Hólmsberg – til norðurs

Stekkjarlág

Hólmsberg kallast það svæði sem í daglegu tali er kallað „Bergið.” Keflavíkurbjarg nefnist sá hluti þar sem bergveggurinn snýr að Keflavík.

Hólmsberg

Hólmsberg – brunnur.

Svæðið ofan við smábátahöfnina á sér mikla og langa sögu og kallast Grófin, hefur umhverfið breyst þar mikið á síðustu áratugum. Þar var bryggja áður fyrr, einnig var þar kennt sund þangað til að Sundhöllin var byggð, síðar var þar Dráttarbraut Keflavíkur. Við ofanverða Grófina eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins sem og hús Duusverlsunarinnar. Frá Grófinni liggja gamlar götur til byggðalaganna norðar og vestar
á Rosmhvalanesi.
Nauðsynlegt er að skoða Stóra Skúta en svo nefnist nokkuð stór hellir undir Háabergi, þar hefur verið komið fyrir grillaðstöðu sem þurfti að fjarlægja vegna skemmdaverka!
Síðan er genginn akveginn upp á Bergið sá kafli var kallaður Kartöflugarðarnir og stefnan tekin á Háaberg sem oft er nefnt Hekk eða Hekkið, vegna þess að þegar staðið er í Grófinni sýnist það vera afturendi á bát sem oft var kallað hekk.
Í vestur hlið Háabergs má sjá ummerki eftir mikla steinatöku sem fór þar fram á 19. öld þegar hlaðnir voru miklir grjótgarðar á athafnasvæði Duus.
Gengið er frá Háabergi að Stekkjarlág en svo nefnist lítil kvos áður en komið er út á Brenninýpu.

Hólmsberg

Hólmsberg – drykkjarsteinn.

Nafnið Stekkjarlág ber með sér að þar hafi verið stekkur og má sjá þar rústir, ýmislegt styður þá tilgátu því einstigi sem lá frá Grófinni upp eftir Kartöflugörðunum út á bjargið kallaðist Lambastígur og má ætla að það hafi verið lömb fjáreigenda í Keflavík, sem rekin voru eftir honum til yfirsetu í Stekkjarlág.
Í Stekkjarlág má finna stórt og fallega staðsett grjót sem nefnist Ræðustóll. Skammt ofan við það er drykkjarskál og fallega tilhöggvinn ferkantaður brunnur enn ofar.
Áfram er gengið út á Brenninýpu. Svæðið dregur nafn sitt af brennum sem voru kveiktar til þess að vísa skipum inn á Keflavíkina. Þegar haldið er frá Brenninýpu meðfram bergbrúninni er komið á svæði með sléttum klöppum sem halla í sjó fram, þetta klettanef nefnist Hellunef, þar fyrir utan eru Hellumið. Þegar komið er framhjá sléttu klöppunum tekur við lágt berg sem liggur að þröngum bás inn í bergið, sem heitir Kaggabás. Þaðan er stutt ganga að Helguvík en þar hafa farið fram miklir efnisflutningar og eftir stendur ein dýpsta, en tæpast glæsilegasta höfn landsins.
Landamerki Keflavíkur og Garðs eru á Hellisgnýpu þar sem vitinn stendur á berginu skammt norðan Helguvíkur.
Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Stekkjarlág

Stekkjarlág.