Guddulaug
Í Mosfellsdal var lítil laug…
Halldór Laxness var mikill útivistarmaður og gekk mikið í nágrenni Gljúfrasteins enda umhverfið fagurt. Tíðum hefur hann gengið niður með Köldukvísl, yfir Laxneslæk og upp með litlum læk neðar, Laxnestungulæk. Í lækinn rennur (rann) vatn úr kaldavermsl norðan hans. Þau voru nefnd Guddulaug. Halldór segir frá lauginni í einni bóka sinna og taldi vatnið sérlega heilnæmt. Vatnsveita Mosfellsbæjar tekur vatn úr Guddulaug og öðru nálægu vatnsbóli, Laxnesdýjum.
Formlegur vatnsveiturekstur hófst í Mosfellssveit árið 1966. Vatnsveitan rekur nú eigið vatnsból í Laxnesdýjum. Vatni úr Laxnesdýjum er dreift um Mosfellsdal, Helgafellshverfi og til Reykjalundar. Auk Laxnesdýja ræður Vatnsveitan yfir fyrrnefndu vatnsbóli, Guddulaug, sem aðeins er notað þegar vatnsbólið í Laxnesdýjum fullnægir ekki þörfum. Annað neysluvatn er keypt af Vatnsveitu Reykjavíkur.
Á skilti nálægt „Guddulaug“ segir: „Guddulaug er kaldavermsl, sem gefur af sér um 10 sekúndulítra af 4 gráðu heitu vatni, og var laugin virkjuð af Mosfellshreppi um 1980. Skammt hér fyrir austan stóð kotbýlið Laxnestunga en engar menjar sjást lengur um þann bæ.
Í endurminningasögunni „Í túninu heima“ gerir Halldór Laxness Guddulaug að himneskum heilsubrunni og segir: „Í dalnum trúðu allir á þessa lind; einlægt ef einhver var hættulega sjúkur var sótt vatn í þessa lind. Faðir minn trúði á þessa lind. Ég trúði líka á þessa lind. Þegar faðir minn var hætt kominn í lúngnabólgu í fyrra sinnið var ég látinn sækja vatn handa honum í þessa lind tvisvar á dag og honum batnaði. Þegar hann fékk lúngnabólgu næst, átta árum síðar, þá var ég í bænum að láta prenta Barn náttúrunnar og einginn til að sækja honum vatn í þessa lind og hann dó…
Afrennslið úr Guddulaug var neðanjarðar, jarðvegurinn gróinn yfir lækinn. en sumstaðar voru holur niður gegnum jarðveginn oní lækinn; þar dorguðum við lángtímum saman og drógum lítinn fallegan fisk; sem betur fór ekki of oft.“
Í túninu heima
Á þessu nesi
á þessu túni
stóð bær.
Brúnklukka í mýri?
Nei, ekki meir. En altær lind og ilmur af reyr.
Og þegar þú deyr þá lifir reyr
á þessu nesi
við þessa lind
í þessu túni þar sem stóð bær.
Halldór Laxness.