Háuhnúkar á Undirhlíðum
Háuhnúkar eru efstu móbergshæðir Undirhlíða. Undirhlíðar eru framhald á Sveifluhálsi til norðurs, norðan Vatnsskarðs.
Sveifluháls eða Austurháls er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Sunnan og austan í hálsinum er mikill jarðhiti. Það hverasvæði er kennt við Krýsuvík. Hæstu tindar á Sveifluhálsi eru Hellutindar (364 m.), Stapatindar (395 m.) og Miðdegishnúkar. Sveifluháls (Austurháls) er 395 m hár móbergshryggur í Reykjanesfjallgarði, vestan við Kleifarvatn. Brattir hamrar eru niður að Kleifarvatni. Efst á hálsinum miðjum er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).
Á Sveifluhálsi er móbergið megin bergtegundin. það verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun.
Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vesturhluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.
Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum, bæði frá mismunandi ísaldaskeiðum og nútíma.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttumiklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.
Undirhlíðarnar eru af að mörgu leyti af sama meiði og Sveifluháls. Þó er sá stigsmunur á þessum samfellda ási að í Undirhlíðum er grágrýti og brotaberg meira áberandi samhliða móbergsásunum, s.s. Háuhnúkum. Grágrýtisberggangar, uppsprettur hraunanna, eru þar víða áberandi og má segja að einn tilkomumesta bergganginn megi berja augum efst á hnúkunum.
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“ segir: „Þá eru Undirhlíðarnar. Norðan við Vatnsskarð rís upp allhár hnúkur, sem heitir Háuhnúkar. Þetta er móberg, en upp úr því kemur eins og garður. Nokkuð norðar, vestan undir hlíðunum, er allmikill hvammur, sem heitir Stóri-Skógarhvammur, vestur af Slysadölum. Þá lækka hlíðarnar, og þar norður af er önnur hæð, sem heitir Gvendarselshæð.“ Í örnefnalýsingunni er ekki getið um Móskarðshnúka, sem bendir til þess að örnefnið sé tiltölulega ný til komið.
Í skrá um „Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði“, segir: „Inn með Lönguhlíð að vestan eru Undirhlíðar. Austan í þeim er Leirdalur,
Breiðdalur og Slysadalur. Austan við Leirdal er Leirdalshöfði. Uppi á Undirhlíðum er Gvendarsel og Háuhnúkar.“
Háuhnúkar, móbergsstaparnir, eru hæstu ásar Undirhlíða suðvestan Markrakagils og skammt frá Vatnsskarði, allt að 263 metra háir sem fyrr segir. Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Þegar móbergið sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast það auðveldlega. Vindur og vatn eru mikilvægir þættir veðrunar. Glögg ummerki þessa má glögglega sjá hér í Háuhnúkum.
Þarna er um er að ræða mótun landsins, allt frá því um a.m.k. ellefu þúsund árum, þegar eldgos voru tíð undir jökli á síðasta ísaldarskeiði.
Auðvelt er að ganga að Háuhnúkum frá Bláfjallavegi ofan við aflagða malarnámuna, upp á hæðina sunnanverða og fylgja henni og nöfnum hennar að hnúkunum.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um „Garða – Garðakirkjuland“.
-Örnefni í óbyggðinni suður og inn frá Hafnarfirði – Þorsteinn Bjarnason.


















