Holukot – Stóra-Botnssel – Litla-Botnssel
Meginmarkmiðið var að leita uppi selstöður frá Litla-Botni og Stóra-Botni í Hvalfirði og skoða fornbýlið Holukot.
FERLIR hafði áður leitað eftir upplýsingum hjá fornleifaskráningaraðila svæðisins, en engin svör bárust, enda varla til þess að ætlast því skráningin sem slík virtist einstaklega fáfrómleg.
Upplýsingar fengust hjá Steinþóri Jónssyni (fæddur á Stóra-Botni og bjó þar til 1982 er búskapur lagðist af) um selstöðurnar í dalnum. Hann hafði reyndar ekki séð þær báðar þrátt fyrir að hafa margleitað svæðið við smalamennsku. Fyrra selið sagði hann þó vera „vestast og ofarlega í Selflóa við Selá undir Selfjalli og hið síðara við Sellæk uppi á fjalli, allnokkru austar, innan girðingar“.
Ætlunin var m.a. að rekja Tæpastíg frá Litla-Botni, að Litla-Botnsseli. Hann ku hafa legið upp um stallana ofan bæjarins og upp með Selánni, sagður vel greinilegur.
Undir Skúta í Skútalæk ofan Litla-Botns, virðist vera tóft á falllegum stað ofan og neðan við háa fossa. Þar er og lítið gerði. Varða er ofan við hana. Frá henni liggur selstígurinn upp í selið – eins og ávallt gerist upp í allar aðrar selstöður.
Ætlunin var að reyna að rekja selsstíginn svo sem mögulegt var. Örnefnin bentu sterklega til þess að þarna hafi verið selstaða.
Áður en haldið var upp Tæpastíg millum Selfjalls og Háfells var gengið suður yfir Botnsá nokkru suðvestan við Litla-Botn, að tóftum Holukots. Í fornleifaskráningu fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp er getið um minjarnar.
Þar segir: „Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Holukot, öðru nafni í Holum, hefur verið að fornu bygt ból að almenningstali; eru girðíngaleifar því til vitnis. Enginn minnist nær það hafi í auðn lagst, hitt vita menn, að Stóribotn hefur lángt yfir hundrað ár haft og brúkað allar landsnytjar…“ „Nokkur hluti af fjallinu hér fyrir utan er nefnt Holufjall. Þar niðri á láglendinu er gamalt eyðibýli, komið í eyði fyrir 1600, og hefur heitið Holukot“, segir í örnefnaskrá.
Sunnan Stóru-Botnsár, um 930 m austur af Hlaðhamri og um 380 m suðsuðaustur af aflagðri steyptri brú yfir Botnsá, er gróðursetningarreitur grenitrjáa. Slíkir reitir eru tveir sunnan ár, í hlíðarrótum Múlafjalls. Sá reitur sem hér er til umræðu er heldur neðar (norðar) og austar en hinn. Tóftirnar eru neðst og austast í þessum neðri gróðurreit. Á milli Botnsár og brattrar hlíðar Múlafjalls, sem snýr mót norðri, er ekki mikið undirlendi. Neðst (nyrst) við ána er land slétt og mýrlent á ytri (vestari) hluta flatlendisins og talsverður birkiskógur. Eftir því sem ofar dregur í hlíðina verður gróður þurrari og strjálli. Þar sem tóftirnar eru, á milli hlíðar og mýrar, hefur verið birkilaust rjóður, um 100 m í þvermál. Í seinni tíð hefur verið plantað grenitrjám í rjóðrið, m.a. ofan í tóftirnar.
Láréttur stallur er í hlíðina þar sem Holukot er, um 20 m N-S (inn í hlíðina) og um 40 m A-V. Rjóðrið er allt stórþýft og grasi- og sinugróið. Ekki er eiginlega tóftarlögun að sjá en á einum stað er samhangandi þúfnaklasi sem myndar – L -, sennilega garðlag, 2 m N-S og 3 m A-V og er mesta hæð um 0,9 m. Skammt þar frá sér í nokkuð stóran stein standa upp úr sverðinum. Fyrir neðan fyrrnefndan stall má greina hugsanlega upphleðslu. Um 30 m austan við stærstu þúfurnar rennur lítill lækur en þeir eru sjaldséðir í hlíðum Múlafjalls þótt mýrlendi sé nokkuð víða. Stika hefur verið rekin niður á minjastaðnum. Uppgefin lengd og breidd svæðis er harla ónákvæm því bæði er að hleðslur eru mjög sokknar í jörðu og eins er þéttur greniskógur á staðnum.“
Og þá var haldið af stað upp Háafell áleiðis í Selflóa. Ofan Litla-Botns var komið að grónu gerði. Sáust þar hleðslur og tóft sunnan við þær og innan bogadregins garðs. Skammt ofar var ílöng tóft (5x10m), greinilega mjög gömul. Hleðslur voru grónar. Þverhleðsla markaði 1/3 rýmisins. Þarna gæti hafa verið hof til forna. Ofar í hlíðinni er gróið svæði er gætu falið fornar tóftir.
Þegar komið var upp á Öxlina beygði stígurinn upp hlíðina. Á þeim kafla er hann harla óljós vegna skriða og vatns. Ofar sést hann hins vegar mjög vel.
Í fornleifaskráningunni segir m.a. um Tæpastíg: „Selstöðu á jörðin í sínu eigin landi, er hún lángt frá, og sá vegur af, sem til selsins lá, so nú má ófært kalla á háskalegum gljúfurs barmi, so nú er sá kostur frá jörðunni.“, segir í jarðabók Árna og Páls. „Milli Háafells og Selfjalls er Kiðadalur, þar sem Stekkjará rennur eftir í gili. Innan við miðjan dal rennur Stekkjaráin fast að Háafellinu. Þar lá engjavegurinn efst á gilsbrúninni og var kölluð Tæpugata.“, segir í örnefnaskrá.
Tæpugata er 1,5 km norður af bæ og fast austan við Stekkjargilið, þar sem það er næst Háafelli.
Vesturhlið Háafells er brött niður að Stekkjará þótt sumsstaðar séu nokkuð sléttir bollar á milli hlíðar og gils. Hlíðin er hálfgróinn melur, mest mosi sem er rofinn á köflum. Leiðin, nokkuð greinilegur slóði á köflum en hverfur stundum, liggur upp á klettamúla alveg við gilið (austan við á) sem er þverhníptur.
Leiðin liggur þó ekki vestast á múlanum, ekki fast við hengiflugið, en hlýtur þó að vera ónotalegt að fara með klyfjað hross eftir götunni þótt gangandi manni standi ekki stuggur af leiðinni. Á um 40 m kafla, heiman við múlann, hefur gatan spillst þar sem runnið hefur úr hlíðinni. Þær engjar sem talað er um í örnefnaskrá eru talsvert norður í heiði, sunnan og vestan við Krókatjarnir en þær eru rétt rúman 4,5 km norðnorðaustur af bæ.“
Áberandi skástígur er ofan við Skútalæk. Ofar er há varða. Enn ofar (t.h.) er varða á hrygg. Allt eru þetta vísbendingar um Litla-Botnssel. Þrátt fyrir það var ákveðið að leita alla flóana þarna efra – og þeir eru sko margir og langir.
Í örnefnalýsingu fyrir Litla-Botn er getið um eftirfarandi örnefni: Selá, Selfjall, Selfjallsdrög, Selfjallsenni, Selfjallsflói, Selfjallshali, Selfjallsnípa, Selflói og Selgilsdrög. Þá segir í lýsingunni um svæðið efst við Selána: “Hæðirnar sunnan Sóleyjarflóa og að Skútalæk heita Hallbjarnarköst. Austan þeirra eru tvö flóasund samliggjandi, mosahæð skilur þau í sundur. Það vestra heitir Selflói. Efst í honum eru rústir af seli. Sér þar greinilega fyrir tveimur kofarústum og smágerði. Upp af rústunum er laut, er nær næstum að Sóleyjarflóa. Norður af Selfjallinu heyrði ég talað um, að hefði verið annað sel, en ekki veit ég, hvar það var, og sér þess nú engin merki.”
Þá segir jafnframt í lýsingunni, sem Jón Þorkelsson skráði: „Dalurinn milli Selfjalls og Grjóthlíðar vestan Brunnár heitir Brunnárdalur, nær hann frá Útstöllum að Brunnárbotnum. Brunná kemur úr Brunnártjörn, rennur fyrst um sléttlendi, en móts við norðurendann á Selfjalli – kallaður Selfjallshali – hefur áin grafið allmikið gljúfur, þar sem hún rennur ofan í Brunnárdalinn. Það heitir Brunnárgljúfur. Frá Selfjallshala liggur hæðarbrún vestan í há-Selfjalli, kallað Langakast, nær það alla leið að Skorningi sunnan í há-Selfjalli. Milli Selfjalls og Digravörðuhryggs (svo í hdr.) er Selfjallsflói og austar Selgilsdrög, en þar á Stekkjará upptök sín. Fyrir ofan Innstallana vestan Stekkjarár, móts við Tæpugötu, er klapparhnúkur, sem heitir Kiðadalshnúkur.
Norður af Brunnártjörn eru Fálkagilstjarnir á mörkum Litla-Botns og Fitja. Austan þessara tjarna er allhár melhryggur, víða mosavaxinn, sem heitir Digravörðuhryggur, þar sem hann er hæstur, eru tvær vörður, kallast þær Digravörður (svo í hdr.). Austan við hrygginn eru tvær tjarnir, (Stóra-) Krókatjörn, sem Litla-Botnsá kemur úr – út í hana ganga tvö nes, sem næstum skera í hana sundur – og sunnar Djúpatjörn, sem lækur rennur úr í Krókatjörn. Heyjað var með þessum læk, svo og í flóanum sunnan og vestan við Krókatjörn.
Neðarlega, austan við Digravörðuhrygg, er hvilft í heiðina, sem heitir Sóleyjarflói. Mikið er af holtasóley vestan og ofan við flóann, en norður af honum er holt, sem heitir Sóleyjarhæð. Lækur rennur úr Sóleyjarflóa niður í Selgilsdrög og í Stekkjará, sem heitir Friðfinnsskurður.“
Annars heita örnefnin ofan við Selfjall eftirfarandi: „Selfjall – ofan þess Bunnártjörn og enn ofar Fálkagilsgjarnir. Austar, mitt á milli, er Einstakatjörn. Krókatjarnir eru norðaustar og Skúlagilstjörn norðan hennar. Úr þeim kemur Litla-Bornsá. Selá kemur úr Selflóa. Í hana rennur Krókalækur úr Svartakrók. Austar er Háafell og Víðhamrafjall austar, áður en kemur að Hvalfelli. Þar á millum fellur Botnsá.“
Þegar komið var upp og víðfeðmið barið augum var fáum farið að lítast á blikuna. En ekki varð aftur snúið. Verkefnið var jú að finna selstöðurnar. Að vísu var hér komið út fyrir Landnám Ingólfs, en þar sem bæirnir eru á mörkunum var þrátt fyrir það ákveðið að freysta þess að leita selstöðurnar uppi.
Þegar FERLIR gekk fyrir nokkru til austurs upp með Botnsánni áleiðis að Hvalvatni var gengið yfir Glymsflóann. Þegar gengið var yfir Sellækinn við girðingu, sem þar er, var komið að kargaþýfi ofan við þar sem lækurinn kemur í ána. Þarna virtust vera tættur, en þær voru ekki gaumgæfðar sérstaklega í þeirri ferð. Steinþór Jónsson í Stóra-Botni sagðist aðspurður einungis kannast við tóftir sels frá Litla-Botni „uppi á fjalli, austan Selár“. Áður hafði verið gengið um Botnsdal og minjar skoðaðar. En þegar upp var komið var erfitt að ákveða hvar skyldi bera niður svo helst skyldi – hver flóinn upp og út af öðrum, sem fyrr sagði, og erfitt að rekja þá vegna þess að hvarvetna báru mosavaxnar klapparhæðir á milli.
Í fornleifaskráning-unni fyrir Hvalfjarðarstrandar-hrepp árið 2003 er m.a. fjallað selstöðuna frá Litla-Botni: „Selflói gæti ýmist verið töluvert í suðvestur af Krókatjörnum eða í austnorðaustur af tjörnunum, eftir því hvernig örnefnaskrá er skilin. Sumarið 2003 var leitað að selrústum sem ekki fundust. Krókatjarnir eru um 4,5 km norðnorðaustur af bæ. Heiðaland, mosi, grjótholt á milli og mýrarflóar. Eins og fyrr segir, fundust engar tóftir við fornleifaskráningu sumarið 2003.
Svæðið í kringum og sunnan við Krókatjarnir og Einstökutjörn er töluvert gróið á milli mel- og klapparholta. Mýrarflóar eru víða með ásum og gott
með vatn. Á því svæði var leitað en á hinu svæðinu, austnorðaustan Krókatjarna, sem er vel gróið á kafla, var ekki leitað. Ástæðan er að Digruvörðuhryggur, sem er eitt helsta kennileitið samkvæmt örnefnaskrá, er töluvert norðan við hreppamörk.“
Litla-Botnssel fannst inn í flóa sem Skútalækur kemur úr. Líklegt má telja að örnefni hafi eitthvað skolast til þarna í heiðinni, enda mikil bleyta hvarvetna. Sóleyjarflói er austan við Selflóa, en Krókatjarnir allnokkru norðaustar.
Tveir flóar eru vestan við selflóa og er Selfjallsflói vestastur. Flóinn á milli Selfjallsflóa og Selflóa hefur án efa verið heyjaður fyrrum, enda benda ummerki til þess. Götur eru þarna svo til um alla heiði.
Selið er þrjú rými; tvö samliggjandi rými (240x240cm) og það þriðja fram til og til hliðar (litlu minna –sennilega eldhúsið). Hlaðið gerði er vestan við selstöðuna, hleðslur sjást vel, en eru grónar líkt og selhúsin.
Hæð veggja er um 40cm og má glögglega enn sjá innganga.
Vörðurnar í heiðinni utan við flóana benda til þess að hafa verið leiðarmerki þeirra er dvöldust í selinu og heyjuðu þarna uppi í flóunum.
Þá var haldið drjúga vegarlengd áleiðis yfir að Sellæk í leit að Stóra-Botnsseli – yfir flóa og hryggi. Í Jarðabók Árna Magnússonar segir: „Selstöður á jörðin lángt upp á fjalli erfiðar, þar sem heita Glimseyrar og Hrísháls.“ Í örnefnaskrá kemur fram: „Selrústirnar við Sellæk eru efst í oddanum, þar sem Sellækur rennur í Botnsá að austanverðu við lækinn og sjást vel enn. Ekki er mér kunnugt, hvenær síðast var þar haft í seli.“, segir í örnefnaskrá.
Í fornleifaskráningunni segir: „Um 600 m austan við Sellæk og rétt vestan við ónefndan lækjarfarveg er tóft. Farvegirnir tveir mynda einskonar odda sem mjókkar til norðurs. Tóftin er ofarlega í þessum odda. Slétta 3 km norðaustur af bæ. Gróið svæði, mikið til mosi og gras. Svæðið er harla slétt en nokkuð grýtt. Lítið annað að er sjá en ílanga dokk, um 6,5 m A-V og um 5 m N-S. Dokkin er um 0,5 m djúp. Vegghleðslur mjög ógreinilegar en þó glittir í nokkra steina upp úr sverðinum. Op er í vestur. Hugsanlega hafa verið 2 hólf því bálkur er í miðju, N-S, en er þó ekki mjög greinilegur.“
Þegar FERLIR kom yfir að Sellæk var gengið svo til beint á Stóra-Botnssel. Það er um 100-200 metra suðvestan við framangreinda lýsingu á meintu seli. Í selinu er eitt meginrými og snýr gafli mót austri. Veggir eru grónir. Svo virðist sem selhúsið hafi verið byggt upp úr eldri selstöðu því það virðist yngra. Ekki mótar fyrir opum á rýmum norðan við selhúsið. Hæð veggja er um 1.0m. Þaðan er frábært útsýni inn með norðanverðu Hvalvatni. Selstígurinn var rakinn til baka niður að Stóra-Botni.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Steinþór Jónsson frá Stóra-Botni.
-Fonrleifaskráning í Hvalfjarðarstrandarhreppi 2003.
-Örnefnalýsingar fyrir Stóra-Botn og Litla-Botn.