Gleymdu ekki að hlusta…..

Sigvaldi Kaldalóns

Eftirfarandi ljóð Guðmundar E. Geirdals var tileinkað Sigvalda Kaldalóns, tónskáldi, en eins og kunnugt er bjó Sigvaldi í Grindavík. Ljóðið heitir „Gleymdu ekki að hlusta…“ og birtist í ljóðabók Guðmundar „Lindir niða“ er gefin var út árið 1951. Ljóðið minnir Grindvíkinga og aðra á hversu mikilvægt er að kunna að hlusta á þögnina, umhverfið og njóta þess „ævintýralands“, sem þeir eiga.

Þorbjörn

Þorbjörn – Klifhólahraun.

Komir þú í Grindavík um glæsta júnínótt,
gleymdu ekki að hlusta þegar allt er kyrrt og hljótt.

„Maðurinn í hrauninu“ hörpu sína slær,
hreinni tónum enginn úr strengjunum nær.

Þér finnst hraunið lifna og ljóma slá á sand,
litla víkin breytist í ævintýraland.

Þarna ríkir ástin og æskuvonin hlær.
Úthafið og byggðin þér færist hjarta nær.

Berg og hólar opnast og álfar fara á kreik,
þeir iðka faldafeykinn við hörpuslagans leik.

Strönd

Strönd.

Hafgúur á ströndinni stíga léttan dans,
stefna brúnaljósum í áttina til hans.

Fögur er sú hönd, sem þér opnar æðri svið
og eyrað næmt, sem hlerar hinn dulda strengjaklið.

Það hjarta er milt og göfugt, sem gengur list á hönd
og gullnar perlur finnur á þagnarinnar strönd.

Mundu að vaka og hlusta, þó að morgunn færist nær,
því „maðurinn í hrauninu“ gígju sína slær.“

Sundhnúkur

Við Sundhnúk.

Mikilvægt er fyrir Grindvíkinga, líkt og alla aðra, að kunna að hlusta. Sagt er að virk hlustun sé góð leið til að láta öðrum líða betur – og verða sjálf/ur fróðari á eftir. Það er því til mikils að vinna – án nokkurs tilkostnaðar.

Vilji til að hlusta felur í sér virðingu og hvatningu. Hlustun er lykill að góðum samskiptum því „maður hlustar á þann sem maður virðir“. Það er slæmur síður að grípa fram í fyrir fólki, en slíkt virðist því miður of algengt á meðal landans. Sá sem hlustar á síður á hættu að missa af gullkornum.

Sjá minnisathöfn um Sigvalda í Grindavík HÉR.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns.