Hlöðunesrétt (Vogarétt – Strandarrétt)

Hlöðunesrétt

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ fjallar hann m.a. um Hlöðunesrétt, lögrétt Vatnsleysustrandarhrepps; öðru nafni Vogarétt eða Strandarrétt:

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt vígð árið 1956.

„Fyrir ofan Hlöðversneshverfi er samkomuhúsið Kirkjuhvoll (sjá U.M.F.Þróttur). Nokkuð fyrir ofan Kirkjuhvol er fjárrétt. Það er hin gamla Vogarétt sem áður var staðsett á milli Vogabyggðar og Vogastapa. Þessi nýja rétt er reyndar enn kölluð Vogarétt þó hún sé á ströndinni. Gamla Vogaréttin var lögrétt eins og sú nýja sem byggð var árið 1956. Réttin hefur einnig verið nefnd „Hlöðunesrétt“ og „Strandarrétt“.

Vogarétt

Garður við Vogarétt – hlaðið úr holsteini.

Skammt neðan við  Hlöðunesréttina stendur opið hlaðið lítið hús úr holsteini (sandsteini) er bar nafnið Garður, sem lítt hefur verið getið í heimildum.
Lögrétt þýðir aðalskilarétt fjár (sbr. orðabók Árna Björnssonar frá 1979).

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.

Í lögrétt skal fara fram löglegt uppboð óskilafénaðar sem kemur í hana frá hinum ýmsu aukaréttum í sýslunni. Hefur opinber embættismaður á vegum viðkomandi sýslumanns það starf að bjóða upp féð.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt 1982.

Árið 1956 var samþykkt af sveitastjórn að byggð skyldi ný lögrétt á nýjum stað og voru kosnir þrír menn til að kanna hvernig staðið skyldi að framkvæmdinni. Þeir voru; Guðmundur í. Ágústsson, þáverandi hreppsnefndarmaður, Sigurjón Sigurðsson, Traðarkoti og Þórður Jónasson á Stóru-Vatnsleysu. Þessir menn fóru um sveitir suðvestanlands og könnuðu kosti og galla margra rétta, til að sameina það besta í eina nýja lögrétt fyrir Vatnsleysustrandarhrepp.

Vogarétt

Hlöðunesrétt árið 2022.

Réttin var hlaðin úr sandsteini (holsteini) og við hana er mjög góð aðstaða fyrir fjárflutningabíla.
Þórður Jónasson bóndi á Stóru-Vatnsleysu sá um byggingaframkvæmdir ásamt aðstoðarmönnum. Gekk verkið vel og var réttin vígð árið 1956 með mikilli viðhöfn.“

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, bls. 247-248.

Hlöðunesrétt

Hlöðunesrétt.