Heiðmörk – Vífilstaðafjárborg
Mikil leit hefur verið gerð að Vífilstaðafjárborginni. Misvísandi upplýsingar hafa verið um staðsetningu hennar og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En nú er hún fundin – á ólíklegasta stað.
Um er að ræða hlaðnar tvískiptar tóftir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóttin, sú stærri, liggur frá til norðurs. Garðar eru fyrir suðugafli, en dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn. Austan við húsin er falleg, stór, hringlaga tótt, augljóslega fjárborg. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá.
Gengið var til vesturs frá borginni, um Hraunflatirnar og yfir í kant Urriðakotshrauns. Þar uppi í kantinum er fallega hlaðið og heillegt beitarhús frá Urriðakoti. Frá því gekk Guðmundur, bóndi á Urriðakoti, með hey á bakinu austur yfir hraunið og í sauðahelli, sem þar er í austurjaðri þess undir Vífilstaðahlíð, neðan Ljósukollulágar. Fyrir hellinum eru V-laga hleðslur.
Gengið var sömu leið og Guðmundur forðum, eða á fyrsta fjórðungi síðustu aldar, yfir að hellinum og hann barinn augum.
Gangan tók um ½ klst, en leitin að fjárborginni tók eina klst.
Veður var frábært – milt og hlýtt.