Hengill – Útilegumannaskjól

Hengill

Útilegumannahellar áttu að hafa verið í Innstadal og í Engidal í Henglinum.
Í Innstadal segja sagnir til um að í hellinum hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhafnar meðlimir af einhverju skipi en verið brottviknir fyrir einhver níðingsverk. Ekki bera heimildum saman um hversu lengi Hengillþeir höfðust við í þessum helli, sumir sögðu eitt sumar aðrir tvö ár. Það er ekki vitað með vissu. Talið er að þeir hafi verið 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á saufé sem þeir stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðan fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. „Þjófahlaup“ í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru drepnir ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.
Heimildir skýra svo frá; Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.
Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hruninn, fallinn bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Hengill Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson „Tannastöðum“ skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.
Einnig eru til sagnir um útilegumenn sem hafi haldið til í helli í Engidal. Í dalnum eru tveir hellar, eða skútar, um 400 metra norðan við sæluhúsið, sem þar er. Annar þeirra, sá efri er talinn vera ævaforn útilegumannabústaður. Sagt er að Eyvindur Jónsson ( Fjalla-Eyvindur ) og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útleigð þeirra, vorið 1678. Í þessum hellum mátti finna ummerki mannvistarleifa.
Hellirinn er efst í móbergshnúknum og snýr hellisskútinn í suður og blasir hann við frá Sæluhúsinu. Hellirinn er um 5 m breiður og 1,20 m á dýpt. Hæðin er um tveir metrar og nokkuð jafn. Hleðslurnar sem hafa verið fyrir opinu að hellinum eru að miklu leyti hrundar en þó eru um 50 sm há hleðsla sem stendur eftir.
Ljósmyndin sýnir hellisskútann og hleðslurnar að innganginum.
Sagnfræðingurinn Lýður Björnsson segir frá hleðslu fyrir hellismunna í Engidal.
„Móbergsklettarani gengur af Marardal meðfram Engidalsá. Hann er mjög veðraður og hæðóttur. Við gengum í fyrstu niður með ánni, en réðumst síðan til uppgöngu á klettaranunum neðarlega eða í neðstu lægðinni á honum. Ásgeir [S. Björnsson] … benti mér fljótlega eftir að upp var komið á hellisgjögur … Stuttur spölur var að hellisgjögrinu … Þarna voru ótvíræðar mannvirkjaleifar. Veggur hafði verið hlaðinn fyrir munann, og var talsverður hluti hans enn uppistandandi. Dyr voru á veggnum. Efsti hluti veggjarins var þó hruninn. Nokkur gróður hafði fest rætur milli steina í hleðslunni“.
Ferðafélagið Útivist stefndi á þennan helli 26. október 1986 og skýra leiðangursmenn svo frá; „Engin greinileg ummerki sjást í hellinum um eldamennsku, en þó kunna tveir steinar í gólfi til vinstri við inngang að vera frumstæðar hlóðir.“ Hellisskútinn sjálfur er 5 m breiður og um 2,5 m hár. Hann slútir varla meir en 1-1,5 m fram að ofan.
Hengill Til hliðanna við hellisopið (þ.e. austan og vestan við) ganga móbergsranar fram og eru aðeins um 2 m á milli þeirra um 4 m sunnan við hleðsluna. Neðan við þessar ytri „dyr“ er allbratt upp að hellinum, sléttar móbergshellur, en þó vel fært. Innan við þær er minni halli og laust grjót í botninum og gæti sumt af því verið úr hleðslum fyrir skútanum. Fyrir honum eru þrjú stór björg sem tæplega hafa verið færð til af mönnum, en ofan á tveimur þeim vestari er hleðsla með minni steinum. Smáhleðsluleifar eru einnig á austasta bjarginu. fast upp við hellisvegginn. Innan við björgin og hleðslurnar er um 1 m breið skora og er botninn þar allsléttur. Í þessum helli hefur verið ágætt skjól fyrir öllum áttum öðrum en sunnanátt en ólíklegt er að hlaðið hafi verið alveg fyrir hann eða að menn hafi hafst þar við að staðaldri. Útsýni er mjög gott úr þessum helli yfir Engidal og Norðurvelli og gæti verið að það hafi einhverju ráðið um að þarna hafi menn komið sér upp skjóli.
Hinn hellirinn sem minnst er aðeins 40 metrum frá „stóra“ hellinum og aðeins neðar. Sá hellir er mun þrengri og dýpri, um 3 m langur, 2 m breiður og 1,25 m hár. En hleðslur eru fyrir mynni þessa hellis einnig. Mjög gott skjól hefur verið úr þessum helli og hefur hann verið ákjósanlegt svefnstæði en hann er mjög þrifalegur og mjúk möl er á gólfi hellisins.“
Lýður minnist á að mögulegt sé að hleðslur þessar hafi verið skjól fyrir hreindýraveiðimenn eða skýli fyrir nautreka en trúlegast finnst honum þó að þessir hellar hafi verið skjól fyrir Fjalla-Eyvind og Margréti í seinni útlegð þeirra, vorið 1678.
En minnst er á það ár í annálum: Eyvindur nokkur, giptur, hljóp úr Ölfusi með annars manns konu vestur, og töldu sig fyrir ektahjón: náðust, voru húðstrýkt og aðskilin. Þau tóku sig aptur saman, lögðust út í Henglafjöllum, náðust og voru réttuð á þessu alþingi.“ Fitjaannáll ÍA II, 247. sbr. Hestsannál ÍA II, 512. 1678: „Höggvinn maður á alþingi, hét Eyvindur Jónsson, er hlaupið hafði úr Ölvesi frá konu sinni meða aðra konu vestur undir Jökul og héldu sig þar fyrir hjón, fóru síðan þaðan og fundust við hellir á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld.
Hengill Konan hét Margrét Símonsdóttir; henni drekkt í Öxará. Í þessari frásögn er minnst á helli á Mosfellsheiði, hér á hugsanlega átt við umræddu hella í Engidal.
Þau höfðu verið strýkt veturinn fyrir og látin þá laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll.“ Setbergsannáll, ÍA IV, 119-1220. Dauðadómurinn er prentaður í Alþingisbókum Íslands VII, 403 og segir þar að þau skötuhjú hafi verið höndluð „í einum hellir suður undan Erfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. Octobris [1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum [voru síðan dæmd fyrir 3 hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu á Bakkárholtsþingi og úttóku líkamlega refsingu á Kópavogi 3.12.1677 fyrir útileguna og þar af hnígandi þjófnaðar aðburði, þar efti voru þau afleyst af biskupinum og Eyvindur tekinn aftur af konu sinni]. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræðapersónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta nokkrum í Ölvesvatns landeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar [og voru þau svo ströffuð af lífinu eftir Stóradómi 3].

Heimildir:
-http://notendur.centrum.is/~ate/ (Hengilssvæðið)

Steinbrjótur