Gvendarbrunnar II

Gvendarbrunnur

Árni Óla segir frá Gvendarbrunnum í Lesbók Morgunblaðsins árið 1965:

Gvendarbrunnur-201

„Fjallgarður sá, er blasir við Reykvíkingum í suðaustri, Vífilsfell, Bláfjöllin og Langahlíð, deila vötnum á Reykjanesskaganum milli Ölfuss og Innnesja. En hvaða vötnum er þar að deila? Norðan fjallanna sést varla vatn. Allt leysingavatn og úrkomuvatn hverfur í hin miklu hraun, sem þar eru og hrekst svo fram um dimm undirgöng langar leiðir. Nokkuð af þessu vatni kemur undan hraunröndinni fram við sjó, en aðeins á tveimur stöðum eru uppsprettur miklar, allfjarri sjó. Önnur þeirra nefnist Kaldárbotnar og er skammt fyrir norðan Helgafell, þaðan fær Hafnarfjörður vatnsveitu sína. Hin er í jaðrinum á Hólmshrauni, kippkorn fyrir ofan Jaðar og er mörgum sinnum vatnsmeiri. Þetta er vatnsból Reykvíkinga og hefir verið nú um rúmlega hálfa öld. Afrennsli brunnanna myndar Elliðavatn og Dimmu, en Dimma og Bugða mynda síðan í félagi Elliðaárnar.
Gvendarbrunnar eru ótal margir hér á landi, en þessir eru öllum öðrum meiri og merkilegastir. Allir draga brunnarnir nafn sitt af Guðmundi Arasyni biskupi góða, vegna þess að hann vígði þá.
Brunnarnir eru með mörgu móti og sumir ekki annað en litlar lindir. Þeir eru ýmist heima við bæi, eða þá við alfaraleið, enda er hún nú innanbæar (skammt frá Höfða) og hefir land þar umhverfis verið umturnað hvað eftir annað síðan um aldamót. Tveir Gvendarbrunnar eru í Reynivallaihálsi, annar norðan í hálsinum, en hinn á hábrúninni, þar sem svokallaður Kirkjustígur lá upp frá Reynivöllum. Og Gvendarbrunnarnir frægu hjá Hólmshrauni, hafa líka verið við alfaraleið fyrrum, þar lá leiðin þegar komið var ofan af Ólafsskarði, og síðan yfir hraunið niður að Jaðri, eins og enn má sjá, en þaðan sunnan við Elliðavatn, hvort sem farið var til Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur.
holmsa-221Næst andrúmslofti er vatn mesta lífsnauðsyn manna. Gott vatnsból við bæarvegg er gulli betra og því höfuðkostur og dýrmætustu hlunnindi á hverju byggðu bóli. Það er því mjög athyglisvert hve víða eru léleg vatnsból hér á landi, eða hve langt þarf að sækja nothæft drykkjarvatn. Virðist þetta benda til þess, að forfeður vorir hafi ekki verið vandir að vatni, og ekki látið sér blöskra þótt sækja þyrfti það um langan veg og jafnvel örðugan. Þeir hafa að vísu komist af með miklu minna vatn, heldur en síðar varð. Ekki þurftu þeir að eyða vatni til hreingerninga og þvottur mun hafa verið þveginn úti. Vatn var ekki borið í gripi, heldur voru þeir reknir til vatns hvern dag á vetrum. Vegna mataræðis mun og hafa verið notað lítið vatn í eldhúsum. Þá ber og á hitt að líta, að þeir höfðu ódýran vinnukraft og munu þrælar og ambáttir hafa séð um allan vatns burð, og þá ekki verið um það fengist þótt sækja yrði vatnið langa leið, eða niður í brött gil. Víða hafa einnig sjálfsagt orðið þær breytingar að lækir hafa lagzt í nýa farvegu og vatnsból þorrið. En ekki er því til að dreifa alls staðar, þar sem vatnsból eru léleg eða sækja þarf vatn um langa vegu.
Þegar Reykjavík byggðist, var þar ekkert nothæft drykkjarvatn nema í uppsprettulindunum vestan tjarnarinnar er seinna voru kenndar við Brunnhús. Í læknum var ekki drykkjarhæft vatn, vegna þess að sjór gekk upp eftir honum með hverju flóði inn í tjörn. Og af sömu orsökum mun vatnið í Tjörninni hafa verið óhæft til drykkjar. En vegna þess, að langt hefir þótt að sækja vatn í uppspretturnar suður með tjörn, hefir verið grafinn brunnur örskammt frá bænum. Kallar Skúli Magnússon hann Ingólfsbrunn og segir hann kenndan við landnámsmanninn og gefur þannig í skyn að brunnur þessi hafi verið frá landnámstíð. Má og vera að menn hafi fljótlega neyðst til að gera þennan brunn, vegna þess að ekki hafi verið hægt að ná í uppsprettuvatnið þegar mikið var í tjörninni. En hvað sem um það er, þá var þessi brunnur aðalvatnsból Reykvíkinga þangað til vatnsveitan kom.
Guðmundur biskup andaðist á Hólum 16. marz 1237. Sá dagur er enn messudagur hans í almanakinu og heitir Gvendardagur. Alþýða manna taldi biskup sannheilagan, en ekki fékkst hann tekinn í tölu dýrlinga, fremur en aðrir íslenzkir menn, þótt reynt væri að fá páfa til þess. En samt sem áður var hann helgur maður í augum íslenzkrar alþýðu fram yfir siðaskipti, og átrúnaður á vígslur hans, bjargvígslur og vatnsvígslur, hefir haldist sums staðar fram að þessu. Munu þess finnast dæmi að „Guðmundarvatn“ hefir verið haft til lækninga með góðum árangri allt fram á þessa öld.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 4. apríl 1965, bls. 1 og 14.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.