líta nánar á kassana á bílpallinum. Ekki var nokkurn mann að sjá á ferli innan við girðinguna. Drengirnir áræddu að rísa upp og gengu hálfbognir að henni. Þeir hikuðu. Á girðingunni voru einhver gul skilti með erlendri áletrun og mynd af rauðri eldingu. Amma hafði sagt Jóni Pétri að koma ekki nálægt vírnetinu því Kananum væri alveg trúandi til að tengja rafmagnsstraum við það. En Jón Pétur vissi betur. Hann hafði sjálfur sannreynt það einu sinni að ekkert rafmagn væri leitt í girðinguna með því að kasta á hana dauðri veiðibjöllu, sem hann hafði fundið þar skammt frá. Hún hafði sennilega drepist við að fljúga á einn víranna sem háu fjarskiptamöstrin voru stöguð niður með.
Til að gæta alls öryggis og hafa vaðið fyrir neðan sig gættu drengirnir þess vel að snerta ekki netið að óþörfu. Það var aldrei að vita nema gamla konan rétt fyrir sér. Hún var ekki vön að segja ósatt. Og það gat ekki verið að ástæðulausu sem hún var að vara við girðingunni.
Vindurinn þyrlaði rykinu upp á malarsvæðinu innan við girðinguna. Lyktin af bjúgunum varð greinilegri.
„Gaman væri nú að geta glatt ömmu með einum svona kassa“, hugsaði Jón Pétur. „Hún hefur ábyggilega aldrei bragðað svona mat blessunin og á sennilega aldrei eftir að gera. Og hvað munaði Kanana svo sem um einn kassa?”
Kaninn virtist eiga nóg af bjúgum. Að minnsta kosti voru þeir alltaf að gefa þær hverjum sem þiggja vildi, út og suður í tíma og ótíma, annað hvort í skiptum fyrir eitthvað annað eða að því er virtist að tilefnislausu. Amma Áslaug hafði þó ekki staðið í verslun við Kanann – einungs látið sér nægja lyktina.
Á meðan Jón Pétur og Gunnsi stóðu þarna hálfbognir utan við girðinguna tókst þeim á skömmum tíma að sannfæra hvorn annan um að ekki yrði hjá því komist að þeir reyndu að ná einum kassanna fyrir innan girðinguna með einhverjum ráðum. Ekki var þorandi að reyna að klifra yfir. Þótt ekki væri straumur á girðingunni þessa stundina væri ekki hægt að útiloka að Kaninn gæti hleypt á hana straumi öðru hvoru. Og það var alveg eins líklegt að hann gerði það ef hann yrði þeirra var. Auk þess var hún það há að vonlaust var fyrir þá að koma kassanum aftur yfir þá leiðina. Og ekki höfðu þeir verkfæri til þess að grafa sig undir girðinguna.
Drengirnir fikruðu sig spenntari og spenntari, en hikandi nær hliðinu, vitandi að vörðurinn í skúrnum fyrir innan var vopnaður. Því urðu þeir að fara sérstaklega varlega og láta lítið á sér bera.
Þegar nær dró settust þeir niður í sandinn og hvísluðust á. Þeim fannst þeir vera komnir í einhvers konar leik, sem þeir urðu að ljúka.
Allt í einu birtist vörðurinn í dyragættinni. Drengirnir beygðu sig alveg niður í sandinn. Vörðurinn stóð þarna nokkra stund, skimaði í kringum sig, horfði yfir að bílnum, reykti, kastaði sígarettunni frá sér og snéri síðan aftur inn. Hann virtist óvopnaður. Drengirnir önduðu léttar. Þeir stóðu upp, hlupu hálfbognir að hliðinu og tóku lauslega í það. Heppnin var vera með þeim. Grindin féll ekki alveg að hliðarstólpanum. Nokkurt bil myndaðist þar á milli ef grindin var spennt frá.
Drengirnir horfðust í augu. Hvor skildi hinn. Jón Pétur tók á sig rögg og smeygði sér hiklaust inn fyrir. Það var hann sem hafði átt hugmyndina og því var sjálfsagt að að hann færi. Gunnsi beið utan við hliðið og átti að halda því í sundur og vara Jón Pétur við ef vörðurinn eða einhver annar birtist.
Jón Pétur hljóp hljóðlega að pallbílnum og fram með afturhluta hans fjær bragganum. Hann staðnæmdist, en enga hreyfingu var að sjá á svæðinu. Hann greip þéttingsfast í skjólborðið, steig upp í felguna og vó sig upp á afturdekkið. Þaðan náði hann spyrnu til að geta teygt sig í einn kassann og draga hann hægt og varlega að sér. Annar endi kassans hvíldi á skjólborðinu. Jón Pétur lét sig síðan síga niður á jörðina og dró kassann að því búnu til sín.
Byrðin var þyngri en hann hélt. Jón Pétur átti erfitt með að ná nægilega góðu taki á kassanum og missti hann því á jörðina. Við það varð mikill hávaði.
Jón Pétur stóð grafkyrr. Hann þorði ekki að draga andann, húkti bara steinrunninn yfir kassanum. Engin hreyfing. Vindurinn hlaut að hafa dreift hljóðinu.
Jón Pétur tók kassann upp og hraðaði sér hálfboginn með hann að hliðinu. Þar beið Gunnsi eftir honum. Hann spennti sundur hliðið og Jón Pétur henti kassanum út fyrir í gegnum rifuna og fylgdi snarlega á eftir. Þeir gripu síðan undir sinn hvorn endann og hlupu við fót niður tröðina frá fjarskiptamiðstöðinni. En rétt áður en þeir komust í hvarf neðan við sandhæðina og niður á veginn kom varðmaðurinn út úr skúrnum.Â
Varðmaðurinn sá óðara hvers kyns var og hrópaði í ofboði á félaga sína, sem komu strax hlaupandi út. Eftir nokkurt handapat og köll stukku tveir hermannanna upp í bílinn og einn þeirra hentist fallvaltur að hliðinu. Tilburðir þeirra báru ekki með sér að um þrautþjálfaða atvinnuhermenn væri að ræða. Það tók Kanana auk þess nokkurn tíma að koma bílnum í gang og snúa honum við á svæðinu, en að því loknu hófst eftirförin. Vörðurinn stóð utan á skítbrettinu og hélt sér í þakbrúnina, albúinn að stökkva á bráðina ef færi gæfist.
Drengirnir urðu varir við að bílinn stefndi í áttina að þeim. Þeir hertu því hlaupin. Gunnsi dróst aftur úr. Jón Pétur tók þá kassann í fangið. Hann hafði ekki hugsað sér að sleppa herfanginu átakalaust.
Gunnsi hrópaði að þeir skyldu stytta sér leið yfir kríuvarpið. Þeir beygðu út af veginum, hlupu yfir varpið, stukku í gegnum geil á hlöðnum grjótveggnum í túnfæti Vesturbæjarins og hiklaust áfram yfir túnið í átt að Miðbænum. Það var eins og kölski sjálfur væri að narta í hælana á þeim.
Hermennirnir þurftu að fara veginn og því mun lengri leið. Einn þeirra stökk af bílnum þegar hann nálgaðist hlaðna grjótvegginn í beygju á veginum og hljóp á eftir piltunum yfir túnið. Hinir héldu áfram á bílnum, en fylgdust þó vel með ferðum drengjanna. Til þess að komast inn í Þorpið og niður að bæjunum urðu þeir þó fyrst að krækja vestur fyrir Búðina. Leiðin var seinfarin á þungum herbílnum og á meðan nálguðust drengirnir óðfluga Miðbæ.
Það stóð á endum að um það bil sem Jón Pétur náði að útidyrunum birtist hlaupandi hermaðurinn við húshornið og hinir hermennirnir stöðvuðu bílinn um svipað leyti á hlaðinu. Annar þeirra stökk þegar út og hljóp hröðum skrefum í átt að húsinu. Jón Pétur náði að opna hurðina og var að henda sér inn á ganginn innan við forstofuna þegar einn hermannanna náði lafmóður taki á skyrtu hans með annarri hendinni og náði að grípa í kassann með hinni.
Jón Pétur lamdi og sparkaði frá sér af öllum kröftum og öskraði um leið: „Amma, amma, hann ætlar að drepa mig“, með slíkum látum að halda mætti að verið væri að kreista úr honum síðustu líftóruna. Kaninn sá þá sitt óvænna og sleppti drengnum, en hélt eftir kassanum.
Áslaug kom haltrandi fram. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið, var órótt, en róaðist er hún varð þess áskynja að engin virtist hafa meiðst. Mikil rekistefna fylgdi í kjölfarið með hrópum, handafettum og brettum. Kaninn var óðamála, en Áslaug fórnaði höndum. Enginn skildi upp né niður í neinu í fyrstu, en svo skýrðust hlutirnir smám saman.
Loks kom í ljós hvers vegna Könunum hafði verið svo mikið í mun að ná í „bjúgun“, sem Jón Pétur og Gunnsi töldu sig hafa náð í. Í kassanum reyndust ekki vera meinlaus matvæli, heldur hættulegar dýnamítstúpur, sem ætlaðar voru til nota í hernaði. Þegar ró hafði komist á hrósuðu allir happi að ekki skyldi hafa farið verr í þetta skiptið.
Drengirnir höfðu læðst inn fyrir og földu sig hræddir inni í herbergi á meðan Áslaug bauð Könunum þremur í kaffi og pönnukökur. Svo gott fannst Könunum meðlætið að þeir gleymdu næstum að taka með sér kassann þegar þeir voru kvöddu gömlu konuna.
Jón Pétur og Gunnsi höfðu ekki þorað að koma út úr herberginu á meðan á veisluhöldunum stóð. Þeir létu lítið á sér bera og áræddu ekki einu sinni að kasta kveðju á gestina þegar þeir fóru.
Um kvöldið þegar Jón Pétur hafði strokið sér í framan, lagstur upp í rúm og dregið sængina skömmustulegur upp fyrir höfuð sér, kom Áslaug og settist á rúmstokkinn hjá honum. Hún strauk með hendinni yfir enni hans og klappaði honum á kinnina.
“Ég veit að þetta var vel meint, gullið mitt”, hvíslaði hún. “Þótt þér finnist gaman að gleðja mig, gömlu konuna, gleður það mig meira að vita af góðum og heiðarlegum dreng á öruggri leið. Litli, ræfillinn minn. Ég ætla að biðja þig um að taka aldrei það sem aðrir eiga – ekki einu sinni í þeim tilgangi að gleðja aðra. Heyrirðu það, hróið mitt? Heyrirðu það”?
Áslaug taldi ekki ástæðu til að skammast sérstaklega yfir uppátækinu því hún vissi að drengirnir höfðu þegar dregið sinn lærdóm af því.
Þrátt fyrir atburði dagsins sofnaði Jón Pétur sáttur. Hann hafði lofað Áslaugu að láta hjá líða að gera aðra atlögu að ameríska hernum – þótt ekki væri fyrir annað en að halda friðinn.“
Nú, hálfri öld síðar er sagan gerðist, eru ummerki eftir loftskeytastöðina tilnefndu að mestu afmáð af yfirborði jarðar. Enginn vegfarandi, sem á leið um svæðið, gæti látið sér detta í hug að þarna hefði verið eitt af lykilmannvirkjum bandamanna (þess tíma) í baráttunni um heimsyfirráð (Kalda stríðsins). Allt í heiminum er svo hverfult. Líklegt má telja að deilumál dagsins í dag, orkuöflun og möguleg nýting hennar, muni að hálfri öld liðinni verða þess tíma fólki hjóm eitt. Vonandi mun eyðileggingin þó ekki verða í líkingu við þá er varð fyrir (okkar) 50 árum síðan – vonandi höfum við lært eitthvað, þótt ekki sé nema eitt hænuskref sem þurfa þykir – eftirlifandi kynslóðum til góða…