Hjallasel I og II
Hjallasel í Ölfusi hafa jafnan reynst áhugasömu fólki erfið leitar og staðsetningar.
En fyrst svolítið um „sel“. Í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju frá 1856 má lesa eftirfarandi um örnefnið „sel“: „Sel merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki mart manna að jafnaði. Alment var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum. En nöfnin eru mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.“.
Í „Orðasafni í fornleifafræði“, sem Fornleifastofnun Íslands birtir á vefsíðu sinni er örnefnið „sel“ m.a. skilgreint: „sel hk. [skilgr.] Bústaður í úthögum eða inn til fjalla þar sem búsmali, aðallega málnytupeningur, var hafður á sumrum. [skýr.] Tilgangur með selstöðu var margþættur: Að hlífa heimahögum við ágangi, nýta útbeit og slægjur og jafnvel eftirsókn í kjarnmeiri gróður. Sumstaðar hafa sel verið notuð sem beitarhús á vetrum. [enska] shieling“.
Ekki er að sjá á örnefnalýsingum að getið sé um selstöður bæjanna undir Hjallafjalli í Ölfusi. Í lýsingu af Hjalla segir m.a. að „vestan við Kerlingarberg er skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina.“
Selsstígur þessi liggur frá Hrauni upp í selstöðu frá þeim bæ í hraunkrikanum undir Skógbrekku.
Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: „Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997).“
Í örnefnalýsingu fyrir Hjallahverfi eftir Eirík Einarsson segir m.a. um þetta svæði: „Nöfn utan gömlu túnanna, neðan brúnar Hjallafjalls. Með Bakka eru talin nöfn í Bakkabrekkum, út að Hjallarás, nema gatan út með fjallinu, en af efri bæjum sóknarinnar var hún nefnd Hjallagötur. Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust.
Rétt fyrir vestan Hjallarétt er gata upp á brúnina, þar sem hlíðin skagar einna lengst fram. Hún heitir Suðurferðastígur og Króksstígur. Allgóð hestagata. Litlu vestar, austan við Króksrás, bugðast önnur gata upp á brúnina. Hún heitir Kúastígur eða Króksstígur.
Rétt fyrir vestan Öxl er gata úr brekkunni upp á brúnina, og heitir Borgarstígur. Spölkorn fyrir vestan Borgarstíg er stór varða uppi á brúninni. Heitir hún Sólarstígsvarða. Aðeins vestan við hana er krókótt kindagata upp á brúnina. Hún heitir Sólarstígur. Í stórum, algrónum hvammi litlu vestar er enn gata og heitir Hraunsstígur.
Upp af Bolasteini er grasbrekka, og hellisskúti ofan hennar, en klettar í brúninni. Brekkan heitir Hellisbrekka. Framan í nefi vestan við Hellisbrekku er gata upp á brúnina. Hún heitir Steinkustígur.
Upp frá Króksstíg eru Suðurferðarmóar upp að Efrafjalli, fyrir vestan Hest. Þar eru grasbrekkur og lautir í brúninni fyrir vestan Leynira (þeir eru taldir með Bakka), og heita Suðurferðabrekka. Gatan þar upp brekkuna kallast Kálberstígur. Þannig var nafnið víst oftast borið fram, en mun eiga að vera Kálfsbergsstígur, kenndur við Kálfsberg, lítinn klettastapa þar í brúninni.
Vestan við Suðurferðabrekku. er Brattabrekka, með kletta í brún og hærri en brúnin austar og vestar. Rétt neðan við vesturenda Bröttubrekku er dálítil hæð, sem heitir Háaleiti. Þar hafði Jón Helgason bóndi á Hjalla, síðar kaupmaður í Reykjavík, sauðahús fram yfir aldamótin 1900. Sér þar fyrir rústum.
Í brúninni vestur af Bröttubrekku, og nokkru lægri, eru Selbrekkur, algrónar. Austast í þeim heitir Pall-Selbrekka. Neðan við Selbrekkur er dálítil lægð sem heitir Litli-Leirdalur (182), og niður frá honum, suðvestur frá Háaleiti er Stóri-Leirdalur. Vestan við Selbrekkur verður rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar eru rústir sels eða stekks, og heitir Lækjarborg.“
Gengið var áleiðis upp í Lyngbrekkur og stefnan þá tekin upp í svonefndar Vatnsbrekkur með stefnu í átt að Skálafelli. Skammt norðaustar var komið í Selbrekkur. Í brekkunum kúrði fallegt sel; Hjallasel I. Þarna mun vera um að ræða gamla selstöðu frá Hjalla. Megintóttin er óvenjustór af selstóft að vera, en rými var austan við hana.
Tvískipt tóft var lítillega ofar (norðar) og síðan önnur skammt vestar. Á milli hennar og megintóftarinnar var garður. Tækifærið var notað og selstaðan rissuð upp. Gamall stígur liggur í móanum upp hlíðina og liðast áfram upp hana skammt vestan við selið. Að sögn Hjalta Þórðarsonar, bónda á Bjarnastöðum, sem er manna fróðastur um þetta svæði, átti þarna uppi einnig að vera selstaða, mjög gömul, frá Hjalla og síðar notuð sem sauðhús [fjárborg, sbr. Lækjarborg]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna til norðvesturs, í svonefndum Sellautum. Á milli seljanna, á Efra-Fjalli má sjá brak úr flugvél er þar fórst á seinni stríðsárunum.
Þegar Lækjaborgin er skoðuð má telja víst að þar hefur „einungis“ verið lítil fjárborg á annars litlum og lágum hól.
Enn má sjá talsverðar hleðslur í föllnum veggjunum sem og leiði- eða skjólgarða bæði suðaustan og norðvestan við hana. Telja verður ólíklegt að þarna hafi verið stekkur fyrrum, hvað þá selstaða. Líklegra er að selstaðan hafi við þar sem nú er Hjallaborg (stórt fjárhús og gerði) neðan við Selbrekkur.
Skammt suðvestar er Fjallsendaborgin, mjög gróin og stór á og utan í klapparhól. Fjárborgir voru á Reykjanesskaganum notaðar sem skjól fyrir útigangsfé því óvíða voru byggð fjárhús og/eða beitarhús á svæðinu fyrr en í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Vegna hversu slíkar byggingar eru tiltölulega nýlegar sjást minjar þeirra jafnan mjög vel í landslaginu. Ein slík er á lágum grónum hól skammt austsuðaustar, talsvert áberandi, norðan og ofan við Sólarstígsvörðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir:
-Örnefnalýsing frá Hjalla.
-Örnefnalýsing frá Ytri-Grímslæk.
-Gunnar Konráðsson – munnleg heimild.
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju, Bæjarnöfn á Íslandi, Hið íslenska bókmenntafjelag 1856, 4.b., bls. 475.
-Örnefnalýsing Eiríks Einarsson fyrir Hjallahverfi.
–http://www.instarch.is/instarch/ordasafn