Heimildir – Byggðalagasaga – Reykanesskagi vestanverður
Eftirfarandi er yfirlit yfir sögu einstakra byggðalaga á Reykjanesskaganum vestanverðum:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesnesið okkar. Kaflar úr sögu Bessastaðahrepps. Bessastaðahreppur 1998. 48 bls.
Þetta er kennsluefni í samfélagsfræði fyrir nemendur Álftanesskóla og er að nokkru stuðst við efni bókarinnar Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Efnið nær frá landnámi til loka 20. aldar.
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftanesssaga. Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. Reykjavík 1996. 311 bls.
Ritið skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti nefnist „Frá landnámi til 1800. Kotin og kóngsmennirnir“.
Þar er m.a. lýsing Bessastaðahrepps, fjallað um landnám og fyrstu aldirnar, Lénharð fógeta, hvalreka, Bessastaðakirkju, skipskaða og ofviðri og hinstu ferð Appolloníu Swartzkopf. Auk þess eru fjórir undirkaflar sem skiptast á einstakar aldir, þá fimmtándu, sextándu, sautjándu og átjándu. Annar meginhluti kallast „Nítjánda öldin. Blómaskeið sjósóknar á Álftanesi“. Þar er m.a. fjallað um mannlíf á Álftanesi í upphafi aldarinnar, aldarfar og afkomu, skiptingu hreppsins, menntun og menningu, sjósókn og landbúnað. Þriðji meginhluti nefnist „Tuttugasta öldin. Búskapur og upphaf þéttbýlis“. Rætt er m.a um íbúaþróun, samgöngur, búskap, sjósókn og fiskvinnslu, landþurrkun og sjávarvarnir, veitumál, framfærslumál, skipulag, félagsstarfsemi og listir og atvinnulíf almennt.
-Ásgeir Guðmundsson: Saga Hafnarfjarðar 1908-1983 I-III. Hafnarfjörður 1983-1984. 446 bls., 446 bls., 557 bls.
Verkið er efnisskipt:
Í fyrsta bindi er einkum fjallað um stjórnmál, skipulagsmál, fjármál, höfnina og atvinnumál almennt.
Í öðru bindi er rætt um veitustofnanir, slökkvilið og löggæslu, skóla- og íþróttamál, heilbrigðismál og kirkjumál.
Í þriðja bindi er sjónum beint að stéttarfélögum, félagsstarfsemi, menningarmálum, félags- og æskulýðsstarfsemi, húsnæðismálum, verslun og viðskiptum, vegamálum og samgöngum og loks er hugað að fáeinum bæjarstofnunum. Í ritinu er einnig æviágrip bæjarfulltrúa og bæjarstjóra.
–Bessastaðahreppur í hundrað og tuttugu ár. Afmælisrit. Umsjón með útgáfu Soffía Sæmundsdóttir. [Bessastaðahreppur] 1998. 36 bls.
Í ritinu er einkum að finna stuttar frásagnir af skólamálum, kirkjustarfi, kórstarfi og félagslífi.
Einnig eru ávörp og viðtöl við yngri og eldri íbúa Bessastaðahrepps.
-Bjarni Guðmarsson: Saga Keflavíkur I-III. Keflavík 1992, 1997, 1999. 302 bls., 371 bls., 448 bls.
Fyrsta bindið tekur til tímabilsins 1766-1890. Greint er frá upphafi þéttbýlis en meginhluti ritsins fjallar um verslun og sjávarútveg á ýmsum tímum, en jafnframt er rætt um íbúa og atvinnuhópa, alþýðuhagi og lífið í þorpinu sem og bjargræði af landi.
Annað bindið fjallar um tímann 1890-1920 og skiptist í sautján ólíka kafla. Rætt er um strandsiglingar og vegasamband, umhverfi og bæjarland, fólksfjölgun og húsbyggingar, heimilishald, kaup og kjör launafólks, útgerð og fiskiskip, verslun og viðskipti, heilbrigðismál, trú og kirkju, skólahald, bindindismál, félagslíf og menningarstarf, sveitarstjórn og lífið í Keflavík í fyrri heimsstyrjöldinni.
Þriðja bindið nær yfir tímabilið 1920 til 1949 og skiptist í 23 meginkafla og hefur hver og einn að geyma nokkra undirkafla. Rætt er um íbúaþróun, rafmagnsmál, vatnsveitu, samgöngur og fólksflutninga, útgerð og fiskveiðar, áhrif kreppunnar í Keflavík, verkalýðsmál, bryggjur og hafnarmannvirki, iðnað, verslun, skipulag og húsbyggingar, vöxt þéttbýlisins, lög og reglu, símamál, samkomuhald, félags- og menningarlíf, íþróttir, félagsmál, heilbrigði og velferð, skólastarf, áhrif seinna stríðs og breytingar á sveitarfélaginu.
-Heimir Þorleifsson: Seltirningabók. Seltjarnarnes 1991. 320 bls.
Bókin skiptist í sex meginhluta og spannar að mestu tímann frá því um 1800 til 1991. Hver meginhluti skiptist í fjölda undirkafla, en aðallega er fjallað um hreppinn og stjórnsýslu, jarðir og ábúendur á Framnesi, útgerð, Mýrarhúsaskóla, Framfarafélagið og annað félagsstarf og loks kirkjuna í Nesi.
-Jón Þ. Þór: Gerðahreppur 90 ára. 13. júní 1908-1998. Gerðahreppur 1998. 293 bls.
Ritið skiptist í níu meginhluta og er hver þeirra yfirleitt með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt. Síðan tekur við kafli þar sem er m.a. fjallað um landnám, mannfjölda í Garðinum fyrir 1908 og eignarhald á jörðum í Garði og Leiru. Því næst er rætt um Garðinn sem verstöð. Stofnun Gerðahrepps er því næst gerð að umtalsefni og þar næst fjallað um starfsemi í Gerðahreppi á árunum 1908 til 1939, mannfjölda þar og byggðaþróun, sjávarútveg, verslun, kirkju og skóla. Þá er kafli um málefni hreppsins á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Því næst er greint frá vaxtarskeiði og velmegun á árunum 1946 til 1998 og m.a. rætt um mannfjölda, sveitarstjórn, veitustofnanir, skipulag, hafnarmál, skólamál og samstarf við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Að því búnu er kafli um atvinnulíf og loks er kafli um félagslíf.
-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800. Grindavík 1994. 282 bls.
Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur. Frá 1800 til 1974. Grindavík 1996. 386 bls.
Fyrri bókin greinist í tíu meginhluta og eru flestir með nokkrum undirköflum. Í upphafi er sögusviðið kynnt og sagt frá örnefnum. Því næst er fjallað um landnám í Grindavík og upphaf byggðar. Þá eru kaflar um mannfjölda, bólstaði og búendur og búskapar- og lífshætti í Grindavík fyrir 1800. Næst er fjallað um sjávarútveg, síðan tengsl Grindavíkurjarða og Skálholtsstóls og þar á eftir um verslun. Loks eru kaflar um Tyrkjaránið 1627 og sölu stóls- og konungseigna.
Seinni bókin skiptist í níu meginhluta og eru flestir með fjölda undirkafla. Greint er frá Grindavík á öndverðri 19. öld og fólkinu þar árið 1801 í fyrsta hluta. Í öðrum hluta er fjallað um mannfjölda í Grindavíkurhreppi 1801-1974. Því næst er rætt um hverfabyggð og þorpsmyndun. Fjórði meginhluti tekur til sveitarstjórnar. Sá fimmti fjallar um atvinnuvegi almennt og sá sjötti hefur að geyma þætti úr verslunarsögu. Í sjöunda meginhluta er rætt um menningar- og félagsmál en í þeim áttunda um skólamál. Loks er fjallað um kirkju og trúmál.
-Kristján Sveinsson: Saga Njarðvíkur. Reykjavík 1996. 504 bls.
Ritið skiptist í sautján meginhluta og hefur hver hluti nokkra undirkafla. Rætt er um umhverfi, staðfræði og náttúrufar; landnám og fyrstu þekkta byggð; búsetu og hagi á fyrri öldum, fram um 1700; íbúa Njarðvíkur og afkomu þeirra á 18. öld; atvinnuhætti og byggðarþróun á 19. öld; menntunar-, félags- og heilbrigðismál á 19. öld; ómagaframfæri, efnahag sveitarsjóðsins og þróun fólksfjölda í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld; Njarðvíkurhrepp 1889-1908; Njarðvík í Keflavíkurhreppi 1908-1942; fólksfjöldaþróun og atvinnumál 1942-1994; uppbyggingu hafnarmannvirkja; uppbyggingu almenningsfyrirtækja og ýmis verkefni sveitarfélagsins 1942-1994; skipulagsmál, íbúðabyggingar og gatnagerð 1942-1994; skóla og bókasöfn frá 1942; stjórnmál, stjórnkerfi og fjárhag sveitarfélagsins 1942-1994, Njarðvíkurkirkjur á 20. öld; félagsstarf, skemmtanalíf og íþróttir 1942-1994.
-[Ragnar Karlsson]: Garðabær. Byggð milli hrauns og hlíða. Safn til sögu Garðabæjar. Umsjón með útgáfu Erla Jónsdóttir. Garðabær 1992. 73 bls.
Farið er nokkrum orðum um þróun byggðar í landi Garðabæjar í aldanna rás, rætt um náttúrufar og umhverfi, fjallað um jarðfræði Garðabæjar, greint frá kirkjustaðnum Görðum, Bessatöðum, Vífilsstöðum, fjallað um byggð og búsetu í Álftaneshreppi, rætt um upphaf Garðahrepps og breytinguna í kauptún, sveitarstjórnarmál, bæjarbrag og félags- og menningarmál.
-Ragnar Karlsson: Keflavíkurbær 1949-1989. Fjörutíu ára kaupstaðarréttindi. Stiklur úr sögu og byggðarþróun. Keflavík 1989. 60 bls.
Ritlingurinn hefur að geyma upplýsingar um bæinn í máli og myndum frá ýmsum tímum í sögu byggðarlagsins.
–Saga Kópavogs. Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Safn til sögu byggðarlagsins-1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J. E. Petersen. Kópavogur 1983. 247 bls. Bókin var endurútgefin árið 1990.
Í ritinu eru greinar og viðtöl sem tengjast sögu Kópavogs á umræddu tímabili. Ein grein er langlengst, „Kópavogur 1936-1955“ eftir Lýð Björnsson. Í henni er sagt frá því helsta sem snertir uppbyggingu Kópavogs á þessum árum.
–Saga Kópavogs. Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Safn til sögu byggðarlagsins-1985. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjórar Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Kópavogur 1990. 271 bls.
Í ritinu er greint frá upphafi kaupstaðarsögu Kópavogs, sagt frá bæjarstjórum og bæjarriturum, fjallað er um kosningaúrslit og meirihlutasamstarf, kirkju og söfnuði, bókasafnið, skipulags- og byggingamál, heilbrigðismál, félagsmálastofnun, æskulýðs- og íþróttamál og skólamál. Einnig er greint frá listastarfi, almenningssamgöngum, hafnargerð, götuheitum og mannfjölda, löggæslu, tengslum við vinabæi, stórafmælum Kópavogs og kjörnum fulltrúum.
Sigurður Skúlason: Saga Hafnarfjarðar. [Hafnarfjörður] 1933. 707 bls.
Bókin spannar tímabilið frá 874 til 1933. Langur kafli er um sögu verslunarstaðarins en síðan koma sjö efnisskiptir kaflar; upphaf Hafnarfjarðarkaupstaðar, landeign og skipulag, stjórnmál sem er að mestu bæjarfulltrúa- og bæjarstjóratal, atvinnumál, heilbrigðismál, kirkjumál, skóla- og menningarmál. Loks er yfirlitskafli. Í upphafi bókarinnar er fjallað um umhverfi Hafnarfjarðar og hinar fornu bújarðir í Firðinum.
http://www.hi.is/~eggthor/thettbyli.htm#9