Færslur

Stakkavíkurvegur

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu og Hlíðarveg að Stakkavíkurvegi undir Vesturhnúkum. Vegurinn var síðan fetaður um Ása (Svörtu-Ása og Urðarás), niður Dýjabrekkur að Stakkavíkurseli ofan við Selbrekkur. Frá því var selstígurinn genginn um Einstigið niður að Stakkavík.

Stakkavikurvegur-203

Stakkavíkurvegurinn nær frá Stakkavík í Selvogi langleiðina upp undir Kóngsfell í Grindarsköðrum. Þar mætir vegurinn þvervegi; annars vegar að Kerlingarskarði í norðvestri og hins vegar að Grindaskörðum í norðaustri. Þaðan niður eftir liggur einnig Hlíðarvegurinn, sem flest göngufólk fer þegar það telur sig vera að ganga Selvogsgötuna. Leiðin sú var vörðuð um 1892 er ætlunin var að leggja vagnfæran veg frá Hafnarfirði í Selvog. Hugmyndin var að vegagerðin myndi nýtast brennisteins-vinnslunni neðan Námuhvams í Brennisteinsfjöllum. Gatan var aldrei lögð, einungis vörðurnar voru hlaðnar. Neðsti (syðsti) hluti Stakkavíkurvegar var jafnframt Selstígurinn milli Stakkavíkursels og bæjar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags Stakkavíkurveginum á eftirfarandi hátt: “Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga.
Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Stakkavikurvegur-6

Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.”
Efst í Kerlingarskarði er rétt að rifja svolítið upp jarðfræðina: “Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess.
Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu.

Stakkavikurvegur-203

Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun Stakkavikurvegur-202og Gvendarselshraun.
Á Draugahlíðum er hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það, [þ.e. Selvogshraun] (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189).
Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru Stakkavikurvegur-204þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

“Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjóít haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar.
Nokkru suðaustur af Stakkavikurvegur-205þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir.

Stakkavikurvegur-206

Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus.”
Lára Gísladóttir bjó ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík. Lara Gisladottir“Hún fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Foreldrar hennar fluttust að Stakkavík sem var erfið jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Þau Kristmundur giftust 1918. Hann var ættaður úr Hafnarfirði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafið biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.
Hún Lára var heldur enginn veifiskati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu börn og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fyrir einangrun og margháttaða erfiðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og fjölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.” Við jörðinni tók Kjartan Sveinsson, þjóðskjalavörður.

Stakkavikurvegur-207

Hér má lesa frásögn í Tímanum 1982 um “Sprittlogann í Stakkavík”: “Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úr stjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið.

Hvalspik

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík.
Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi.
Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik.
Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.
Ef til vill hefur Kjartan lesið einhverja vantrú úr augum mínum, en hann sagði: Það rak hérna hval í Stakkavikurvegur-208vor, eða vetur, og enginn hirti um hann. Ég skar spik, því hvalspik er fyrirtaks eldsneyti, skal ég segja þér. Um það hafði ég lesið í bókum Eskimóa og fleiri. Ég skar mér því í eldinn, og svo sögðum við ekki meira, en ókum hlykkjóttan, grýttan veginn og síðan troðninginn niður að Stakkavík, sem stendur á hæðarbrún, þar sem sést vel til sjávar og fyrir neðan túnið er svo Hlíðarvatn,fullt af silungi og draumum. Þegar inn var komið og búið að bera lundapottinn inn og annan farangur, líka sósur og annan mat, fór Kjartan að kveikja upp. Hann brenndi hvalspiki. Hann hafði skorið spikið í stykki sem voru á stærð við sígarettukarton, eða rúgbrauð og nú skeðu mikil undur.
Hvalspikið logaði glatt og það átti ekkert skylt við grútarlampa forníslendinga, sem gerðu þá svarta og sjónlausa. Hvalspik logar, eða brennur nefnilega með sprittloga, alveg eins og kósangas. Lyktarlaust var það með öllu og sem hitagjafi hafði það vel við suðaustan í gisnu og gömlu húsi. Þetta var dularfullt kvöld og hlýtt með afbrigðum, og vefurinn í spikinu, skammtaði eldinn. Þetta fuðraði ekki, heldur brann meö hæfilegum hraða, uns stykkið var allt brunnið, en það tók langan tíma.

Stakkavikurvegur-209

Og nú spyr ég, er hvalspik ekki hugsanlegur orkugjafi, t.d. í iðnaði eða til húshitunar á stöðum þar sem ekki finnst heitt vatn í jörðu?
Ég veit að hvalspik er notað í hvallýsi, sem síðan er notað í smjörlíki og fl. Til þess að sjóða hvallýsi þarf mikla orku, sem mun fengin með svartolíu. Ef unnt væri að selja hvalspikið sem eldsneyti til heimabrúks, myndi mikil olía sparast við lýsisgerð, og olíukyndingar til húshitunar myndu syngja sitt síðasta á mörgum stöðum.
Stakkavikurvegur-210Ég sá það einhvers staðar í fréttum nýverið, að iðnaðarríkin hefðu minnkað olíunotkun sína um 10%, sem er hreint ekki svo lítið. Þetta gjörðu þjóðirnar, með því að nýta orkuna betur og með því að nota aðra orkugjafa en olíu. Það er því mikið hugsað í þessa veru. Að vísu veit ég ekki hvort hvalspik er, eða hefur verið notað sem eldsneyti hér, nema í Stakkavík. En víst er að hvalspik er fyrirtaks eldsneyti og hitagjafi. Laust við alla mengun. Þá er ég líka minnugur þess, er ég sigldi á olíuskipum sem ungur maður, að við fluttum heilu lýsisfarmana úr hvalstöðinni í Hvalfirði, þannig að nokkrir skipsfarmar eru til staðar af hvalspiki á þessum stað og verða það, þegar búið er að koma vitinu fyrir þá, sem drepa dýr eftir greind og vitsmunum, og leggja sér til munns.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Grindaskarðavegur, 49. árg. 1943-1948, bls. 99-100.
-Náttúrufræðingurinn, 52. árg. 1983, Jón Jónsson, 1.-4. tbl. bls. 131-132.
-Morgunblaðið, 22. janúar 1986, bls. 44.
-Tíminn, 17. ágúst 1982, Jónas Guðmundsson, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8-9.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Selvogsgata

Lagt var af stað eftir Selvogsgötu (Suðurfararvegi) til norðurs frá Útvogsskála[vörðu] vestan við Strandarhæð. Varðan er vandlega hlaðin, ferköntuð, enda ætlað að verða ferðafólki áreiðandi leiðarmerki á ferð um þessa gömlu þjóðleið.

Selvogsgatan neðanverð

Ætlunin var að fylgja götunni upp Selvosgheiði, um Strandardal, Hlíðardal, Litla-Leirdal og allt upp að Hvalsskarði í Hvalhnúk. Þaðan var ætlunin að ganga til vesturs með sunnanverðum Austurásum og yfir að Vesturásum þar sem eru gatnamót Stakkavíkurvegar og Hlíðarvegar skammt austar. Af þeim tvennum átti að þessu sinni setja meginstefnuna á fyrrnefnda stíginn, niður í Selsskarð og eftir Selsstíg áleiðis niður að Stakkavík. Til eru greinargóðar lýsingar á stígum þessum og verður helstu kennileita á þeim getið hér á eftir – eftir því sem fætur um þær leiðir liggja. Og auðvitað, líkt og venjulega, urðu nokkrar óvænta, og áður óþekktar, uppgötvanir á leiðinni.
Eftirfarandi er hluti lýsingar Konráðs Bjarnasonar af kaupstaðaleið Selvogsmanna frá Torfabæjarhliði um Grindarskörð til Hafnarfjarðar.
“Þetta var gamla lestamannaleiðin um aldir og allt fram undir 1940 á meðan henni var haldið við ruðningi sem sýsluvegi.
Vorsmalamennsku og rúningi var lokið og ull fullverkuð, þurrkuð, sekkjuð og bundin til klakks, sem hestaburður á mörgum hestum. Góðveðursdagur var valinn, hestar heima við vel járnaðir og lagt af stað í fulla dagleið klukkan sjö að morgni.
Þorkelsgerði var um aldir ein jörð; lögbýli með bændakirkju á 15. og 16 öld og varð um skeið eign höfðingjanna á höfuðbólinu Strönd, en deildist síðar, einkum milli fjögurra búsetumanna, undir heitunum Austurbær, Miðbær, Vesturbær og Torfabær, eftir að Torfi Erlendsson, sýslumaður, náði þar búsetu ásamt Stafnesi. Hann kom þangað um 1656 og dó þar. Hin fjórskipta búseta á Þorkelsgerðisjörðinni er bókfest: 1681, 1703 (Jarðabók Á.M. og P.V.), 1706, 129 og 1735. Eftir 1760 varð samruni í Austurbæ og Miðbæ til bújarðarinnar Þorkelsgerðis I og æ síðan. Þá kemur fram í þinglesinni landamerkjaskrá 12.06.1890, að hún er gildandi fyrir Þorkelsgerði I, Vesturbæ og Torfabæ.
Gerði neðan StrandarmannahliðsHestalest Þorkelsgerðismanna lagði upp frá heimtröðinni austur í Moldu og þar norður og vestur með túngörðum, uns hún beygði á götuna upp Flögin á móts við áðurnefnt hlið. Gatan var vel rudd og eftir tæpan stundarfjórðung er lestin komin móts við Útvogsvörðu á hægri hönd. Mikil varða, þykk, ferköntuð með strýtu upp úr miðju og þar upp úr sundmerki, af tré í þríkant, enda mikilvægt tákn, vegna Stokksvíkurssunds til Þorkelsgerðislendingarvara.
Þá liggur gatan nokkuð greið eftir sandeyðingum, þar til hún nær grasflötum neðan Dalhólalágar. Rétt áður á vinstri hönd fórum við framhjá vörðubroti á lágum hól, Hrossabeinavörðu. Þar sá ég á æskudögum hvíttærð hrossabein þeirra er fallið höfðu í harðræði. Þar skammt ofar á vinstri hönd er Dauðhóll, einn vitnisburður um búgripafelli.
Nú erum við komin upp í Dalhólalágina, gróna vallendis snögggróðri. Austan við hana lá Bjarnastaðavegur í átt til sýsluvegar upp Selvogsheiði til Ölfuss.
Selvogsgata ofan HlíðardalsLestargatan úr Útvogi, er við fylgjum upp úr Dalhólalág, liggur fast að Útvogsskála, þykkhlaðinni ferkantaðri vörðu með strút efst og var allvíðsýnt frá henni, einkum inn í vesturheiði, allt til Hlíðarvatns og fjallgarðsins þar upp af. Við Skálavörðuna var fyrrum stekkur, er vel sást fyrir í umdæmi mínu.
Austur af Útvogsskála voru Dalhólar og á einum stóð Árnavarða. Í norðaustur af henni sést til Bjargarhellis með vörðu á grónum hellishól. All nokkur austar af Bjargarhelli, eru sandkenndar grasflatir, er tóku við í suðvestur af Hásteinaflagi og sveigjast til suðvesturs, sem snögggróið valllendi vestan við hið mikla sandflæmi til austurs. Þar í sandjarðri eru Fornugötur, er liggja niður að Digruvörðu og framhjá henni til Nes og túngarðshliða Bjarnastaða.
Frá Útvogsskála lá lestargatan eftir snögggrónum vallargróðri, er náði inn að Kökuhól, en vestan við hann lá gatan inn á Rof með stefnu á Katlahraun, vestan Urðarfella. Ekki var löng leið frá Útvogsskálavörðu að Kökuhól, en rétt áður en við höfum náð til hans förum við yfir þjóðleiðina fornu úr Ölfusi framhjá Vogsósum til Útnesja.
Varða við Selvogsgötu við Litla-LeirdalKökuhóll er vestasti hluti lágheiðararms þess, er liggur til vesturs frá suðurhluta Standarhæðar. Nokkru austar af honum fast við þjóðleiðina er fjárhellirinn Gapi. Framan við hann var fjárrétt vel hlaðin og stendur hún enn með lágum veggjum vegna þess hvað gróinn jarðvegur hefur hækkað innan hennar, svo og í hellinum, sem var fyrr hár til lofts og rúmgóður. Sagt var í honum hefðu fyrr á tímum hafst við næturlangt langferðamenn til Útnesja. Suður af honum var smáhellir með vörðubroti, en nú með gleymdu nafni. Nokkru austar og norður af Gapa, er allvíð hæð er ber hátt yfir umhverfi sitt og allvel gróið lyngi áður fyrr. Þar var venja að svipast um í hestaleit miðheiðar. Á hábungu hæðarinnar er hringlaga jarðfall, grasi gróið í botni og með góðum niðurgangi fyrir menn og skepnur. Þetta er Kerið á Strandarhæð með stórhelli einkum í norður, er hýsti um 200 fjár. Strandarhellir, sem er sögulegur og verður því ekki komist hjá því að staðfesta það frekar:
Þorvarður og sonur hans Erlendur, lögmenn sunnan og austan sátu höfuðbólið Strönd í Selvogi á 15. og 16 öld og náðu undir það í krafti stórveldis síns, nærliggjandi jörðum. Erlendur fór að vísu offari og tapaði stóreign sinni til Konungs um 5 ára skeið, en fékk svo aftur 1558 og varð þá stórbú hans mest, allt til æviloka 1576, þá um áttrætt.
Sú saga er sögð og fyrir löngu skráð, að Erlendur átti 600 ásauði og af þeim gengu 200 með sjó á vetrum og höfðu þar fjárborg, og geymdi þeirra einn maður. Önnur 200 gengu upp á völlunum við Strandarborgir (Borgirnar þrjár) og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæð við Strandarhellir, og geymdi þeirra hinn þriðji maður.
Sú saga er sögð af fjárgæslumanni Erlendar við Strandarhelli, sem hafði ströng fyrirmæli frá Erlendi, sem og hinir, að týna engri kind úr hjörðinni og að líf smalamanns gæti legið við.

Varða við Stakkavíkurveg millum Ása

Þá bar það til einn vetur, að fjármaður við Hlíðarendahelli í Ölfusi (um 12 km fjarlægð) fann 2 kindur með marki Erlendar á Strönd í fjárbyrgi sínu og voru Erlendi send boð þar um. Erlendur kallaði þá fjárgæslumann inn við Strandarhelli fyrir sig og var þungbúinn mjög og sagði að upp væri komið, að hann hefði týnt úr hjörð sinni og hverju hann svaraði til. Sauðfjámaður harðneitaði að hafa týnt úr hjörð sinni og sagði að kindur þessar hefðu geta komist neðanjarðar í Hlíðarendahelli, því enginn hafði komist svo langt inn í Strandar- eða Hlíðarendahelli að endir hafi fundist. Við þessu átti Erlendur engan mótleik og lét kyrrt liggja, því hann var mikill lögmaður og mat að verðleikum réttmæt gagnrök og viðurkenndi eigin rökþrot.
Við erum nú komin drjúgan spöl framhjá Kökuhól in á heiðina og áfram eftir hinu fjölgróna Katlahrauni, sem kemur niður austanvert af Hlíðarfjallsbrekkum og verður að Katlabrekkum í halla sínum. En þar sem lestargatan liggur yfir það í átt til Hlíðardals, er það milt og vinalegt í fjöljurtagróðri sínum. Austur af eru Svörtubjörg. Þar stendur Eiríksvarða í fullri reisn sinni svo tæpt á bjargsbrún að ekki fýsir menn að ganga framan við hana. Í munnlegri geymd er talið fullvíst að séra Eírikur Magnússon, hinn fjölfróði, hafi staðið fyrir byggingu vörunnar og valið henni stað.

StakkavíkurvegurTilgangur vörðubyggingarinnar hefur vafalaust verið að slá á þann stöðuga ótta er fólkið á úthafsströndinni bjó við, einkum frá landgöngu víkinganna voðalegu frá Algeirsborg, er gengu á land í Grindavík 20. júní 1627, nokkru vestar á sömu úthafsströnd.
Nú er lestin komin langleiðina yfir Katlahraun. Nú blasa við augum á hægri hönd Strandardalabrekkur allbrattar og vel grösugar að efstu brún. Kálfsgil, er liggur frá Stakafelli, klífur Strandardalinn nær miðju og endar innri hluti hans í hvammi undir bergvegg, sem gengur út í Katlahraun og verður að öxl þeirri er skilur að Strandar- og Hlíðardal. Úr bergöxl þessari sprettur silfurtær vatnslind, Sælubuna, sem er ómetanleg fyrir heyskapafólk í nefndum dölum. [Bunan sæla var reyndar þurr í þetta sinnið.]
Nú erum við lestarmenn í nokkrum halla á fótinn að komast framhjá bergöxlinni með sælubuninni sinni og þar með erum við komin á undirlendi Hlíðardals. Hann stendur Strandardal ofar mót hækkandi heiðlendi. Hann er hvammslaga og vel grösugur upp á brún. Efst í dalnum stóð eitt sinn bær Indriða lögréttumanns, Jónssonar. Hann var þar á fyrri hluta 17. aldar, merkur maður, góður skrifari og smiður.
Lestargatan frá Urðarfellum til Litla-Leirdals liggur yfir einskonar hraunmóa, ávallt vel rudd á tímum lestarmanaferða. Nú fara að koma í ljós þokkafullir hraunhólar á hægri hönd með nokkrum brekkuhalla frá þeim niður í dæld þar sem stargresi vex út í snoturt vatnsstæði, Rituvatnsstæðið, sem kom sér vel fyrir sauðféð í sumarhögum og heyskapamenn á fjalli. Ofan við vatnsstæðið beygði gatan í norðaustur upp grasbrekkuhalla. Þegar upp var komið blasti Litli-Leirdalur við, alllangur í sömu átt. Í suðausturhorni hans, nú á hægri hönd, er fallegur hraunhelluhóll með fallegri grasflöt er leggst upp að honum vestanverðum. Dalur þessi var allvel grösugur fyrr og sleginn ásamt brekkum og grasgeirum austan og innan við hann.
Gatan upp úr dalnum liggur eftir lágbrekkuhalla og sveigist brátt í norðvestur yfir hraunmóa með grasdrögum Varða við Stakkavíkurveghér og þar, einnig með klifum sem voru á tímum lestarferðanna þannig gerðar að þær yrðu hestum sem best færar. Hinir mörgu svigar á vegferð þessari voru vegna hraunhólanna þar til komið var upp að Hvalskarðsbrekkum. Þá liggur gatan eftir mjúkri moldargötu neðanvert brekkum þessum þar til komið er að Hvalskarði, sem er allskörp klauf milli Hvalshnúks Eystri og Vestri. Sá Eystri verður því á hægri hönd og sveigist allhátt til norðurs, en sá Vestri á vinstri hönd upp skarðið og er alllangur í vestur, fer hækkandi frá Hvalskarði uns hann hækkar nokkuð við vesturhluta sinn.
Þegar kaupstaðalestin kemur að Hvalskarði blasir lestargatan við sem afbragðslestargata, sneiðskorin austan í rauðamelsskriðu Hvalshnúks Vestri og endar í rúmri góðgötu á hálsinum upp af skarðsgilinu og liggur þaðan örstutta leið ofan í suðurhluta Stóra-Leirdals, sem liggur fast upp að Hvalhnúk Eystri. Graslendi hans er breiðast og best syðst. Þar mátti sjá á sumardögum á beit 50-100 sauðfjár, en að þar hafa verið heyjaðir hundruð hestburðar verður að teljast vafasamt.
Hestar lestarinnar verða léttari í spori niður á grasvöll Stakkavíkurvegurdalsins, enda hefðarlöggiltur áningastaður á hinni löngu lestarleið yfir Grindarskörð. Hér eru hestburðir ofan teknir og hestar leystir úr lestarbandi og þeim leyft að grípa niður með reiðing sínum og beisli um háls. Þar spenntu lestarmenn töskur sínar frá hnakki og tóku fram nesti sitt. Klukkan var um 11 f.h. og hafði því lestargangur í Stóra-Leirdal verið 4 klukkustundir á fótinn.
Á heimleið úr kaupstað var hér gjarnan tekinn tappi úr flösku sem gekk milli manna og dreypt var á af háttvísi. Því fylgdi eftir ættjarðarsöngur sem fór vel í fjallasal þessum.
Var nú haldið norður eftir dalnum og um sinn eftir leirflagi (sístækkandi) framhjá hraunbrún hins víðáttumikla Skarðahrauns á vinstri hönd. Við norðurenda dalsins var farið framhjá lágbungu þeirri er tengist Hvalhnúk Eystri og þá á hægri hönd. Þarna gæti verið Sæmundarmelur sá er sumir nefna.  Norðan við lágbungu Hvalhnúks Eystri tók við vesturjarðar Heiðarinnar háu sem verður með lágbrekkusniði á hægri hönd milli skarða. Að götunni vestan megin liggur hið mikla Skarðahraun fast upp að götunni og sumsstaðar yfir hana en það liggur fast að Hvalhnúk Vestri í suðri og til Draugahlíðar og Kerlingarskarðs í norðri en í vestur allt til Brennisteinsfjalla.”
Áður hafði FERLIR gengið Selvogsgötu frá Bláfjallavegi um Grindarskörð til suðurs, upp fyrir Hvalsskarð sem og götuna upp að Hvalskarði í tvígang. Í fyrstnefndu ferðinni var “Selvogsgötunni Vestari” (Stakkavíkurstígnum) fylgt upp að gatnamótum hans og Selvogsgötu Eystri sunnan undan Kerlingarskarði (sjá HÉR). Lóu- og þúfutittlingshreiður voru nokkur skoðuð á leiðinni. Þegar komið var upp undir Hvalskarð var Vestri Hvalhnúk fylgt til vesturs, yfir á Stakkavíkurveg við austanverða Vesturása. Þar liggur gatan ofan frá gróningum neðan við slétt helluhraun (Selvogsgatan Vestari) og niður með austanverðum ásunum. Á skammleiðinni við hornið eru tvær vörður með stuttu millibili. Þaðan fylgir gatan undirhlíðum Vesturása, þ.e. misgengi sunnan þeirra. Suðvestar eru klettaborgir. Liggur gatan millum þeirra og niður með einni þeirra í sneiðing að norðanverðu. Varða er neðar og önnur nokkru sunnar.
Eftir það liðast hún niður á við í gróningum undir Stakkavíkurvegurhlíðum, fyrst í Dýjabrekum, og allt fram á brún Stakkavíkurfjalls, þar sem Selstígur liggur niður heim að bæ. Á nokkurm stöðum er búið að raska götunni vegna girðingarvinnu (beitarhólfið). Er það í rauninni leitt því sumstaðar hefði með svolítilli hugsun einungis þurft að færa girðinguna um nokkra metra til að hlífa götunni svo hún hefði verið óröskuð alla leiðina. Sjálfsagt er þetta all gjört með fullri heimild Fornleifarverndar ríksins.
Þegar komið var niður á Selsskarðsstígsbrúnina var kjörið að rifja upp örnefnalýsingar, bæði af Stakkavíkurveginum og Hlíðarveginum:  “Stakkavíkurstígur lá heiman frá húsi, austur yfir hraunið yfir að Botnaviki, um Flötina upp um Lyngskjöld í Selstíg. Stígur þessi var kaupstaðarleið Stakksvíkinga til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.” Þá segir ennfremur í annarri örnefnalýsingu: “Í Selskarði er Selskarðsstígur; ekkert hraun hefir runnið þar fram. Það er grasi gróið og fyrir neðan það. Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu. Brekkurnar neðst í fjallinu heita einu nafni Stakkavíkurfjallsskriður, en í daglegu tali voru þær greindar í þrennt, þannig frá vestri til austurs: Selstígsbrekkur við Selskarð, skammt austar Snataklettsbrekkur; þá taka við austast Urðar-brekkur.”
Í lýsingu af Stakkavíkurveginum áðurgengna segir í upptalningu örnefnanna: “Stakkavíkurvegur; 1. Stakkavík: Heim við tún byrjaði vegurinn og lá upp. 2. Stakkavíkurhraun:  Í austur neðanvert við Fjárborgina. 3. Flötin: Úr hrauninu lá vegurinn um flöt ofan við Botnavik. 4. Lyngskjöld: Sem er hraunbrekka ofan og austan Flata. 5. Selskarðsstígur: Heitir vegurinn eiginlega heiman frá bæ þá leið sem þegar er lýst upp í 6. Selskarð: Sem er í Stakkavíkurfjallsbrún. 7. Stakkavíkurfjall: Er þá komið upp á Stakkavíkurfjall, eða Fjallið.

Þúfutittlingsegg við Stakkavíkurveg

8. Stakkavíkursel: Spölkorn ofan brína [?] er þetta sel. 9. Leirdalur: Er þar nokkru ofar. 10. Helgadalur: Dalur þessi eða hvammur er þar enn ofar. 11. Langhólar: Þeir eru þar enn ofar og liggja í Hlíðarveg. 12. Brekkurnar: Þær eru nokkrar með sérnöfnum. 13. Dýjabrekkur 3: Þær eru allt upp undir Ása. 14. Dýjabrekkuhóll: Hann er á hægri hönd við Veginn. 15. Ásarnir: Taka svo við og liggja á beggja megin vegar. 16. Svörtu-Ásar: Liggja á vinstri hönd. 17 .Vesturásar: Þar norðar og á vinstri hönd. 18. Austurásar: Beint á mót á hægri hönd. 19. Hvalhnúkur vestari: Hann hefur blasað við alla leiðina. 20. Hvalhnúkatagl: Um það liggur vegurinn og beygir til hægri. 21. Skarðshraun: Inn og austur eftir hrauni þessu, sem mun vera kennt við Grindaskörð. 22. Skarðahraunsvörður: Allur er vegurinn varðaður þessum vörðum. 23. Tvívörður: Upp í þessar vörður sem standa með nokkurra metra millibili. Þar um liggur svo 24. Suðurferðaleið: Sem áður er lýst. 25. Vetrarvegur: Vegur þessi var farinn á vetrum. Þótti hann öruggari en Suðurferðaleiðin.”
Áður en haldið var niður um Selskarð var enn og aftur rifjuð upp sú gata er gangið hafði verið yfir milli Selvogsgötu og Stakkavíkurvegar, þ.e. Hlíðarvegurinn. Í örnefnalýsingu fyrir veginn segir (og er þá miðað við að hann sé genginn heiman frá Hlíð og upp á milli Vesturása og Austurása áleiðis til Hafnarfjarðar: “Hlíðarvegur; l. Hlíðartún: Heiman frá bæ lá vegurinn um túnið. 2. Skjólabrekka: Um brekkur þessa. 3. Hlíðarskarðsstíg: Sem hefst neðst í 4. Hlíðarskarði. Sem eiginlega er gil og er þar bratt upp. 5. Hlíðarfjall: Ofan brúna er Fjallið, Hlíðarfjall. 6. Teigarnir: Uppi á Fjallinu voru teigar þessir. 7. Ytri-Teigar: Voru neðar. Þangað var farið til slægna. 8. Innri-Teigar: Ofar voru þeir á Fjallinu. 9. Langhólar: Þeir teygðu sig austur fyrir veginn.

Við neðanvert Stakkavíkursel

10. Dýjabrekkur: Um þær lá vegurinn. 11. Ásarnir:  Milli Ásanna sameinuðust Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur. 12. Vetrarvegur: Var vegurinn kallaður. 13. Sjávarvörður: Voru vörðurnar kallaðar, þar sem steinn í vörðunni sneri við suðri.”
Ljóst er af framangreindri vinnu að hin forna Selvogsgata er enn glögg millum Útvogsskála við Strandarheiði og Lækjarbotna í Hafnarfirði. Stakkavíkurvegur er að mestu glöggur frá Selskarði upp að Tvívörðum sunnan Kerlingarskarðs og Hlíðarvegur (Vetrarvegur) sést glögglega (enda vel varðaður) frá Tvívörðum að Hlíðarskarði ofan við Hlíð. Sennilega hefur Stakkavíkurvegur verið greiðfærasta lestargatan fyrrum af þessum þremur leiðum að dæma (a.m.k. er hún nú ein sú áhugaverðasta).
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 21.3 km.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Konráð Bjarnason, 1993, leiðarlýsing á kaupstaðaleið Selvogsbúa – Selvogsgötunni.
-Örnefnalýsingar fyrir Stakkavík.

Í Selskarði

Stakkavíkurhraun

Gengið var um Stakkavíkurhraun milli Herdísarvíkurvegar (þjóðvegarins) og strandar.
Áður höfðu Herdisarvikurvegurhinar fornu djúptklöppuðu götur verið skoðar þar sem þær liggja um Hellurnar vestur að Háahrauni. Í örnefnalýsingum er götunum lýst, bæði neðri leiðinni með sjónum og hinni efri. Í annarri lýsingunni er efri leiðin nefnd Herdísarvíkurvegur og sú neðri Stakkavíkurvegur.
Þegar neðri leiðin var skoðuð núna hafði sjórinn sópað stórgrýtinu af hraunhellunni ofan við ströndina svo sjá mátti hvar gamla gatan, ennþá mörkuð í helluna, hefur legið svo til á núverandi bjargbrún áleiðis að Mölvíkurvatni. Þeirri leið er lýst svo: “Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða. Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar. Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.
Við götur þessar upp af Happasælaviki er Hundaþúfuhóll, sem allt eins er kallaður Hulduþúfuhóll.  Þaðan liggur gatan um klappirnar ofan við Bergdali. Alfaravegurinn efri liggur um Hellurnar upp á brunann allmiklu ofar.  Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand.”
MolvikurvatnEfri leiðinni, Herdísarvíkurvegi er lýst svo: “Frá bæjarhliðinu lá vegurinn heiman frá bæ og um hlið þetta, austur með Túngarði, framhjá Kátsgjótu, með Langagarði, um Herdísarvíkurbruna og áfram austur, milli Fiskigarðanna á Brunanum, um Mölvíkurklappir, yfir Háa-Hraun vestra og yfir brunann og niður á Hellurnar ofarlega og austur þær, upp Sandhlíð og upp á Háahraun eystra (sem er annað nafn á Stakkavíkurhrauni), um gróna sléttu litla í Hrauninu, Hvítubakka, um Borgartungur ofanvert við Fjárborgina og niður á Flötina og á Stakkavíkurveg.”

Herdísarvíkurgötur

Herdísarvíkurgötur. ÓSÁ

Báðar göturnar, sú neðri og sú eftir, eru mjög vel greinilegar enn þann dag í dag. Greinilegt er að báðar hafa í fyrstu þjónað fótgangandi vegfarendum, en síðar hafi efri leiðin verið gerð vagnfær. Enn má sjá sporrennuna í henni víðast hvar. Þá sést hvar Borgin hefur verið í Borgartungum. Slóði liggur að svæðinu þar sem Borgin var, notaður til að fjarlægja grjótið úr henni, væntanlega undir þjóðveginn.
Gengið var fram á greni austan við Háa-Hraun. Nýleg tófuspor voru allt umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Herdísarvíkurleið

Herdísarvíkurvegir. ÓSÁ

 

Stakkavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um “Grindaskarðaveg – Selvogsleiðir”:

Stakkavíkurvegur

Stakkavíkurvegur út frá Grindarskarðavegi t.v.

“Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík.

Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð.

Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 100-102.

Grindaskarðavegur

Stakkavík í og við Hlíðarvatn.