Stakkavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um “Grindaskarðaveg – Selvogsleiðir“:

Stakkavíkurvegur

Stakkavíkurvegur út frá Grindarskarðavegi t.v.

“Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík.

Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð.

Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 100-102.

Grindaskarðavegur

Stakkavík í og við Hlíðarvatn.