Hafnavegur

Hin forna þjóðleið milli Rosmhvalaness (Keflavíkur) og Hafna lá um Hafnaveg. Enn í dag má sjá götuna þar sem hún liggur frá Höfnum austan þorpsins neðan við eyðibýlið Teig, út með Ósabotnum, um Bringur áleiðis upp í Ketilsbrekku og að varnargirðingunni. Innan hennar voru gerðir sorphaugar svo gatan hverfur þarna undir þá.
HafnavegurHafnavegur er mjög greinilegur. Kastað hefur verið upp úr götunni svo hún sést vel þar sem hún liðast upp lágheiðina (Bringurnar). Nokkrar heilar vörður (sennilega endurhlaðnar) eru við götuna og auk þeirra má víða sjá fallnar vörður. Herkampur, Camp Hopkins, var settur yfir götuna á kafla. Má enn sjá ummerki eftir mannvirkin.
Tvær vörður hafa nýlega verið hlaðnar á kampssvæðinu. Á þær eru fest upplýsingaspjöld um tilkomu Bandaríkjahers hér á landi 1941 er þeir tóku við af breska hernámsliðinu. Ýmsir kampar voru vítt og breitt um Suð-Vesturland. Í fyrstu var búið í skálum Bretanna. Bandaríkjamenn reistu síðan aðra tegund af bröggum, Nissen-bragga, sem þóttu bæði reisulegri og betri mannabústaðir.
Um Ketilsbrekku segir m.a. í gamalli þjóðsögu: “Eitt sumar var Ketill í Kotvogi á heimleið frá Keflavík. Hann hvíldi sig í brekku einni á Hafnaheiði, sem kölluð er Ketilsbrekka. Þar hafði hann skamma viðdvöl en lagði síðan af stað aftur.
Skömmu áður en að hann kom að Þrívörðum á miðri heiðinni, sá hann stúlku koma gangandi móti sér sunnan að. Honum varð nokkuð starsýnt á stúlkuna, af því að búnaður hennar allur og fas var með nokkurum öðrum hætti en þá tíðkaðist. Litla tágakörfu hafði hún í hendi, fulla af margvíslega litum, skrautlegum blómum. Stúlka þessi var svo grönn í vexti að það vakti sérstaka athygli Ketils. Er hún varð Ketils vör virtist koma á hana hik og ókyrrð nokkur. Hún hélt þó áfram eftir veginum þar til á að giska 30 metrar voru á milli þeirra. Þá nam hún skyndilega staðar og blíndi á hann, en vék síðan af vegi og gekk á svig við hann svo að alltaf var jafn langt á milli.

Hafnavegur

Katli fannst kona þessi undarleg mjög og þegar hún vék úr vegi kallaði hann til hennar og heilsaði henni. Ekki svaraði hún einu orði, en hélt áfram að stara unz hún var komin jafn langt aftur fyrir og hún hafði verið fyrir framan hann er hún fór út af veginum. Gekk hún þá aftur inn á götuna og hélt áfram austur eftir henni. Alltaf horfðumst þau í augu, en eftir að hún kom á þjóðveginn aftur virtist hún ekki hafa eins mikinn beyg honum. Þó leit hún oft um öxl. Ketill reyndi ekki frekara að ná tali af henni eða grennslast eftir hver hún væri. En ekki kannaðist hann við hana úr nærsveitunum því að þar þekkti hann hvert mannsbarn.”
Á leiðinni frá Höfnum er farið fyrir ofan Stekkjarnes og framhjá Hunangshellu. Um hana segir ein þjóðsagan: “Finngálkn er það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.

Hunangshella

Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.”
Ofar, ofan núverandi þjóðvegs, eru Þríhólar og Strokkhóll vestar. Í honum eru álfar eða huldufólk sagt búa. Hæðin norðar, þaðan sem fyrst sést að Höfnum er núverandi þjóðvegur er ekinn, heitir Þrívörðuhæð – Þrívörður skv. örnefnalýsingu fyrir Hafnir.

Heimild m.a.:
-Rauðskinna I 4, Þjóðsagnabókin I 30.
-Jón Árnason I 611.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir.

Fallin varða