Ætlunin var að ganga frá Stóra-Botni upp með Viðhamrafjalli og fylgja síðan Botnsánni ofan við Glym að Sellæk.
Þar við mótin á að hafa verið selstaða frá Stóra-Botni. Innar er Breiðifoss þar sem áin rennur með norðanverður Hvalfelli (848 m.y.s.).
Í bakaleiðinni var ætlunin að skoða Þvottahelli í Glymsgljúfrinu, undir hæsta fossi landsins, 198 m hár. Við Glym á Þorsteinn Gíslason að hafa ort kvæði sitt um Botnsdal.
Nafn fossins kemur af þjóðsögu er segir að álfkona hafi breytt manni sem sveik hana í tryggðum í hvalinn Rauðhöfða. Þá hafi Rauðhöfði tekið að granda bátum í Faxaflóa. Í Hvalfirði fórust með einum bátnum tveir synir prestsins í Saurbæ. Þá hafi presturinn, sem orðinn var gamall og blindur, gengið niður að sjávarmáli og tyllt staf sínum í hafið. Rauðhöfði kom syndandi og teymdi presturinn hann upp eftir Botnsá. Þegar komið var í gljúfrið þar sem fossinn dettur hafi verið svo þröngt að jörðin hafi hrist og drunur hljómað, og af því dregur Glymur nafn sitt. Rauðhöfði endaði í Hvalvatni, sem er upptök Botnsár er sagt að hann hafi sprungið af áreynslunni.
Í Morgunblaðinu árið 1967 er grein um Hvalfell og nágrenni eftir Gest Guðfinsson: “Hvalfell í Botnsdal er tiltölulega ungt fjalL Sköpunarsögu landsins hefur verið alllangt komið, þegar það varð til. Þyrillinn og Múlafjallið eru t. d. bæði eldri, sama er að segja um Botnsdalinn, sem áður virðist hafa náð miklu lengra til norðausturs heldur en nú. Við tilkomu þessa fjalls hafa orðið miklar landslagsbreytingar á þessum slóðum, sem hverjum náttúruskoðara mundi þykja nokkurs um vert að kynnast. Í fyrsta lagi hefur myndazt stöðuvatn í kvosinni ofan við fellið, sem til skamms tíma hafði það m. a. sér til ágætis að vera dýpsta vatn landsins eða þangað til Öskjuvatn varð til upp úr 1875. Í öðru lagi hefur orðið þarna til foss í ánni, sem fellur úr vatninu, hæsti foss á Islandi, og er það að vísu nokkuð til að státa af. Í þriðja lagi er fjallið hinn ákjósanlegasti útsýnisstaður, ber enda allmiklu hærra en nágrannafjöllin, Múlafjallið og Þyrillinn. Öll þessi umsköpun hefur verið um garð gengin löngu áður en Íslandsbyggð hófst. Engar sögur fara þó af fjallinu á fyrstu öldum Islandsbyggðar og er þess hvergi getið í landnámssögunni sérstaklega, enda þótt minnzt sé á Hvalfjörð og Botnsdal.
Líklega dregur Hvalfell nafn af lögun sinni, minnir á hval. Aftur á móti er að finna í gömlum bókum miklu skáldlegri skýringu á nafngiftinni, en hún er í stuttu máli á þá leið, að hvalur, kallaður Rauðhöfði, grandaði báti af Hvalfjarðarströnd, og fórust þar tveir synir prestsins í Saurbæ. í hefndarskyni teymdi klerkur hvalinn upp eftir Botnsá, sem þó getur naumast hvalfær talizt, að manni sýnist.
„En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir.
En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn. Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hef ur síðan ekki orðið vart við hann, en fundizt hafa hvalbein mjög stórkostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. Hvað sem sannleiksgidi þessarar sögu líður, þá tel ég vel ómaksins vert að eyða einni dagstund á þessum slóðum, ganga á Hvalfell og að Hvalvatni, og enginn skyldi láta hjá líða að heilsa upp á Glym og horfa niður í árgljúfrin miklu vestan við fellið,, má vera að mönnum skiljist þá, að Saurbæjarklerkur vandaði Rauðhöfða lítt leiðina.
Ég mun nú hér á eftir lýsa nokkuð gönguleið um þessar slóðir og því, sem fyrir augu ber, en haga þó ferðinni dálítið öðruvísi en klerkur forðum. En áður en lengra er farið, held ég væri rétt að gera sér grein fyrir landslaginu í stórum dráttum og drepa á nokkur söguleg atriði.
Inn af Hvalfirði liggja tveir grösugir dalir, Brynjudalur og Botnsdalur, sá síðarnefndi norðar. Milli þeirra er Múlafjall. Upp af því er Hrísháls og Hríshálsvegur svokallaður milli dalanna. Fyrir botni Botnsdals eru Botnssúlur, myndarleg fjallahvirfing, hæsti tindur þeirra er 1095 m og er venjulegasta gönguleið á hann frá Svartagili í Þingvallasveit, en hnúkurinn, sem næstur er Botnsdal, er litlu lægri eða 1089 m og liggur vel við að ganga á hann úr Brynjudal eða Botnsdal upp svonefndan Sandhrygg. Af Botnsúlum sér vel um allan suður- og vesturhluta landsins. Norðvestur af Botnsúlum er svo Hvalfell. Það er allmiklu lægra eða 848 m á hæð Milli Botnsúlna og Hvalfells heitir Hvalskarð. Þaðan kemur Hvalskarðsá og sameinast hún Botnsá niðri í dalnum rétt austan við túnið í Stóra-Botni. Botnsá á hinsvegar upptök sín í Hvalvatni og fellur í hrikalegum gljúfrum niður í dalinn vestan við fellið.
Hvalfellið er gróið nokkuð uppeftir, vaxið skógarkjarri og lyngi, en síðan taka við berar móbergsklappir og grjótskriður. Neðan til er hlíðin sundurskorin af djúpum gilskorningum og bera tungurnar milli þeirra sérstök nöfn. Þær eru fjórar talsins og heita, talið frá Botnsá: Einitunga, Breiðatunga, Mjóatunga og Ásmundartunga. Þetta er alveg torfærulaus leið og ekki sérlega brött. Þegar upp er komið er sjálfsagt að blása vel mæðinni og líta í kringum sig, flestum þykir útsýnið harla frítt, þótt ekki sé það ákaflega mikið.
Í Landnámu segir svo: „Maðr hét Ávangr, írskur at kyni. Hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip ok hlóð þar, sem nú heitir Hlaðhamarr.” Vandfenginn mundi nú skipaviður í Botnsdal, þótt enn sé að vísu skógarkjarr í dalnum, hins vegar hefur örnefnið Hlaðhamar varðveitzt fram á þennan dag, er það sunnan við Botnsvoginn. Allfjölfarin leið var lengi milli Hvalfjarðar og Þingvallasveitar um Botnsdal og meðfram Súlum sunnanverðum, en síðan um Öxarárdal, og heitir Leggjabrjótur. Er hún nú aflögð með öllu, en þetta er hin skemmtilegasta gönguleið. Það má kallast létt verk og löðurmannlegt að ganga á Hvalfell, sé miðað við hin erfiðari fjöll landsins, enda leiðin fær hverju barni, ef rétt er farið.
Við skulum nú rölta þetta í rólegheitum og gefa okkur umfram allt góðan tíma. Við hefjum gönguna við túnið í Stóra-Botni, en þangað er ökufært. Við göngum niður að Botnsánni vestan við túnið og yfir ána á göngubrú, en síðan gamla götutroðninga, unz við komum að Hvalskarðsá rétt ofan víð áamótin. Þar förum við yfir hana. Hún er venjulega vatnslítil og auðvelt að stikla hana á steinum. Síðan liggur leiðin upp Ásmundartungu, við troðum okkur gegnum skógarkjarrið eins og þaulvant skógarfé og stefnum beint á fjallsöxlina suðaustanverða. Við erum hér stödd á mótum ungrar og gamallar jarðmyndunar. Svo er að sjá sem Botnsdalurinn hafi einhverntíma náð allmiklu lengra til norðausturs en nú. Á ísöld, þegar dalurinn var fullur af jökli, virðist hafa orðið gos í dalnum undir jöklinum og hlaðizt upp þetta móbergsfell um þveran dalinn. Þegar aftur hlýnaði og jökla leysti af þessum slóðum, hefur síðan myndazt þarna djúpt stöðuvatn ofan við fellið. En það heitir nú Hvalvatn og er eins og áður segir annað dýpsta vatn landsins um 160 m þar sem það er dýpst.
Margt kemur í hugann, þar sem maður situr á kolli Hvalfells, lætur líða úr sér og horfir út á Hvalfjörðinn, langan og mjóan. Utan við Þyrilsnesið rís Geirhólmi úr sjó, hvítur af fugladriti. Hann kannast margir við úr Harðar sögu og Hólmverja. Þeir fóstbræðurnar, Geir Grímsson og Hörður Grímkelsson úr Neðra-Botni settust að í hólmanum ásamt konu Harðar, Helgu Haraldsdóttur jarls á Gautlandi og tveim sonum þeirra ungum, Grímkatli og Birni. Höfðu þeir með sér flokk manna og rændu bændur í héraðnu og urðu illa þokkaðir.
Segir sagan, að „átta tigir manna annars hundraðs váru í Hólmi, þá er flestir váru, en aldri færri en á inum átta tigi, þá er fæstir váru.” Þess má geta, að býlin í Botnsdal, sem nú heita Litli-Botn og Stóri Botn, hétu þá Neðri-Botn og Efri-Botn. Þar kom, að landsmenn gerðu samtök um að ginna Hólmverja úr eynni með því að heita þeim griðum og fullum sáttum. Létu þeir ginnast einn af öðrum og voru allir drepnir jafnótt og þeir komu á land. Loks eru ekki aðrir eftir en Helga og synir hennar tveir. Hefur hún nú uppgötvað svik landsmanna. „Hon hugsar nú sitt mál. Þat verðr nú hennar ráð, at hon kastar sér til sunds ok leggst til lands ór Hólminum um nóttina ok flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, ok þá fór hon móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum þá, ok flutti hann til lands.
Þat heitir nú Helgusund, Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli ok hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hon bar Björn á baki sér, en Grímkell gekk.” Þetta er sjálfsagt lygasaga, en jafngóð fyrir því. Að áliðnu sumri árið 1402 kom út skip í Hvalfirði, líklega við Hrafneyri. Skipið átti Einar nokkur Herjólfsson. Það þóttu löngum góð tíðindi, þegar skip kom af hafi hlaðið allskonar varningi. Hins vegar varð þessi skipkoma Íslendingum lítið fagnaðarefni eða happaatburður. Með Einari fluttist sem sé drepsóttin mikla, sem síðan hlaut nafnið Svartidauði. Það var einmitt í Botnsdalnum, sem hinir fyrstu urðu sóttinni að bráð. Svo segir i Vatnsfjarðarannál: „Þá kom út plágan í Hvalfirði. Kom í Hvalfjörð Einar Herjólfsson.
Var á því skipi sótt mikil. Sló þegar sóttinni á landsfólkið með mannfalli. Andaðist séra Oli Svarthöfðason og 7 sveinar hana í Botnsdal, þegar hann reið frá skipinu.” Það er álit fræðimanna, að þriðjungur eða helmingur landsmanna hafi látizt úr drepsóttinni.
En hverfum nú frá sögum og sögrium, þótt af nógu sé að taka, því að enn er löng leið fyrir höndum og ekki til setunnar boðið. Við höldum nú austur af fjallinu og niður í Hvalskarð. Satt að segja er þetta dálítið óhnöggleg leið, allbrött grjóthlíð með klettabeltum og urðarköstum, og þótt hún sé vel fær hverjum sem er, þá draga allir andann léttara, þegar niður er komið. Enda er maður þá kominn að Hvalvatni og er þar sléttar grundir og lyngflesjur undir hlíðinni.
Þarna má finna blóðrauða brúska af vetrarblómi snemma á vorin, en það er einna fyrst á ferðinni allra íslenzkra blómjurta og verður stundum illa úti í vorkuldunum, þótt harðgert sé. Hvalvatn er allstórt vatn og veruleg landslagsprýði. Við austurenda þess skagar dálítill móbergs höfði út í vatnið og heitir Skinnhúfuhöfði, kenndur við tröllkonu, að því ætlað er, en ekki kann ég ættir hennar að rekja. Upp frá vatninu vestanverðu er hæðarhryggur, sem Veggir heitir. Vestan við Veggi tekur síðan við Botnsheiði, votlend og flatlend, og nær allt vestur til Svínadals og norður til Skorradals, er þar sauðland gott.
Nú liggur leiðin vestur með vatninu sunnanverðu undir fjögur hundruð metra háum móbergshömrum og er farið fast með vatninu, en undirlendi er ekkert að kalla. Vestarlega undir hömrunum er dálítill klettaskúti alveg niður við vatnið. Þessi skúti heitir Arnesarhellir. Hann er kenndur við Arnes nokkurn Pálsson þjóf og útilegumann, en hann mun almenningi einkum kunnur af útvarpsleikriti Gunnars M. Magnúss, rithöfundar, í múrnum, svo og úr Fjalla-Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar sem útilegufélagi Eyvindar og Höllu, þótt dregið sé nú í efa, að sögnin um dvöl hans með þeim eigi nokkra stoð í veruleikanum. Hins vegar er vitað, að hann átti heima við Hvalfjörð áður en hann lagðist út, baeði á Kjalarnesi og Akranesi, og má rétt vera, að hann hafi einhvern tíma legið úti í þessum skúta, en munnmæli herma, að hann hafi dvalið þar vetrartíma og lifað m. a. á silungi úr vatninu.
Arnes var að lokum fangaður og dæmdur og sat um nær tuttugu og sex ára skeið í tukthúsinu í Reykjavik, þar sem nú er stjórnarráð Íslands.
Með honum dvaldist þar um skeið Þórdís nokkur Karlsdóttir, eignaðist hún barn í tukthúsinu og kenndi Arnesi og gekkst hann fúslega við barninu, enda kom þar brátt, að hann var gerður að varðmanni tukthússins og nokkurs konar siðferðilegum læriföður tukthúsfélaga sinna, en þeir báru honum misjafnlega söguna. Hann losnaði þó um síðir úr tukthúsinu og dó í Engey 7. sept. árið 1805, háaldraður maður, og var jarðaður í kirkjugarðinum við Aðalstræti. Enn getur að líta þarna í skútanum í Hvalfelli nokkrar grjóthellur úr hinum harða svefnbálki útileguþjófsins, en tófugras og aðrar bergjurtir hafa skotið rótum í hellisloftinu og eiga þarna rósama ævi. Enginn veit nú lengur með hvaða hugarfari Arnes Pálsson hefur lagzt til svefns í þessum skúta undir fjallshömrunum með grængolandi hyldýpið við rekkjustokkinn eða vaknað til vesaldómsins að nýju, öll eru vitnin þögul sem gröfin um hinn ógæfusama næturgest, sem hér átti sér hvílustað endur fyrir löngu.
Útfall Botnsár er vestast úr vatninu og er nú um gróið land að fara niður með ánni vestan við Hvalfellið, grasflesjur og lyngmóa. Fljótlega komum við að Breiðafossi, sem fellur á aflíðandi flúðum, smáfríður foss í notalegu umhverfi. Segja má, að Breiðifoss sé forboði markverðari fyrirbæra í ánni og landslaginu, Glymur er sem sé á næstu grösum. Innan stundar stöndum við á barmi gljúfursins mikla, þar sem Botnsá steypir sér í hvítum fossi fram af 196 m hárri bergbrúninni þverhníptri. Bezt sést fossinn af bergsnös einni austan við gljúfrið nokkuð neðan við fossinn. Fossinn er venjulega frekar vatnslítill, en gljúfrið þröngt og hrikalegt, skiptast þar á margs konar berglög í mismunandi litum, hreinasta augnayndi, og jarðfræðingum eflaust mikil opinberunarbók.
Vestanmegin niður með ánni heita Glymsbrekkur. Nú er um tvo kosti að velja. Annað hvort að fara upp fyrir fossinn aftur og vestur yfir ána og niður með ánni Hvalfellsmegin, en þar er yfir nokkra djúpa gilskorninga að fara, en engu að síður skemmtileg og auðfarin leið. Neðar í ánni er enn dálítill foss, Folaldafoss, umvafinn birkikjarri og hvannastóði. Brátt er hringnum lokað. Við höfum gengið á Hvalfell og umhverfis Hvalfell. ferðin hefur sjálfsagt tekið sjö — átta tíma. En Hvalfell stendur fyrir sínu og enginn þarf að sjá eftir deginum.”
Gengið var frá bílastæðinu við Stóra-Botn eftir merktum stíg (gulir steinar) að Glymsbrekkum og var markmiðið að leita að hugsanlegum selstíg upp brekkurnar. Vörður á brúninni bentu til að svo gæti verið. Stígar eru þarna í brekkunni en virðast vera seinnitíma verk manna og/eða dýra.
Það er ljóst að þarna er vel fær leið bæði upp og niður, enda fannst þarna sannfærandi selstígur upp brúnirnar að þessu sinni. Fólk virðist hafa fylgt gömlu götunni að fossinum að hluta. Hún er bæði greiðfær og í raun stysta leið milli bæjarins og selstöðunnar. Stígurinn er mjög greinilegur neðan við efri brúnir sem og ofan þeirra. Sé honum fylgt rétt liggur hann beint á selið.
Ofan við Brekkurnar var selstígnum fylgt að Stóra-Botnseli. Selið er auðfundið þegar gengið er frá Botnsánni upp með Sellæknum (austan við lækinn, rúmlega 100m neðan við girðingu).
Sjá meira um leitina að Litla-Botnsseli HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-mbl., Gestur Guðfinsson, 21. maí 1967, bls. 12 og 14.
-Wikipedia