Hafnir – skilti

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um „Hafnir og kirkjur í Höfnum„. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir„Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.“

Hafnir

Hafnir – skilti.