Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gengið var með Leó M. Jónssyni um Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Hafnaeyri (Eyri – Eyrarhöfn) vestan Hafna. Um er að ræða eitt áhrifamesta minjasvæði á landinu er lagðist í auðn vegna sandfoks um aldarmótin 1700.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Systursvarða.

Þarna eru tóftir í sandorpnum hólum, gerði og garðar, vörslugarðar, byrgi, refagildra, rétt, grafreitur o.fl. o.fl.
Haldið var um Merarholt sunnan Hundadals. Eftir um 10 mínútna gang um Merarholt var komið niður á gamla Hafnaveginn. Á hólum við veginn eru tvær vörður, Systur. Sú eystri er heil, en sú nyrðri fallin. Sunnan við heilu vörðuna er hringlaga gerði, sennilega gömul fjárborg. Margir gígahraukar sjást í hrauninu. Á hægri hönd sést langt nes sem gengur út í sjó til norðvesturs. Það nefnist Eyri. Nokkru sunnan við Eyri, við þríhyrningslaga klapparstrýtu, sem nefnist Klauf, þar hefst Hafnaberg sem Lágaberg og smáhækkar til suðurs og er hæst 80 metrar, þverhnípt í sjó fram.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Uppdráttur ÓSÁ.

Gamli vegurinn er lítið annað en slóð. Af honum við vörðurnar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Uppi á honum að sunnanverðu er lægð og grjót utan í kantinum. Þar gæti hafa verið stekkur fyrrum. Vestan hans, í fjörunni er klapparhóll, Hvarfklöpp. (Í henni býr álfkona segir í sögunni Marína eftir Jón Thorarensen). Ofan vegarins er annar klapparhóll og uppi á og utan í hinum hlaðið byrgi. Frá honum til suðurs og síðan ti vesturs liggur vörslugarður ofan við bæina og þau mannvirki er hafa tilheyrt þeim. Garðurinn er sennilega um 2 km langur. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Ofan hans, ofan vörslugarðsins, má sjá móta fyrir götu. Leó sagði að sagnir væru til um gamla götu milli Kirkjuhafnar og Kalmannstjarnar, auk þess em gata væri milli Hafnabæjanna og Presthóls inn á Prestastíginn til Grindavíkur.Stígurinn dregur sennilega nafn sitt af Presthól þessum, skammt ofan við Mönguselsgjá.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Bein voru tekin úr kirkjugarðinum á 18. öld og færð út í kirkjugarðinn við Kotvog, þar sem núverandi Hafnir eru. Hverfin á milli þessara staða voru Merkines (og Merkisteinn) og Kalmannstunga (og Junkaragerði), en þau voru við lendingarnar líkt og Hafnabæirnir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Þegar best lét hefur verið mikið mannlíf á þessu svæði. Það á sér merkilega þjóðfélagssögu þar sem lífið er samofið fiskgengdinni, sem var ýmist alger ládeyða eða vaðandi þegar best lét. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einnig hafa verið mörg og stór, eru bæði hleðslur og rústir.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Hafnaeyri (Eyri).

Skammt utar, nær sjó, eru rústir tvíbýlis sem nefnist Hafnaeyri og talið hafa farið í eyði um 1830. Nokkuð heillegur hlaðinn garður er yst á Eyri um 15 m á kant. Þessi hleðsla varði kálgarð fyrir sandfoki. Í gerðinu voru einnig bátar geymdir, enda er það skammt ofan við lendinguna. Óhætt er að segja að ströndin fyrrum hafi litið öðruvísu út en nú gerist, bæði vegna ágangs sjávar og landssigs.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – refagildra.

Ofar og gegnt lendingunni má sjá tvær vörður, hvora upp af hinni. Þær eru holar að innan líkt og vörðurnar ofan við Kirkjuhöfn. Líklega hefur verið um gónvörður að ræða. Þá gætu þær hafa verið notaðar til að kynda í bál eftir að dimma tók til að leiðbeina síðbúnum bátum rétta lið inn lendingarnar. Þegar gengið er um þessa hóla nú er erfitt að gera sér í hugarlund að þar hafi áður fyrr verið stórbýli – svo vandlega hefur foksandurinn unnið sitt eyðingarstarf. Þegar horft er yfir svæðið, einkum á berar klappirnar þar sem sandurinn hefur með tímanum þurrkað út hraunreipin, má gera sér í hugarlund hvernig hann hefur einnig eitt gróðrinum, sem þar var fyrir.

Gömlu Hafnir

Vörslugarðurinn ofan við Gömlu Hafnir.

Leó sagði svæðið hafa gróið mikið upp eftir tilkomu sandgræðslugirðingarinnar og uppgræðslunnar í Stóru-Sandvík. Þá hefði gróðurinn tekið mikið við sér á síðustu árum.
Í bakaleiðinni var kíkt á refagildruna ofan við Eyri, byrgi skammt austar, garða og síðan var vörslugarðinum fylgt að ysta klapparhólnum ofan við Hvarfklöpp, þar sem eitt byrgið trjónir ofan á. Annar vörslugarður (sennilega sandvarnargargarður) nær frá norðanverðu Hafnabergi yfir að rótum Hundadals.
Þá var haldið upp á Hafnaberg (sjá meira HÉR og HÉR).
Svæðið í og kringum Gömlu Hafnir er vanmetið minjasvæði. Þegar vel er að gáð er þar að finna flestar þær minjar er prýtt geta slík búsetusvæði frá því um og eftir miðaldir. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram á minjunum.
Frábært veður.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.