Herdísarvík – drykkjarsteinar

Mosaskarð

Gengið var frá Herdísarvík að Mosaskarði og síðan gamla Herdísarvíkurleiðin efri (Hlíðarleiðin) með Herdísarvíkufjallinu yfir að Lyngskyldi. Haldið var frá Herdísarvík með vesturjarði Stakkavíkurhrauns að Mosaskarði og síðan beygt inn á gömlu Hlíðarleiðina með fjallinu til vesturs. Háir hamrar voru á hægri hönd og sléttgróið mosahraunið á þá vinstri. Á leiðinni voru skoðaðir 4 drykkjarsteinar og fjárskjól uppi í hlíðinni.

Drykkjarsteinninn

Drykkjarsteinn við Herdísarvík.

Fyrsti drykkjarsteinninn, og sá stærsti, er hægra megin við leiðina, í lægð svo til beint fyrir ofan Herdísarvík. Tekur skálinn á annað hundrað lítra af vatni. Við hann hefur hefur verið hlaðinn stallur svo auðveldara væri fyrir ferðalanga að nálgast vatnið. Skammt þar vestar, vinstra megin er annar drykkjarsteinn, minni. Hallar annar steinn sér utan í hann. Skálin er nokkuð djúp. Miðja vegu, þó nær Grasbrekkunum, er fjárskjólið upp í hlíðinni, sést það vel þar sem grasbrekka er undir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn við Grænuflöt.

Skammt austan við Brekkurnar, hægra megin við leiðina, er drykkjarsteinn, svipaður þeim síðasta og þar skammt vestar, einnig hægra megin við leiðina, er annar stærri. Ofan í hann er klofi og er þar vatn í. Suðvestan við steininn er skrokkur af nýdauðri rollu. Vestar er Fálkageiraskarð það er Einar Ben. ætlaði að fara um á leið sinni í „sollinn í Reykjavík“ er hann var stöðvaður þar af nafna sínum að kröfu Hlínar. Skammt vestan við Brekkurnar er Lyngskjöldur. Mótar þar vel fyrir gömlu þjóðleiðinni.
Eftir þetta var einn FERLIRsfélaga að grúska í gömlum sögnum og fann þá sögu um drykkjarsteininn austan við Lyngskjöld. Sagði þar m.a. að sá, sem drykki úr steininum, skyldi gæta þess að tæma aldrei skálina, en skilja eftir vatn fyrir næsta förumann, annars kynni illa að fara.

Herdísarvík

Drykkjarsteinn í Herdísarvík.