Grásteinn – álfar
Sagt er að til séu þrenns konar álfar, þeir sem búa undir jörðinni, þeir sem búa í sjónum og svo þeir sem búa í klettum og hólum.
Til eru margar álfasögur þar sem álfarnir eru ýmist góðir eða vondir. Góðir álfar gerðu mönnum gott sérstaklega ef menn hjálpuðu þeim með eitthvað og eru til margar sögur um það að menn hafi átt góða ævi eftir að hafa aðstoðað álfa. Aðrar sögur segja að álfarnir séu ekki allir góðir og eigi það til að hefna sín ef illa er látið í kringum heimili þeirra.
Á okkar tímum hefur ekki frést mikið af álfum en þó hefur verið sagt frá því að vegagerðarmenn hafi lent í vandræðum með tækin sín ef þeir þurfa að leggja vegi við heimili álfa.
Sem dæmi má nefna Álfhól í Kópavogi þar sem reynt var nokkrum sinnum að leggja veg en því var á endanum hætt því það bilaði alltaf eitthvað hjá vinnumönnunum og talið var að álfarnir væru að vernda heimili sín með þessum verkum.
Sögn greinir svo frá, að í upphafi hafi Guð skapað konu af moldu fyrir Adam. En þessi kona var svo ókyrr hjá honum og stygg að hvorki Adam né Guð gátu neinu tauti við hana komið. Fór svo að lokum, að Guð skapaði henni mann eftir hennar eðli og nefndi hann Álf, en hana Alvör og eru af þeim komin öll tröll og álfar.
Svo virðist sem íslensk þjóðtrú geri ekki greinarmun á álfum annars vegar og huldufólki hins vegar, enda þótt þessar tvær nafngiftir hafi verið viðhafðar um huldar verur í hólum og klettum frá öndverðu. Þannig er huldufólkið að mörgu leyti líkara mannfólkinu, og jarðneskt í útliti og klæðaburði. Sagt er að huldufólkið sé ekki meiri álfar en mennirnir. Álfar berast meira á með litklæðum sínum og íburðarmiklum híbýlum sem oft minna meira á sagnaveröld ævintýra en þjóðtrúarsagna.
Álfar geta ýmist verið góðar eða illa innrættar verur. Huldufólk virðist hins vegar hvorki illt né gott að upplagi, heldur sýnir það sínar betri og verri hliðar eftir tilefnum.
Erla Stefánsdóttir, álfafræðingur, sagði einhverju sinni að þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. “Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega útaf fyrir sig.
Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.
Athyglisvert er að krossinn á öllum álfakirkjum er sérstakrar gerðar og öðruvísi en krossinn sem við notum þar sem þverslárnar eru tvær og vísa í hinar fjórar höfuðáttir.”
Heimildir m.a.:
-Ólína Þorvarðardóttir – Álfar og tröll, Bóka- og blaðaútgáfan sf., Rvík 1995
-http://www.ismennt.is/vefir/ari/alfar/
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/alfar.htm