Grindavíkurvegurinn

Gíghæð

Gamli Grindarvíkurvegurinn var lagður á árunum 1913 til 1918. Hann var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Þeir fjármögnuðu sinn hlut aðallega með lifrarpeningum.
Sigurður Gíslason
Verkstjórinn við vegagerðina var Sigurgeir Gíslason frá Hafnarfirði, reyndur vegagerðarmaður. Hann segir m.a. í skýrslu sinni 11. nóv. 1917 að vegurinn hafi alls verið 16 km og 120 m frá Vogastapa að verslunarhúsum við Járngerðarstaðavík í Grindavík. Við vinnuna voru 35-48 menn að jafnaði frá vori að hausti með 13-16 hesta. Í skýrslum hans er getið um alla þá er unnu við vegagerðina og hvað þeir fengu í kaup.
Meðfram veginum, frá Seltjörn að Grindavík, eru fjölmargar minjar vegavinnuframkvæmdanna, þ.e. búðir og skjól vegavinnumanna. Því miður var svæðið meðfram Grindavíkurveginum illa leikið þegar nýi vegurinn var lagður.
Ekki er ólíklegt að þá hafi margar minjar hreinlega verið eyðilagðar af vangá. Hér á eftir verða taldir upp gamlir Gatastaðir, sem vert er að skoða þegar farin er nútímaleiðin til Grindavíkur.
Við gatnamót Keflavíkurvegar og Grindavíkurvegar og Vogastapa mátti þangað til nýlega sjá hlaðin gerði vegavinnumannanna. Framkvæmdir, sem unnar voru þar á þessu ári og því síðasta, eyðilögðu þessar minjar.
1. Sunnan Seltjarnar liggur vegur að Stapafelli. Á milli hans og tjarnarinnar er hlaðin rétt upp á hæð svo og gerði. Handan vegarins eru tóttir sels, Innra-Njarðvíkursels. Selið var jafnframt notað sem búðir vegavinnumanna um tíma.

Gíghæð

Gíghæð – vegavinnubúðir.

2. Austan Grindavíkurvegar, nokkuð sunnan gatnamótanna að Seltjörn, er gömul rudd gata inn í hraunið. Lúpínubreiða er við vegabrúnina þar sem gatan byrjar. Hún liggur að búðum um 50 metrum inn í hrauninu. Þar eru hluti af hlöðnum húsum, skjól og rutt svæði fyrir tjaldbúðir. Skammt sunnan götunnar, nær veginum, er hlaðinn hringur, sennilega skjól fyrir tjöld.
3. Skammt sunnar, á hægri hönd eru þrír hlaðnir skjólgarðar utan í hraunhól, u.þ.b. 30 metrum frá veginum.
4. Á vinstri hönd er stigi yfir girðingu, sem liggur samhliða Grindavíkurveginum. Stígur er frá stiganum, varðaður, að helli. Hlaðið er fyrir opið, en dyragat á. Inni í hellinum eru hleðslur. Hann liggur til vesturs, undir veginn, og er um 160 metra langur. Hellirinn var notaður sem skjól fyrir vegavinnumenn, en einnig mun hann hafa verið notaður sem skjól bruggerðarmanna um tíma.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

5. Á hægri hönd, örskömmu sunnar, eru klettar um 10 metrum frá veginum. Utan í öðrum hólnum er hlaðið hús, heillegt. Inni í því er skúti.
6. Þegar komið er framhjá gatnamótum vegar að Arnarsetri er jarðfall vinstra megin vegar, rétt fyrir innan girðinguna. Norðan í því er Dátahellir. Í hellinum fundust bein og fataleifar, hnífur, beltissilgja o.fl. af bandarískum dáta, sem hvarf þarna í hrauninu. Beinagrindin af honum var þarna fyrir innan stein, sem nemur við hellismunnann.

Dátahellir

Dátahellir.

7. Skammt þar frá, sömu megin, einnig rétt fyrir innan girðinguna, er hlaðið hús, hesthús vegagerðarmanna, ofan í hraunrás. Stígur liggur frá því til suðurs og beygir síðan til austurs, að öðru hlöðnu, heillegu húsi, smiðju. Þá blasa við tvö önnur hlaðin hús, svo til heil. Annað er hesthús. Austan við þau er rutt skeifulaga svæði. Það hefur annað hvort verið notað undir tjald eða verið notað til járninga.
8. Handan vegarins er bílastæði. Í vesturjarðri þess er djúp hola, sem myndaðist er unnið var við nýja veginn.

Grindavíkurvegur

Gamli Grindavíkurvegurinn – uppdráttur ÓSÁ.

9. Í brekkunni á vinstri hönd eru hleðslur, sennilega skjól fyrir hesta.
10. Á hægri hönd, rétt áður en komið er að gatnamótum vegar að Bláa Lóninu, er stór hleðsla skammt frá veginum. Við hana er önnur hleðsla.
11. Þegar komið er framhjá gatnamótunum og aðeins upp á hæðina eru hlaðin hús, hálffallinn, innan við 10 metra frá veginum. Þó er þarna heill hlaðinn veggur og rutt svæði.
12. Hlaðinn hringur er skammt sunnar, hægra megin vegar, ca. 15 metrar frá vegi. Þetta er líkast til skjól.
13. Hlaðinn stallur er vinstra megin vegarins, ca. 10 mertum frá, rétt áður en komið er út úr hrauninu við slóðan að Svartsengisfjalli.
14. Upp úr Svartsengi, þar sem grastungan nær lengst til norðurs, liggur stígur upp í hraunið og áfram í átt að búðunum vestan við Arnarsetrið. Hlaðið er í stíginn á nokkrum stöðum. Líklega er um að ræða stíg vegagerðarmanna áður en vegurinn náði að Svartsengi, en byrjað var á honum að norðanverðu, á Stapanum. Þarna fyrir ofan er klettur, nefndur September, en tekið var mið af honum þegar verkið var látið falla niður eitt haustið.

Hópssel

Hópssel.

15. Rétt áður en komið er að Selshálsi er tótt í hlíðinni á vinstri hönd, innan við 10 metra frá veginum. Þetta er tótt Hópssels, en Hóp átti land þangað. Skammt þar sunnan af sést móta fyrir stekk í hlíðinni.
16. Hægra megin vegarins, vestan í Selshálsi, sést móta fyrir tótt í lægð. Líklega er um að ræða hluta af Hópsseli, þ.e. stekkurinn.

Baðsvallasel

Baðsvellir – seltóft.

17. Á Baðsvöllum var sel frá Járngerðarstöðum. Tóttir selsins sjást í vesturjaðri hraunsins norðan Þorbjarnarfells. Einnig er tótt austar á völlunum, við vatnsstæði, sem þar er. Vegna ofbeitar var Baðsvallarselið flutt upp á Selsvelli, þar sem Grindarvíkurbæirnir höfðu lengi í seli, bæði austan á völlunum og suðvestan í þeim. Enn sést móta vel fyrir tóttum seljanna á Selsvöllum.

18. Þegar komið er upp á Selsháls sjást Gálgaklettar vel á vinstri hönd. Þar segir þjóðsagan að hreppsstjóri hafi hengt þjófa eftir að hafa fangað þá við laugar norðan Þorbjarnarfells.

Gaujahellir

Gaujahellir.

19. Á hægri hönd er Þorbjarnarfell. Efst í því er Ræningjagjá. Þar áttu þjófarnir að hafa hafst við á milli þess að þeir herjuðu á bæina fyrir neðan. Uppi á fjallinu eru einnig stríðsminjar.
20. Brekkan, niður að bænum, kallast Hesthúsabrekka. Vinstra megin hennar, áður en komið er að vatnsgeyminum, eru hraunhólar. Þar höfðu vegagerðarmenn búðir sínar áður en vegagerðinni lauk.
Sunnan vatnsgeymisins er Gaujahellir, Jónshellir öðru nafni (einnig nefndur Grindavíkurhellir). Hann lá áður alla leið þangað sem félagsheimilið Festi er nú. Hellirinn er sagður hafa verið notaður sem brugghellir um tíma. Saga er af mönnum, sem lokuðust inni í hellinum í jarðskjálfta, en komust út eftir endurtekna skjálfta.

 

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegurinn í dag.