Hafurbjarnastaðir

Kristján Eldjárn ritaði tólf minjaþætti í “Stakir steinar“, sem gefin var úr árið 1956.
Einn þátturinn ber yfirskriftina “Smásaga um tvær nælur – og þrjár þó”. Í honum er m.a. lýst staðsetningu á kumlum þeim sem fundust við Hafurbjarnarstaði á Rosmhvalanesi og hafa að hluta verið til sýnis undir gleri í gólfi II. hæðar á meginsýningu Þjóðminjasafnsins frá 1. september 2004, en þá var hin nýja grunnsýning opnuð í safninu um menningu og sögu á Íslandi í 1200 ár. Greinin fjallar þó aðallega um þríblaða nælu, sem fannst á einu kumlanna.
Í bók sinni “Kuml og haugfé úr heiðnum sið á Íslandi”, bls. 94 (2000 útgáfunni), segir Kristján frá fundinum við Hafurbjarnarstaði:

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – loftmynd.

“Um þennan merka fornleifafund hef ég áður ritað rækilega (Árbók 1943-48, bls. 108 o.áfr.) og reyni því að vera mjög stuttorður hér. Kumlateigurinn var í fjörufoksandi miklum, rétt norðan við túnið á Hafurbjarnarstöðum. Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum, hermir að uppblásin bein úr kumlunum hafi verið færð í kirkjugarð þar um 1828. “Þar fannst og silfurhringur með gömlu verki líkt og á mörgum steyptum beltispörum.”
Veturinn 1868 blés kumlin en meira, og gerði þá Ólafur bóndi Sveinsson skýrslu til Forngripasafnsins um það sem í ljós kom. Síðan hafa bein fundist þarna öðru hverju, en rækilega eftirlit gerðum við Jón Steffensen á staðnum 1947.”

Þjóðminjasafn

Beinagrind í Þjóðminjasafninu – fannst við Hafurbjarnastaði.

Við leit fundust 9 kuml. Haugfé fannst aðallega í þremur þeirra. Þríblaðanælan fannst í því fyrsta. Það kuml var “rétt innan við Skagagarðinn mikla sem gengur í sjó framhjá Hafurbjarnarstöðum”.
Auk nælunnar fannst í kumlinu hringprjón, hnífur, kambur, tveir einkennilegir steinar, þrjár stórar kúskeljar og járnmolar. Sverð af S-gerð, spjót, skjaldarbóla. kambur, öxi af K-gerð, járnketill og heinbrýni er bæmi um haugfé í þriðja kumlinu. Af þessu má sjá að kona hefur verið í því fyrrnefnda, en karl í því síðarnefnda.
“Kumlateigurinn á Hafurbjarnarstöðum er með honum merkustu sem fundist hefur hér á landi, þrátt fyrir eyðilegginguna sem á honum hefur orðið af völdum náttúrunnar.”
Í “Stakir steinar” segir Kristján m.a.: Rétt hjá bænum [Hafurbjarnarstöðum] liggur hinn miklu Skagagarður, sem eitt sinn girti af skagatána og skaðinn dregur nafn af nú. Öll strandlengjan er þarna kafin ljósum skeljasandi, sem fýkur til og frá og veldur spjöllum á breiðu belti.

Þjóðminjasafn

Bein og munir í Þjóðminjasafni frá Hafurbjarnastöðum

Snemma á 19. öld eða fyrr fór fornan kumlateig að blása upp úr sandinum rétt innan við garðinn, norður af bæ á Hafurbjarnarstöðum. Héldu menn, að þarna væru fundin bein Kristján skrifara og hans fylgjara, sem Norðlendingar drápu á Kirkjubóli 1551 í hefnda skyni fyrir aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans. Í útsynningsveðrum veturinn 1868 ágerðist þessi uppblástur stórkostlega og beraði margar grafir…
Kumlateigurinn gæti verið ættargrafreitur Hafur-Bjarnar Molda-Gnúpssonar, sem frá er sagt í Landnámu. Hafurbjarnarstaðir eru líklega kenndir við hann. Molda-Gnúpur faðir hans nam fyrst land í Álftaveri, en settist síðar að í Grindavík.
Merkasti gripur baugfjárins er bonsnælan. Hún er í lögun sem þrjár geilsastæðar tungur, alþekkt lag á norrænum skrautnælum frá víkingaöld eða söguöld… Þríblaðanælur þekkjast hundruðum ef ekki þúsundum saman meðal norrænna forngripa frá 9. öld og þó einkum 10. öld. Augljóst er, að konur þeirra tíma hafa haft þær í hávegum og málmsmiðir drjúga atvinnu af smíði þeirra.

Hafurbjarnastaðir

Mundir frá Hafurbjarnastöðum.

Á Þjóðminjasafninu eru varðveittar níu þríblaðanælur, sem fundizt hafa hér á landi, skreyttar ýmsu flúri. Landnámskonur þær, sem nokkurs voru megandi, hafa margar hverjar orið þríblaðanælur í kyrtli sínum. Á 10. öld hafa íslenskar konur áreiðanlega lagt metnað sinn í að eignast slíka gripi, er svo mjög voru í tízku í grannlöndunum. En í lok þeirrar aldar eða um það leyti sem land kristnaðist, hefur skeið þeirraverið runnið, þær hafa ekki verið í tízku fram yfir aldamótin 1000. Allar íslenskar þríðblaðanælur mega því kallast frá 10. öld.”
Svipuð næla fannst við Hól í Útmannasveit. Lengri geta vegalengdir ekki verið millum staða hér á landi. Enn önnur fannst í uppgrefti í Hjaltlandi, sem gæti sagt nokkuð til um upprunann.

Hafurbjarnastaðir

Hafurbjarnastaðir – merki um friðlýsar minjar.

Kumlteigurinn sést enn norðan við Hafurbjarnarstaði. En lítið virðist hafa verið gert af því að leita bænahúss eða kirkju í nálægð við hann. Forvitnilegar tóftir, jarðlægar, má greina sunnan og suðaustan við hann. Einnig fornt garðlag skammt norðar og suðvestar. Áhugavert væri að skoða þessar minjar með hliðsjón af kumlteigunum fyrrum, en fjöldi þeirra benda til að ekki hafi verið um einstaka gröf eða grafir að ræða, heldur skipulegt grafsvæði – og þá væntanlega með tilheyrandi mannvirkjum. Fleiri kuml gætu verið á svæðinu en þau sem blésu upp á sínum tíma. Þau gætu varpað skærara ljósi á aldur kumlasvæðisins í heild.
Þar sem Þjóðminjasafnið telur sig mikils af njótandi Hafurbjarnarkumlanna gólfumlögðu mætti telja bæði eðlilegt og sjálfsagt að upprunalegum vettvangi þeirra væri meiri gaumur gefinn en raun ber vitni – t.d. með skipulegum rannsóknum.

Heimild:
-Kristján Eldjárn – Stakir steinar – Tólf minjaþættir, 1956, bls. 28-34.
-Kristján Eldjárn – Kuml og haugfé – úr heiðnum sið á Íslandi – 2000, bls. 94-98 og 277-78 og 366-7.

Húsfreyjan