Hallgrímshellan – leit

Hallgrímshella

Í ferð FERLIRs um Básenda nýlega kom fram í viðræðum við Jón Ben Guðjónsson, bónda á Stafnesi, að hann myndi vel eftir Hallgrímshellunni svonefndu, sem var fyrrum á eða við svonefnda Prestsklöpp norðan við Þórshöfn.

Presthóll

Presthóll – loftmynd.

„Ég man vel eftir þessari hellu. Hún var við vörðu á Prestsklöppinni þar sem prestar, og þar á meðal sr. Hallgrímur Pétursson, var sagður hafa beðið sjófars yfir Ósana til að geta þjónustað Hafnafólkið. Hella þessi var þríhyrningslöguð, ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið. Áletrunin HPS var í hellunni og ógreinilegt ártal; 163?. Tilgreindur lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli gæti vitað eitthvað hvað varð um helluna, en hann var kunnugur á þessum slóðum. Það eru liðin a.m.k. 30 ár síðan ég sá helluna síðast. Mig grunar að hellan hafi komist inn í geymslur Þjóðminjasafnsins og „týnst“ þar.“

Hallgrímshella

Hallgrímshellan á vettvangi 1964.

Það kom fram hjá Jóni Ben að sennilega ætti Jón Ásmundsson í Sandgerði gamla ljósmynd af Hallgrímshellu, sem hann mun hafa tekið fyrir ca. 40 árum.
Eftirfarandi erindi var sent til Sigurbjörns Hallssonar, lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli:
„Við félagarnir höfum um nokkurt skeið leitað svonefndrar „Hallgrímshellu“, sem var á Prestsklöpp milli Þórshafnar og Básenda. Hellan, sem var þríhyrningslaga og ekki stærri en svo að hægt var að taka hana í fangið, var með áletruninni HPS (Hallgrímur Pétursson). Steinn þessi var lengi í vörðu á klöppinni. Hún sást síðast fyrir u.þ.b. 15 árum. Ljósmynd er til af hellunni, auk þess sem Stafnesbændur vissu af henni þarna. Getur verið að þú vitir eitthvað hvað varð um nefnda hellu?“

Kaupstaðagata

Kaupsstaðagatan norðan Ósa.

Sigurbjörn hafði þegar samband og sagðist vel muna eftir þessari hellu. Hún hefði verið stutt frá gömlu hestagötunni, legið þar. Á helluna hafi verið áletrað HPS og óljóst ártal frá 17. öld. Sjálfur hefði hann ekki séð helluna í fjölda ára, en hefði heyrt að einhver hefði tekið hana til handargagns. Sigurbjörn benti á að hugsanlega gæti Arnbjörn Eiríksson á Nýlendu III við Stafnes vitað hver það hefði verið.
Arnbjörn sagðist aðspurður vel muna eftir Hallgrímshellunni. Hana hefði hann hins vegar ekki séð í ein 20 ár. Hann hefði heyrt að einhver hefði tekið hana og komið henni fyrir á einhverju safni. Hver það var vissi hann ekki og ekki heldur á hvaða safn henni hefði verið fyrir komið. Að hans mati hefði hellan átt að vera þarna áfram, eða þá í Hvalsneskirkju því það hafi verið trú manna að áletrunin tengdist sr. Hallgrími Péturssyni og ferðum hans milli Hvalsness, Hafna og Njarðvíkur.
Þjóðminjasafni Íslands var sent samhljóða fyrirspurn og Sigurbirni með viðbótinni: „Getur verið að hún hafi ratað inn í geymslur Þjóðminjasafnsins?“

Hallgrímshella

Stafnbúar og Berent 1964 við Ósa.

Í framhaldi af fyrirspurninni var hringt í forstöðumann „gripadeildar“ þess, Lilju Árnadóttur, en að sögn veit hún manna best hvort og hvar hver gripur er í geymslunum. Lilja brást vel við. Hún sagðist reyndar hvorki hafa séð né heyrt af hellunni, en myndi leita og spyrjast fyrir um hana. Síðan myndi hún hafa samband.
Í millitíðinni var haft samband við Reyni Sveinsson í Sandgerði. Hann kannaðist við Hallgrímshelluna, en ekki hvar hún gæti verið niður kominn. Hann gat þó vísað á Jón Ásmundsson, múrararameistara í Sandgerði. Jón Borgarsson í Höfnum gæti hugsanlega vitað eitthvað um helluna því hann hefði m.a. unnið þarna um tíma. Jón var staddur út í Luxemborg. Hann sagðist hafa unnið þarna um tíma, en aldrei séð þessa hellu. Hins vegar hefði hann séð báða festarkengina við Þórshöfn – þar sitt hvoru megin. Þá þyrfti að skoða nánar. Auk þess væri nokkurt brak úr Jamestown þar nálægt.

Berent Sveinbjörnsson

Berent Sveinbjörnsson.

Aðspurður sagðist Jón ekki hafa tekið nefnda ljósmynd, en hann hefði verið með félaga sínum, Berent Sveinbjörnssyni, við Stafnes árið 1963 eða ’64 og þá hefði Berent tekið mynd af hellunni.
Berent, sem er búsettur í Hafnarfirði, sagðist eiga myndina og hefði reyndar verið að skoða hana og sýna kunningja sínum fyrir nokkrum dögum. Hann skyldi góðfúslega lána hana í þágu leitarinnar að endurheimtingu hellunnar. Berent sagðist muna vel eftir hellunni. Á henni hafi verið áletrun sem fyrr hefur verið lýst. kömmu síðar kom Berent færandi hendi, með myndina ásamt mynd af skátaflokknum Stafnbúum, sem var á leið þar umrætt sinn, en þá var myndin tekin, í ágústmánuði 1964. Berent kvaðst muna að hellan hafi legið uppi á á öðrum steinum svo til beint fyrir neðan stóru skermana utan við Stafnes (sem nú er búið að rífa).
Lilja hjá Þjóðminjasafninu hafði samband og viti menn – og konur; hellan er í vörslu safnsins. Lilja kvað „umrædda hellu vera í safninu. Var bara spurning um að setjast niður í ró og fletta í Sarpi. Hún hefur númer 1974 -120.

Hallgrímshellan

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

„Þungur steinn aflangur sem í er klappað stöfunum HPS og beint þar fyrir aftan er klappað ártalið 1628. Steinn þessi var rétt vestan við Þórshöfn norðan Ósabotna, fast við gamla veginn. Menn hafa viljað halda, að Hallgrímur Pétursson hafi klappað þarna fangamark sitt, en hann kom ekki að Hvalsnesi fyrr en 1644 og er aðeins 14 ára árið 1628.““

Lilja kvaðst myndi staðsetja steininn í safninu og hafa síðan samband. Á ljósmyndinni virðist vera skrifað ártalið 163? svo gaumgæfa þarf þetta nánar, gæti verið 1638, en þá var Hallgrímur 24 ára.

Hallgrímshella

Hallgrímshellan skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins.