Hlöðversleiði – Ásláksstaðaleiði (Hjónaleiði)

Narfakotsbrunnur
Helgi Davíðsson í Vogum (84 ára) er manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Á svæðinu eru nokkrar athyglisverðar minjar, auk bæjartóftanna, garða, útihúsa, nausta og vara – leifar mannanna verka fyrri tíðar. Má þar t.d. nefna svonefnt Hlöðversleiði. Svæðið, sem hér verður tekið fyrir, er í raun tvískipt; annars vegar Halldórsstaðir, Hlöðunes og Narfakot vestan Atlagerðistanga og hins vegar Móakot, Ásláksstaðir, Nýibær (Hallandi) og Sjónarhóll.

Brunnur við Narfakot

Í örnefnaskrá fyrir Hlöðunes segir að “Halldórsstaðir stóðu í Halldórsstaðatúni og í því rétt við Halldórsstaðastíginn er svo nefnt Hlöðuversleiði. Á þar að vera heygður landnámsmaður Hlöðuness, sem þá ætti að hita Hlöðversnes og er af sumum nefnt.”
Rústir Halldórsstaða eru sunnan við Narfakot, sem stendur nær sjárvarkambinum. Sunnan þess eru tóftir Hlöðuness. Norðar, við ströndina eru rústir sjávarhúsa og aðrar minjar. “Allar varir Hlöðuneshverfis voru nefndar einu nafni Hlöðunesvarir. Vestust var Hlöðunesvör. Ofan vararinnar var Hlöðuneskampur og á honum var Hlöðuneskamphús, og Hlöðunesnaust eða Hlöðunesskiparétt.” segir í örnefnaskrá.
Helgi sagði fyrrnefnt leiði vera í eða upp á litlum ílöngum hól í Hlöðunestúninu, milli Narfakots og Hlöðuness. Hann hafi einhverju sinni sett stein upp á hólinn, en steinninn væri nú horfinn. Hlöðversleiðið væri ómerkt, en enn væri vitað hvar það væri.
Sesselja Guðmundsdóttir sagði að Klemens Kristmannsson (f. 1917, d. 2005) hafi gengið með henni um túnið í júní 2004 og sýnt henni staðinn þar sem „Hlöðvershaugur stóð, ílöng þúst, líktist leiði.“ Túnið var sléttað út ca 1944. Húsfreyjan þá, Silla, var ekki ánægð með rótið þegar hún frétti af því.. Heimild er um brunn við Hlöðunes, svonefndan Hlöðunesbrunn. Hann er skammt norðan bæjarins, við girðinguna að Narfakoti.
Brunnur „Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum.” Brunnurinn við Narfakot er austan við núverandi íbúðarhús og brunnurinn við Halldórsstaði er rétt norðan við rústir bæjarins.
Hlöðunes er reyndar mjög gamalt býli. Þann 9. september 1447 er jarðarinnar getið í bréfi um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö (30 hdr)., Breiðagerði fyrir (10 hdr)… Árið 1584 segir: „Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska“. Árin 1547-48 er Minni- og Stærri Ásláksstaða getið í fógetareikningum. Atlagerði er orðin hjáleiga 1703. Ásláksstaðakot er og hjáleiga 1847. “Þá hafa verið nefndar nokkrar þurrabúðir, sem nú eru allar óbyggðar: Rás, Fagurhóll, Gerðar, út á Grandanum nefnist einnig Gerðakot og Atlagerði, sem stóð alveg út við vitann. Þá er Miðbær, og eitt sinn var svo nýbýli ofan þjóðvegar, Garðhús … “Þá eru grasbýlin. Syðst og vestast er Móakot, og norðaustur frá Ásláksstöðum er Hallandi, eða Nýibær, en undir því nafni gengur bærinn nú. Þá er Sjónarhóll, sem er innsti bærinn í Ásláksstaðahverfi.” Árið 1703 (Jarðabókin) segir: „Túnunum segir bóndinn að spilli tjörn, sem þar liggur innan mitt í túninu og líka nokkur önnur tjörn minni, ogso Fornmannaleiðiinnangarðs, líka gjörir sjáfarángur nokurt mein, þó ei til stórbaga á heimajörðinni. Engjar eru öngvar. Útihagar um sumar og vetur í lakasta máta og nær öngvir nema fjaran.”
Helgi sagði reyndar tvö fornmannaleiði vera við Hlöðunes. Guðrún Kristmannssdóttir, dóttir Kristmanns Runólfssonar, bónda í Hlöðunesi, sýndi honum þau. Það austara er vestast í túni Halldórsstaða, austan í lágum grónum hól. Á því er lítill steinn. Helgi sagði Kristmann hafi eitt sinn þurft að bregða sér til Reykjavíkur, en þá hefðu komið menn að bænum til að plægja. Hann hafði gleymt að segja þeim frá leiðinu svo þeir plægðu yfir það. Þetta hefði Kristmanni leiðst mjög.
 Helgi sagði Guðrúnu og hafa sýnt honum annað leiði, vestar, norðan undir bæjarhólnum. Þar ætti að vera svonefnt Hlöðversleiði, en líklega hefði Hlöðunes heitið Hlöðversnes fyrrum. Á því er einnig lítill steinn. Leiðið er á tiltölulega sléttu túni og rétt sést móta fyrir því, óreglulega. Mörkin á Halldórsstöðum og Hlöðunesi voru þarna við hlaðinn garð, sem enn sést að hluta. Kom garðurinn þar rétt austan við brunninn. Svonefnt Hlöðversleiði er því innan garðs á Hlöðunesi, en hitt leiðið, austara, er í Halldórsstaðatúni.
Grunnurinn af Hlöðuneshúsinu sést á bæjarhólnum, hlaðinn kjallari.
Þá var skoðað svæðið í og kringum Ásláksstaði. Hús og bæir við Ásláksstaði eru Hlöðversleiðieftirfarandi: Syðst Sjónarhóll, yfirgefið tveggja hæða steinhús með risi. Þá Ásláksstaðir vestar. [Sjónarhóll stendur í Innri-Ásláksstaðalendi, sem nú eru rústir fast við Sjónarhólshúsið, en Ytri-Ásláksstaðir, eru þar sem Helgi Davíðsson var alinn upp – SG]. Ásláksstaðahúsið var byggt árið 1884, að sögn Helga, upp úr timbri, sem barst á land með Jamestown er skipið strandaði utan við Hafnir 1881. Síðar var járnið rifið utan af húsinu og það forskallað. Nú væri húsið svo fúið að það mætti heita ónýtt. Norðan við Áláksstaði var Nýibær (rústir), en hann hét áður Hallandi. Vestan við Ásláksstaði væri ryðbrunnið bárujárnshús, Móakot. Stundum er talað um Ytri-Ásláksstaði.
Eitt hið merkilegasta við Ásláksstaði er fornar heimildir um legstað. Þar segir (FF,239): “Firir utan þennan Hól eru hér i Sókninni 3 önnur Fornmannaleidi; þar af, 2 á Asláksstödum sitt yfir hverju fyrstu Hióna þar / ad sagt er/ 1 á Hlödunesi, Öll þessi snúa ad Höfudgafli i Midmundastad, 9 álma ad lengd hvert, og nær 2 al: breid ofan, eru grasi vaxinn, svo sem þau eru í midjum Túnum, innan smárra gamallra Gyrdínga sem adeins siást hinar sydurstu Rústir af, og eru enn nú kölluð Korngerði, líkleg til at hafa á fyrri ölldum til Kornfædis öfð, þó nú séu þýfd orðin; hid minsta þeirra er 49 fadar hit stærsta herum 250.” Sama lýsing er tekin upp í örnefnalýsingu fyrir Ásláksstaði. Viðbótin þar er eftirfarandi: „Tvö aflöng leiði voru í túni Lárusar [sennilega í landi Sjónarhóls] niður undir Hallanda (nú Nýjabæ). Það voru talin leiði fornmanna, en ekki heyrði Vilborg getið um nöfn þeirra. Hún segir þó, að þar kunni að liggja Áslákur og Ásláka …”
Helgi sagðist kannast við leiði þetta, eða öllu helstur þessi, því þarna mótaði fyrir tveimur leiðum samföstum. Um væri að ræða upphækkun í Ásláksstaðatúninu á smá parti. Hún sæist þegar staðið væri á hlaðinu á Ásláksstöðum með stefnu á vitann (Atlagerðistangavita) í norðvestri. Það hafi jafnan verið trú þeirra, sem til þekktu, að þarna munu hafa verið leiði. Helgi sagðist einhverju sinni hafa rekið niður járntein í upphækkunina og þá komið niður á steina.

Móakot

Móakot – Hjónaleiði fremst.

Í örnefnalýsingu er flötin þarna nefnd Hofmannaflöt sem styður söguna um Hjónaleiðið. Helgi sagði girðingu hafa verið þarna skammt frá milli tjarnarinnar (Hallandatjarnar) og leiðisins. Sunnan liggur kúagatan gamla frá bæ yfir að Fagurkoti. Enn sést móta fyrir henni. Einnig tóftum HelgiFagurkots sunnan leiðisins. Um var að ræða hjáleigu frá Ásláksstöðum. Samnefndur hóll er skammt suðvestar (með þúfu á). Hesthústóft er austan við bæjarhúsið. Rafn Símonarson fæddist þarna, en það mun hafa verið í kringum 1904. Norðvestan við fagurkot er myndarlegur hóll Álhóll (Álfhóll segja sumir). Álasund er neðan hans og þangað gekk áll, að sögn Helga. Öskuhóll er skammt sunnan við leiðið. Þangað var öskunni frá Ásláksstöðum hent. Ef vel er að gáð má sjá öskuna í hólnum. Enn sunnar, sunnan vegarins, er hlaðin varða á hól, svonefnt Kánabyrgi.
Heimild er til um Móakotsbrunn. Brunnurinn er rétt austan við húsið. Hann er fallega hlaðinn og mjög heillegur. Einnig er til heimild um Hallandabrunn: „Hallandabrunnur var framan bæjar í túninu.” segir í örnefnaskrá, hét líka Nýjabæjarbrunnur því Hallandi heitir því nafni núna.“ Brunnurinn sést enn.
Um Ásláksstaðabrunn segir í heimildum (örnefnalýsing fyrir Ásláksstaðahverfið): “Ásláksstaðir eiga þrjú túnstykki í Norðurtúni. Túnstykki niður við Tjörn, túnstykki niður að Vesturkofa og túnstykki niður á Ásláksstaðabrunni.” Brunnurinn er norðvestan við húsið, fallega hlaðinn.
Loks má nefna Sjónarhólsbrunn, en hans er reyndar ekki getið í örnefnalýsingum. Brunnur er þó skammt sunnan við húsið, lokaður með bárujárni.
Í örnefnaskrám er og heimild um huldufólksbústað. Þar segir: “Huldukona var sögð vera í hól rétt sunnan við húsið á Sjónarhóli. Var steinn fremst í hólnum, og voru þar taldar dyr. Lárus hómópati hjálpaði huldukonunni eitt sinn við barnsfæðingu.”Â
HelgiHelgi kannaðist ekki við þennan hól. Allir hólar sunnan við Sjónarhól væri meira og minna grónir, á steina. Þó er einn hóll sunnan við túnið er snýr steinum mót norðri einna líklegastur. Einnig hóll sunnan túnsins, rétt sunnan þjóðvegarins. Þessir hólar eru þó hvorugir „rétt sunnan við húsið“.
Í lýsingum er getið um Rauðstekk: “Fyrir innan Arnarbælishólana er Rauðstekkur, og var grjóthrúga uppi á hólnum, sem hét Rauðhóll. Rauðstekkur eru stórþýfðir móar eða holt, sem snúa í norðvestur. Komið er að Rauðstekk, ef stefnt er þvert af gamla veginum frá grútarbræðslunni aðeins vestan við Deili og gengið 7-8 mínútur.“ Fram kemur í lýsingunni að ekki er vitað um mannvirki þar sem þessi Rauðstekkur á að vera. Hins vegar segir í bók SG (Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi -1995) að “Rauðstekkur er nafn á hól eða grjóthleðslum sem standa rétt suðvestan við Krummhól og er um 8 mín. gangur þangað frá Vatnshólum og Gamlaveg með stefnu á Keili. Í Rauðstekk var farið með kýrnar frá Sjónarhóli í tíð Magnúsar Jónssonar (1881-1963). Ekki er ljóst af hverju nafnið er dregið.” FERLIR hefur áður komið við í Rauðstekk og fjallað um hann í annarri lýsingu þar sem rústunum er lýst.
Ætlunin er að ganga fljótlega með Helga Davíðssyni um svæðið og gaumgæfa fleira er merkilegt getur talist.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Sveinbjörn Rafnsson (Frásögur af fornaldarleifum, bls.239).
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Helgi Davíðsson.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir.