Halakotsbáturinn
Í Víkurfréttum 1998 segir af „Aldargömlum báti endurbyggðum„. Um er að ræða svonefndan „Halakotsbát„, sem allt og fáar sagnir eru til um – en er þó samt sem áður enn til:
Ragnar Ágústsson í Halakoti á Vatnsleysuströnd hefur látið endurbyggja nær aldargamlan bát og hefur komið honum fyrir á túninu við heimili sitt. Báturinn, tveggja manna far, var smíðaður árið 1902 af Guðmundi Jónssyni bátasmið og er báturinn með sunnulenska laginu. Guðmundur var mikill hagleikssmiður og segir Ragnar að báturinn sé mjög vandaður. Báturinn var gerður út frá Halakoti. Honum var róið á haustin en einnig á gráslepputímanum. Gert var að fisknum á klöppunum í fjörunni og hann saltaður í húsi í fjörukambinum. Stærri bátar voru síðan á sjálfri vertíðinni.
Ragnar sagði að þessi bátur hafi verið mikið notaður í ferðir frá Halakoti á Vatnsleysuströnd til Hafnarfjarðar, þar sem að í þá daga hafi ekki verið kominn vegur frá Hafnarfirði til Keflavíkur og samgöngur á sjó því verið fljótlegri en að fara á hestum yfir hraunið.
Í sjóhúsinu eru bæði Halakotsbáturinn og Kálfatjarnarbáturinn, sem er í eigu Minjafélags Vatnsleysustrandarhrepps.
Heimild:
-Víkurfréttir, 26. tbl. 02.07.1998, Aladargamall bátur endurbyggður, bls. 4.












