Botnsdalur

Innst í Hvalfirði er Botnsvogur og inn af honum gengur Botnsdalur. Hann er stuttur, gróðursæll og skjólgóður. Tvö býli eru í dalnum, Litli-Botn og Stóri-Botn. Fyrir botni dalsins gnæfir Hvalfellið (852 m) en eftir honum liðast Botnsáin, tær og sakleysisleg og fellur í voginn. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er austan við Hvalfell.
 BotnsdalurEndur fyrir löngu, er ísaldarjökullinn þakti landið og skriðjöklar hans surfu berggrunninn, myndaðist Hvalfjörðurinn og dalir þeir, sem að honum liggja. Á þeim tímum var eldvirkni landsins ekki minni en nú og mynduðust þá og mótuðust mörg þeirra fjalla, sem við þekkjum svo vel. Jökullinn hafði sorfið Botnsdalurinn lengri en hann er nú, en svo hófst eldgos undir jöklinum. Fjall hlóðst upp í miðjum dal og þegar jökullinn hvarf stóð það eftir. Bak við það var djúp dæld, sem síðar fylltist af vatni.
Fjallið heitir Hvalfell, vatnið Hvalvatn og úr því rennur Botnsá. Hún fellur vestur með Hvalvatni að norðanverðu og beygir svo til suðurs. Þar hefur hún grafið djúpt gljúfur í gljúp jarðlögin í hlíðar dalsins. Þessi gljúfur eru ein hin mestu og hrikalegustu í landinu. Þau eru stutt og dýpst, þar sem áin fellur fram af dalbrúninni í einum fossi. Hann heitir Glymur og er um 200 m hár. Glymsbrekkur eru með stefnu á vesturhorn Hvalfellsins. Fyrrum var fjölfarin leið um þessar slóðir úr Botnsdal yfir í Skorradal, en hún lagðist af með breyttum samgöngutækjum.

Skinnhúfuhellir

Beinkambur með hinu forna lagi, okar 2 með þynnum 2 á milli og standa eirnaglar 2 í gegn: okarnir eru 5,9 og 6,1 cm. að l. og 7-10 mm. að br. Br. kambsins er 3,5 cm. Þynnurnar eru báðar saman 4,5 cm. að lengd: er önnur endaþynna, nær ótent. Rákir 2 eru til prýðis eptir okunum langsetis. Virðist óslitinn og er vafasamt, hvort verið hafi nokkru sinni að gagni eða orðið fullgjör: er mjög óvandaður. Mun vera gamall, en alls ófúinn: líkur kömbum frá miðöldunum. Fanst í litlum helli norðan í Hvalfelli, sunnan við Hvalvatn: mun það vera Skinnhúfuhellir ( sbr. Árm.s, og Árb. 1881, 41). Eru bein mörg í hellinum og í hrúgu í brekku fyrir framan hann. Hefir hér að líkindum verið útilegumannabæli í fyrndinni.

Þótt Hvalvatnið sé ekki stórt að flatarmáli, geymir það mikinn vatnsforða því mesta dýpi þess er 160 m. Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar. Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norðaustan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu.Â Í honum er lítill og lélegur hellisskúti. Þar eru sýnilegar minjar um mannvistir því hlaðinn hefur verið grjótbálkur í hellinum og eitthvað hefur fundist af dýrabeinum á gólfinu. Hellirinn nefnist Arnesarhellir og er kenndur við Arnes Pálsson sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og var alræmdur þjófur. Er talið að hann hafi dvalið þar veturlangt í felum.
Hvalinn, sem öll þessi örnefni eru kennd við, er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í suttu máli er hún á þá leið að maður í álögum varð að hval og lá hann úti fyrir Hvalfirði, grandaði bátum og drekkti skipshöfnunum. Synir prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd drukknuðu af völdum hvalsins. Presturinn vissi lengra en nef hans náði. Með töfrabrögðum gat hann seitt hvalinn inn fjörðinn, upp Botnsá, upp gljúfrin miklu og inn í vatn. Þar sprakk skepnan. Fannst beinagrind hvalsins þar síðar. Við þennan hval er fjörðurinn, fellið og vatnið kennt.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Hin gamla þjóðleið frá Botnsdal í Hvalfirði til þingvalla er nefnd eftir Leggjabrjóti, illfærum urðarhálsi, sem liggur þvert á leið og var fyrrum hinn versti farartálmi. En eldra nafn á leiðinni var Botnsheiði. Leiðin er nú vörðuð að mestum hluta og ætti það að vera til styrktar í þoku og dimmviðri, Vegalengd er 12-13 km og
ca. 5-6 klst ganga ef farið er í rólegheitum.
 BotnsdalurBotnsdalurinn er stuttur, kjarrivaxinn dalur upp af Botnsvogi. Ísaldarjökullinn myndaði dalinn, svo og Hvalfjörð og alla þá dali og skorninga, sem að honum liggja. Í Landnámabók segir svo:
“Maður hét Ávangur írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar” .
Klettahöfði við veginn, innst í voginum að sunnanverðu ber þetta nafn nú. Tveir bæir voru í dalnum Neðri eða Litlibotn og Efri eða Stóribotn. Á Neðrabotni bjó Geir fóstbróðir Harðar Grímkelssonar, sem frá eftir í Harðarsögu. þar bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn? Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur, Halldóru og Sveinbjörn sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna.

Litli-Botn

Litli-Botn – Howell 1900.

Annað skáld Jón Magnússon ólst einnig upp á Litlabotni. Upphaflega var Botnsdalur mun lengri, en síðla á ísöld, fyrir u.þ.b. 0.8 milljón arum, var gos undir jökli í miðjum dal og myndaðist þá Hvalfellið, sem rís fyrir enda dalsins (848 m y.s.). Í þessu gosi lokaðist fyrir dalbotninn og í kvosinni myndaðist Hvalvatn.
Í Stóra-Botni var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan þjóðleiðin lá um Leggjabrjót til Þingvalla. Þar fæddist og ólst upp Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður. Botnsá fellur fyrir neðan túnið og þar er göngubrú á henni. Þaðan liggur gamla gatan skáhallt upp brekkurnar í áttina að Botnssúlum.

Botnsdalur

Botnsdalur og nágrenni – kort.

Búskap var hætt á jörðinni laust eftir 1970. Hóf þá eigandi jarðarinnar ræktun barrtrjáa, sem blasa við augum í hlíðinni sunnan ár.
Hvalskarðsá kemur úr Hvalskarði, sem er á milli Hvalfells og Botnssúlna og fellur í Botnsá. Farvegur árinnar myndar smá fossa á leið sinni ofan hlíðina. Á einum eða tveimur stöðum í gilinu seytlar fram volgt vatn, gott til fótabaða.
Hvalvatn - Skinnhúfuhöfði t.h.Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og sést þaðan niður í Botnsdal. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld. Selstaða var í Botnsdal.
Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.

Hvalvatn

Hvalvatn – Hvalfell fjær.

Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Mirkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.
Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.

Heimildir m.a.:
-http://www.fi.is
-http://www.kjos.is
-MBL, 9. ágúst 1981.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.