Hof – Jón Jónsson
“Í tveimur íslenskum fornsögum, – Eyrbyggju og Kjalnesingasögu, – eru all-ítarlegar lýsingar á hofum hér á landi í fornöld, og viljum vér taka þær hér upp, þótt þær ef til vill séu ekki sem áreiðanlegastar í alla staði, því ólíklegt er, að eigi sé eitthvað á þeim að græða.
Eyrbyggja lýsir hofi Þórólfs Mostrarskeggs á þessa leið: “Þar lét hann (c: Þórólfur) reisa hof, ok var þat mikit hús; váru dyrr á hliðvegginum ok nær öðrum endanum; þar fyrir innan stóðu öndugissúlurnar, ok váru þar í naglar; þeir hétu reginnaglar. Þar fyrir innan var friðstaðr mikill. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum, ok stóð þar stalli á miðju gólfi sem altari, ok lá þar á hringr einn mótlauss, tvítögeyringr, ok skyldi þar at sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallinum skyldi ok standa hleytbolli, og þar í hleytteinn sem stökkull væri, ok er hlaut var kallat; þat var þess konar blóð, er sæfð váru þau kvikendi, er goðunum var fórnat. Umhverfis stallann var goðunum skipat í afhúsinu”.
Lýsingin í Kjalnesingasögu er mjög svipuð, enda virðist hún að nokkru leyti tekin upp eftir Eyrbyggju, þótt ýmsu sé þar við bætt, sem ef til vill er ekki sem áreiðanlegast. Hún er svo: “Hann (c: Þorgrímur goði) var blótmaðr mikill; lét hann reisa hof mikit í túni sínu; þat var hundrað fóta langt, en sextugt á breidd; þar skyldu allir menn hoftoll leggja. Þórr var þar mest tignaðr; þar var gert af innar kringlótt svá sem húfa væri; þat var alt tjaldat og gluggat. Þar stóð þórr í miðju ok önnur goð á tvær hendr; frammi fyrir þar stóð stallr með miklum hagleik gerr og þiljaðr ofn með járni; þat kölluðu þeir vígðan eld. Á þeim stalli skyldi liggja hringr mikill af slifri gerr; hann skyldi hofgoði hafa á hendi til allra mannfunda; þar at skyldu allir eiða sverja um kenslumál öll. Á þeim stalli skyldi ok standa bolli af kopar mikill; þar í skyldi láta blóð þat alt, er af því fé yrði, er Þór var gefit, eðr mönnum. Þetta kölluðu þeir hlaut ok hlautbolla. Hlautinu skyldi dreifa yfir menn ok fé, en fé þat, sem þar var gefit til, skyldi hafa til mannfagnaðar þá er blótveislur eru hafðar. En mönnum, er þeir blótuðu, skyldi steypa ofan í fen þat, er úti var hjá dyrunum; þat kölluðu þeir blótkeldu”.
Ef óhætt væri að leggja trúnað á allt það, er í þessum lýsingum stendur, þá hefðu menn hér með fengið nokkurn veginn ljósa hugmynd um hn fornu hof og alla tilhögun á þeim. En með því að sterkur grunur leikur á því, að lýsingarnar, að minnsta kosti hin síðarnefnda, séu eigi sem áreiðanlegastar, þá er að svo stöddu eigi vert að byggja og mikið á þeim.
Er því ráð að víkja aftur að hinum fornu hoftóftum og athuga þær nokkuð nánar, ef ske kynni að komast mætti með samanburði að nokkurn veginn fastri niðurstöðu um, að hve miklu leyti beri að leggja trúnað á lýsingarnar…
Hoftóftin í Ljárskógum er 88 fet á lengd. Bálkur eða millum veggur mjög þykkur skiftir tóftinni í tvennt, aðalhús og afhús, og eru engar dyr ámilli. Aðalhúsið er 54 fet á lengd, en afhúsið 34. Afhúsið er hálf-kringlótt fyrir gafl og tóftin öll mjórri í þann endann, en breiðust fyrir gafl aðalhússins. Glöggar dyr eru á miðjum gafli á afhúsinu. Á aðalhúsinu eru dyrnar ekki eins glöggar, en virðast hafaverið á nyrðra hliðarvegg nær gaflinum. Í miðju afhúsinu fudust leifar af viðarkolaösku og hrosstönnum.
Þvert yfir hoftóftina á Lundi nær öðrum enda liggur bálkur þykkur og dyralaus, alveg eins og á Ljárskógatóftinni, og myndast við það aðalhús og afhús. Við eystra hliðvegg tóftarinnar sýnist vera útbygging út úr aðalhúsinu og er hún bogadregin eða sporöskjulöguð fyrir endann; sést móta fyrir dyrum milli hennar og aðalhússins. Glöggar dyr eru á enda aðalhússins og á austurhliðvegg afhússins nær gafli. Í aðalhúsinu er steinlegging eftir miðju gólfi, sem þó eigi nær alla leið inn að bálkinum, og er steinaröð þvert yfir tóftina þar sem steinleggingin endar að innanverðu. Steinleggingin er vel samanfeld af steinum sléttum að ofan og liggur jafnhátt hinu upprunalega gólfi, en til beggja hliða eru lagðar raðir af stærri steinum, sem miklu hærra ber á, og mynda þeir eins og upphækkaðar brúnir beggja vegn fram með steinlegginguni. Gólfið í útbyggingunni er steinlagt fram yfir miðju, en engin upphækkuð brún að framan. Í afhúsinu er engin steinlegging.
Í Freysneshofinu skiftir bálkur mjög þykur tóftinni í tvennt og er aðalhúsið 57 fet á lengd, en afhúsið 39, og er það kringlótt eða bogadregið fyrir gafl. Á hliðvegg afhússins eru dyr fast við bálkinn, en inni í afhúsinu eru 4 þúfur, ein hringmynduð inni í sveignum eða bogakryppunni, en 3 aflangar sín með hverjum vegg. Aðaltóftinni er aftur skift í tvennt með þvervegg og eru dyr á honum miðjum. Aðaldyrnar eru á austurhliðinni fast við gaflinn.
Bæði af stærð og öðrum ummerkjum þykir mega ráða, að þessi 3 hof hafi verið höfuðhof. Vér höfum áður getið þess, að öllum hafi verið heimilt að reisa hof á bæ sínum fyrir sjálfa sig og heimili sitt, og talið líkindi til, að svo hafi oft verið gert. Á seinni árum hafa leifar fundist af slíkum heimilishofum, og má þar helzt til nefna blóthúsið á Þyrli og hörginn á Hörgslandi í Mývatnssveit. Er þá réttast að taka þau með til samanburðar, ef ske kynni að eitthvað mætti á þeim græða.
Blóthúsið á Þyrli, sem kunnugt er úr Harðarsögu, er 57 fet á lengd með breiðum þvervegg eins og hin hofin; er aðalhúsið 40 fet, en afhúsið 17. Á tóftinni er sporöskjulag til beggja enda og eru á henni tvennar dyr, aðrar á aðalhúsinu nær endanum og hinar á afhúsinu út við gafinn. Þessi tóft er einkennileg aðþví leytinu til, að fram með millumveggnum eða þverveggnum er grjótbálkur þeim megin, er inn að afhúsinu veit, og að gólfið í afhúsinu er fullri alin lægra en gólfið í aðalhúsinu og allt steinlagt. Annar grjótbálkur gengur frá innra vegg afhússins í stefnu til dyranna og er hann um 1 al. á hæð. Lítill grjótpallur eða hrúga er við miðjan gaflinn í afhúsinu inni í sjálfri bugðunni. Fannst þar aska rétt við gaflinn og á öðrum stað í afhúsinu aska og hrosstennur. Gólfið er nokkurn veginn slétt og vel steinlagt. Á þyrli var einnig sýndur steinn, sem átti að vera kominn úr blóthúsinu, og var kallaður blótsteinn. Hann er úr blágrýti, 1 ¼ al. á lengd, ¾ al. á breidd og ½ al. á þykkt. Niður í hann er klappaður bolli.
Fyrir nokkurm árum fannst á Hörgslandi í Mývatnssveit tóftarleif, sem öllum ber saman um að eigi geti annað verið en hinn forni hörgur, sem bærinn dregur nafn sitt af. Menn hafa almennt ætlað að hörgar hafi verið nokkurs konar ölturu eða blótstallar undir berum himni, en eftir þessu að dæma hafa hörgar einnig getað táknað hús, sem höfð voru til blóta, enda benda ýmsir staðir í fornritunum á, að svo hafi stundum verið. Tóftin reyndist að utanmáli c. 42 fet á lengd og 32-33 á breidd. Grjótbálkur mikill skipti tóftinni í tvennt og myndaði eins og aðalhús og afhús, og var afhúsið 1/3 af allri tóftinni. Tvennt var einkennilegt við þennan grjótbálk. Annað það, að hann tók eigi alveg yfir breidd hússins, heldur var talsvert bil milli hans og veggjarins öðru megin íhúsinu, og hitt það, að hann virðist aldrei hafa verið hærri en hann nú er. Í miðjum þessum bálki stóðu 4 steinar og ofan á þeim lá flöt stór hella auðsjáanlega eldborin; var klöppuð í hana laut eða skál. Í hlóðunum undir hellunni fannst lítill hnullungssteinn og var klappaður í hann bolli mjög reglulegur. Á bálkinum til beggja handa viðheluna voru steinar sótugir og eldbornir. Í afhúsinu fundust tvær steinaraðir, er virtust nokkurn veginn reglulegar, önnur ytri og hinn innri, og virðist ýmislegt benda á, að steinar þessir hafi verið undirstöðusteinar undir súlum. Ef svo skyldi vera, hefir þakið í afhúsinu hvílt á 4 súlnaröðum, 2 hvoru megin. Grjótið í bálkinum var blandað kolaögnum, ösku og hálfbrenndum einaleifum. Á gólfinu fundust brýni, kljásteinar, hrosstennur o.fl. Allt virðist því benda eindregið í þá áttina, að húsið hafi verið nota til blóta.
Vér ætlum nú að hér séu fengin nægileg gögn til samanburðar við hoflýsingar þær, sem áður er getið, svo að unt sé að gera sér nokkurn veginn ljósa grein fyrir tilhögun og sniði hofanna hér á landi ífornöld. Frásagan um tvísjiftingu hofanna í aðalhús og afhús reynist á fullum rökum buggð, og virðist alls eigi ulla til falið að líkja afhúsinu við sönghús eða kór í kirkjum. Einnig bera hoftóftirnar það með sér, að afhúsin hafa stundum verið kringlótt eða bogadregin fyrir endann (Ljárskógarhofið, Freysneshofið), og hefir þá þakið upp af hlotið að vera sem hvelfing eða húfa, eins og segir í Kjalnesingasögu. Goðalíkneskin hafa sjálfsagt staðið inni í afhúsinu á stöllum, eins og segir í lýsingununum, og blótstalli eða altari verið þar einnig (sbr. þúfurnar í afhúsinu í Freysneshofinu og grjótstallana í blóthúsinu á Þyrli). Að hofin hafi verið tjölduð, einkum þó afhúsin, eins og segir í Kjalnesingasögu, teljum vér eigi aðeins hugsanlegt, heldur jafnvel mjög sennilegt, eigi síst þar sem svo hagaði til, að súlnaraðir voru fram með veggjum, eins og líkindi er til að verið hafi í hörgnum á Hörgslandi.Â
Af fornsögunum sjáum vér, að það var algengur siður á Íslandi að tjalda skála og stofur á bæjum, og er þá ekkert sennilegra en að hofin, sjálfur helgidómur héraðsins eða ættarinnar, hafi verið tjöldum klædd. Það virðist meira að segja liggja næst að hugsa sér,að menn hafi lagt sérstaka áherzlu á að skreyta hofin sem mest og bezt, og er slíkt alkunnugt hjá öllum þjóðum veraldarinnar. Um einn af hinum merkustu landnámsmönnum, Ketilbjörn hinn gamla á Mosfelli, er það meir að segja sagt berum orðum, að hann hafi viljað láta slá þvertré af slifri í hofi því, er synir hans reistu, er en hann fékk því eigi ráðið, hafi hann ekið silfrinu á fjall og falið svo, að aldrei hefir fundist.
Blóthellurnar og blótbollarnir, sem fundist hafa í sumum hoftóftunum (t.d. á Þyrli og Hörgslandi), koma einnig heim við lýsingar, og þar sem viðarkolaaska og brunnið beinarusl hefir verið grafið uppúr tóftunum, þá sýnir það og sannar, aðþar hefir eldur verið kynntur og matreiðsla farið fram. Höfum vér þá við samanburðinn komist að þeirri niðurstöðu, að hoflýsingarnar í Eyrbyggju og Kjalnesingasögu séu réttar í öllum aðalatriðum. Hitt er annað mál, að lýsingin í Kjalnesingasögu er að ýmsu leyti ýkt og ósennileg.
Til samanburðar við blótsiðalýsinguna á þessum tveim stöðum, viljum vér taka hér upp kafla úr áreiðanlegu heimildarriti, Heimskringlu Snorra Sturlusonar, þar sem lýst er hofinu á Hlöðum og blótveizlum Sigurðar jarls. Þar segir svo: “Þat var forn siðr, þá er blót skyldi vera, at allir bændr skyldu þar koma, sem hof var, ok flytja þannig föng sín, þau er þeir skyldu hafa, meðan veizlan stóð. At veizlu þeirri skyldu allir menn öl eiga; en blóð þat alt, er þar kom af, þá var þat kallat hlaut, ok hlautbollar þat, er blóð þat stóð í, ok hlautteinar, þat var svá gert sem stöklar; með því skyldi rjóða stallana öllu saman ok svá veggi hofsins utan ok innan, ok svá stökkva á mennina; en slátr skyldi sjóða til mannfagnaðar. Eldar skyldu vera á miðju gólfi í hofinu ok þar katlar yfir, ok skyldi full um eld bera. En sá, er gerði veizluna ok höfðingi var, þá skyldi han signa fullit ok allan blótmatinn. Skyldi fyrst Óðins full; skyldi þat drekka til sigrs ok ríkis konungi sínum, en síðan Njarðar full ok Freys full til árs ok friðar. Þá var mörgum títt at drekka þar næst Bragafull. Menn drukku ok full frænda sinna, þeirra er göfgir höfðu verit, váru þat minni kölluð.
Svipað þessu hafa blótsiðirnir og blótveizlurnar á Íslandi vafalaust verið, því Ásatrúin með öllu sem henni laut var fornaldararfur Íslendinga, og í engu eru menn ófúsari á að breyta frá gamalli venju, en í trú og trúarsiðakreddum. Að langeldar hafi verið kynntir í hofum á Ísland alveg eins og í Noregi, virðist ljóst af hoftóftinni á Lundi, því steinleggingin eftir miðju gólfi í aðalhúsinu með upphækkaðri brún beggja vegna eftir endirlöngu getur varla verið annað en eldstæði. Það er og af fornsögunum að ráða, að öndvegi hafi verið í hofunum, því þat er getið um öndvegissúlur. Það getur því varla leikið neinn vafi á því, að blótveizlurnar hafa verið haldnar í sjálfum hofunum, í aðalhúsinu, og að menn hafi setið fram með veggjunum beggja vegna við langeldana. Hefir þá slátrið og ketið af fórnardýrunum verið soðið í kötlum yfir eldunum. Rannsóknirnar á Hörgslandi virðast þó bera það með sér, að sumstaðar hafi eldarnir verið kynntir ofan á þverbálkinum. Þar sem svo hefir til hagað hafa veizlugestirnir, er sátu í aðalhúsinu, getað séð allt það er fram fór í afhúsinu, og ef vér mættum nokkurs til geta, þá þætti oss líklegast, að þverveggirnir eða millumveggirnir í hofunum hafi aldrei náð upp úr, heldur aðeins verið þverbálkar. Með því fyrirkomulagi gátu allir horft á blótin, sem fóru fram í afhúsinu, en að öðrum kosti hefðu þeir eigi getað það, því óhugsandi er að allur sá mannfjöldi, er sótti til blótana, hafi komist fyrir í sjálfu afhúsinu.
Fornmenn héldu venjulega 3 höfuðblót á ári; haustblót, miðsvetrarblót eða jólablót og sumarblót.”
Heimild:
-Jón Jónsson, Gullöld Íslendinga – alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 131-140.