Háaleitisdraugurinn I

Háaleiti

„Að undanförnu hefur Háaleiti á Miðnesi oft borið á góma og varðan Kalka, sem þar stóð.
Hafa komið fram ýmsar sagnir í sambandi haaleiti-231við það, en hjer kemur ein, sem ekki hefur verið minst á og mun fáum kunn. Er hún tekin eftir frásögn Stefáns Filippussonar, en hann hefur hana eftir ömmu sinni, Þórunni Sigurðardóttur frá Steig.
Þegar Gísli Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu og Þórunn Sigurðardóttir frá Steig bjuggu á Býarskerjum á Suðurnesjum, tóku sig til tveir menn að grafa í Háaleitisþúfu, því að almannarómur var, að þar væri fjársjóður fólginn. — Gengu og þær sögur, að þangað sæi stundum eld, og ekki þótti fýsilegt að vera þar einn á ferð í myrkri vegna reimleika. — Annar þessara manna var úr Höfnum, en hinn úr Keflavík. Sagt er að þeir hafi fundið í þúfunni kút með peningum. En áður en þeir kæmist á brott með kútinn kom að þeim draugur og rjeðist á þá. Varð þar harður aðgangur, en Keflvíkingurinn komst þó undan með kútinn meðan Hafnamaður var að glíma við draugsa. Leikar fóru svo að Hafnamaður komst úr klóm afturgöngunnar, en þá á hún að hafa sagt: „Jeg skal hitta þig þótt seinna verði.“
Leið nú og beið. En eitt sinn var þessi maður staddur í Keflavík, og ætlaði heim til sín suður í Hafnir undir kvöld. Var orðið dimmt af nótt áður en hann komst á stað, en nokkurt tunglsljós. Kunningi hans bauðst þá til að fvlgja honum suður á heiðina. Lögðu þeir svo á stað, en ekki höfðu þeir langt gengið er Hafnamaður sagði:
bolafotur-234„Nú þarftu ekki að fylgja mjer lengra. Jeg sje að maður er hjer á undan okkur. Mun jeg ná honum og fæ þá samfylgd.“ Við þetta skildu þeir og fór Keflvíkingurinn heim til sín. En nokkuru seinna þetta sama kvöld voru drengir tveir frá Bolafæti í Ytri-Njarðvíkum sendir til að reka fje upp úr fjöru. Heyra þeir þá neyðaróp og að einhver biður guð ákaft að hjálpa sjer. Þetta heyrðu þeir hvað eftir annað. Urðu þeir þá hræddir og flýttu sjer heim, en þorðu ekki að segja frá þessu, því að þeir óttuðust að þeir yrðu þá sendir til að grenslast um þetta.
Þessa sömu nótt var Erlingur Benediktsson, hálfbróðir mömmu og stjúpsonur Gísla á Býjaskerjum, sendur til Reykjavíkur eltir meðulum. Var hann kominn inn fyrir Keflavik áður en dagur rann. Gekk hann þar með sjónum, því að þar var betri færð. Á leið hans varð síki eða grafningur, sem hann stökk yfir. En um leið og hann stekkur sjer hann að maður liggur þar í niðri. Erlingur dró hann þá upp úr og var maðurinn steindauður og allur rifinn og kraminn. — Lagði Erlingur líkið til og breiddi klút sinn yfir andlitið. Fór hann svo til næsta bæjar og sagði hvað hann hefði fundið.

baejarsker-231

Helt hann svo áfram för sinni til Reykjavíkur. En líkið, sem hann fann þarna, var af Hafnamanninum. Var það mál manna að Háaleitis-draugurinn hefði vilt um fyrir honum og elt hann þarna niður að sjó og drepið hann þar til að launa fyrir peningaránið.
Nú er að segja frá Erlingi að næstu nótt í sama mund kemur hann á heimleið að þessum stað. Var þá draugsi þar fyrir. En vegna þess að Erlingur var ramskygn gat draugurinn ekki vilt um fyrir honum, en elti hann fram á bjartan dag. Og upp frá þessu sótti draugurinn jafnan að Erlingi þegar skyggja tók. Sagði hann þá móður sinni frá þessu, þótt ekki væri vandi hans að segja mönnum frá því, sem fyrir hann bar. Þórunn amma mín sagði þá:
„Jeg skal láta þig fá tvo silfurhnappa, sem jeg á. Með þeim skaltu hlaða byssu þína. Og þegar dimmt er orðið skaltu fara út, og þar sem draugurinn getur ekki dulist fyrir þjer, skaltu skjóta á hann silfurhnöppunum og sjá hvernig fer.“
Erlingur var góð skytta og hafði margan sel skotið á Býaskerjum. Fór hann nú að ráðum móður sinnar og hlóð byssuna með silfurhnöppunum.
Var þess þá skammt að bíða að hann hitti draugsa og skaut á hann. En við það brá svo að kalka-243draugurinn hvarf og varð Erlingur hans aldrei var framar.“

Í örnefnaskrá frá Keflavík segir um vörðuna á Háaleiti: „Það voru til ýms örnefni hérna í heiðinni, nálægt þar sem Flugturninn er, þar var kallað Háaleiti og Ameríkanarnir þýddu þetta á sitt tungumál og kölluðu það High Lady, en þar var varða í gamla daga, sem kölluð var Kalka, hún var hvít á litinn. Hennar er getið í þjóðsögum, því þar voru peningar grafnir, m.a., og þar sáu menn loga og loga, þar sem peningarnir voru. Þegar að var komið, þá var allt slokknað“.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 12. júní 1949, bls. 290.
-Örnefnaskrá Keflavík. Viðtal við Þorgrím Eyjólfsson um örnefni og fleira í Keflavík og nágrenni. Flutt 4. ágúst 1978.

Háaleiti

Háaleiti – Áki Granz.