Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu – Daníel Páll Jónasson
Daníel Páll Jónasson skrifaði í BS Háskólaritgerð sinni árið 2012 um „Hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu„.
Um er að ræða sögu hraunflæðis á svæðinu á nútíma og kortlagning mögulegra farvega til byggða. Ritgerðin er fyrir margt áhugaverð. Hér á eftir má lesa hluta hennar:
„Ritgerðin fjallar um hvernig hraunflæði hefur verið háttað í átt til höfuðborgarsvæðisins á nútíma og eftir hvaða leiðum búast megi við að hraun muni flæða í átt til svæðisins eftir vatnasviðum þess. Er þá reiknað með að hraunið flæði niður í móti líkt og vökvi. Ekki er reynt að ákvarða hvernig hraunflæði muni breiðast út innan byggðar eða í kringum hana en þó er staðfræði meginfarvega kortlögð til að gefa mynd af mögulegri útbreiðslu. Tekin eru dæmi um hraunflæðilíkön sem hönnuð hafa verið til að ákvarða útbreiðslu hrauna og fjallað um þær forsendur sem þurfa að liggja á baki reiknilíkans fyrir hraunflæði.
Fjallað er um eldvirkni á síðustu ísöld og nútíma ásamt þeim eldsummerkjum sem eftir hana liggja; móbergsfjöll, móbergshryggi, dyngjur og hraunbreiður.
Jarðskjálftahrinur og eldsumbrotahrinur í fjórum eldstöðvakerfum skagans ásamt einkennum kerfanna eru útskýrð en þó sérstaklega einkenni Krýsuvíkurkerfisins og Brennisteinsfjallakerfisins. Úr þessum kerfum hafa hraun runnið til höfuðborgarsvæðisins og munu líklega gera í framtíðinni. Yrði byggð í Mið-Hafnarfirði og Vallahverfi þá helst í hættu.
Farið er yfir gerð viðbragðsáætlana vegna hraunflæðis í umræðum en slíkar áætlanir eru ekki til staðar fyrir höfuðborgarsvæðið.
Inngangur
Sé ferðast um höfuðborgarsvæðið á Íslandi er hægt að reka augun í hraun af ýmsum stærðum og gerðum. Á sumum stöðum eru hús byggð í jaðri úfinna hrauna eða ofan á sléttum hraunum og liggja um þau margar fallegar gönguleiðir á svæðinu. Að mati margra, að höfundi meðtöldum, eru hraunin falleg, og útskýrir það kannski vilja sumra til að búa í jaðri þeirra.
Staðsetning hraunanna á höfuðborgarsvæðinu leiðir vissulega af sér þá spurningu hvort möguleiki sé á nýju hraunflæði á þessum slóðum og hvort fólki, íbúahúsum, samgöngum, fasteignum eða öðrum lífverum og verðmætum stafi hætta af slíku flæði. Er það mat höfundar að nauðsynlegt sé að kanna mögulegt hraunflæði enda er um þéttbýlasta svæði landsins að ræða þar sem í lok árs 2011 bjuggu yfir 200 þúsund manns. Hraunflæði er í sjálfu sér sjaldan hættulegt fólki, einkum sökum lágs flæðishraða, en hraun geta náð yfir stórt landsvæði og þannig eytt nýtanlegu landi eða brennt, mölvað eða grafið heilu byggingarnar. Fólk myndi því væntanlega ná að flýja undan hrauninu, að minnsta kosti ef það kæmi upp í nægilegri fjarlægð, en myndi hugsanlega þurfa að horfa upp á hús sín og önnur verðmæti eyðileggjast.
Jarðfræði Reykjaness
Vel er hægt að ímynda sér einhvern af forfeðrum Íslendinga, eftir miðja 12. öld, standandi uppi á hæð nærri Hafnarfirði og horfandi hughrifinn á úfið Kapelluhraunið þar sem það skreið í sjó fram hjá Straumsvík. Nú byggist stór hluti Vallahverfisins skammt austan þessa úfna hrauns sem í daglegu tali nefnist Kapelluhraun. Örnefnin í vestanverðum Hafnarfirði bera líka enn merki af brennandi áhuga forfeðra Íslendinga af eldsumbrotum en sem dæmi um örnefni sem lýsa vel eldrænu landslagi á svæðisin má nefna „Óbrinnishóla“, „Háabruna“, „Hraunhól“ og „Brennu“.
Ef litið er lengra aftur en til þess tíma þegar Kapelluhraun rann, má sjá að hraun hafa runnið alloft um Reykjanes á síðustu öldum og árþúsundum. Eru þessi hraun til marks um að Reykjanesið er virkt svæði þar sem enn má búast við eldsumbrotum.
Yfirlit yfir jarðfræði Reykjaness
Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi.
Allt eldgosaberg á yfirborði skagans er yngra en 700.000 ára. Stór hluti yfirborðs Reykjaness er þakið hraunum frá nútíma. Hraunin eru ýmist úr dyngjugosum eða sprungugosum en móberg frá fyrri og seinni hluta síðasta jökulskeiðs mynda fjallgarða og hryggi á skaganum auk móbergs frá eldri jökulskeiðum. Síðasta jökulskeið er almennt talið hafa náð frá því fyrir um 10.000 til 100.000 árum en segulskeið, sem nær yfir önnur jökulskeið, byrjaði fyrir um 780.000 árum.
Sé Ísland skoðað í heild hafa samtals komið upp 369 km3 basalts í 457 hraungosum á nútíma, eða eftir hvarf Ísaldarjökulsins fyrir um 11.000 árum. Eru þessi 457 gos rúmlega 90% þeirra 501 hraungosa sem samtals hafa komið upp á Íslandi á nútíma en 56 þeirra hafa á hverju árþúsundi. Dreifðust rúmmálin nokkuð jafnt á hvort tímabil fyrir sig en þó var mjög lítil eldvirkni á tímabilinu fyrir um 2.000 til 3.000 árum síðan. Á tímabilinu fyrir 10.000 til 11.000 árum síðan gaus 70 km3 basalts, tvöfalt meira hraunmagn á árþúsundi en árþúsundin á eftir, og hefur basalthraunflæði samkvæmt þessum tölum því að jafnaði minnkað á nútíma á Íslandi.
Talið hefur verið að þetta mikla rúmmál hrauns, sem og annarra gosefna, sé rakið til hraðrar upplyftingar landsins eftir að síðustu ísöld lauk en þá komu upp flestar þær rúmmálsmiklu dyngjur sem til dæmis má sjá á Reykjanesi.
Líkt og á Íslandi öllu kemur nær eingöngu upp basaltkvika á Reykjanesi. Á skaganum hafa basalthraungos samtals verið um 111 á nútíma, og þar af 15 á sögulegum tíma, og 33 sprengigos. Úr öllum þessum gosum hafa samtals myndast 26 km3 af hrauni og 7 km3 af gjósku eða sem samsvarar 29 km3 af föstu bergi. Sé gengið um Reykjanes sjást ummerki þessarar eldvirkni afar vel og mörg eldvörp eru í steinsnar frá byggð og samgöngum. Eru þessi eldvörp enn greinanleg meðal annars sökum þess að eftir að ísaldarjökullinn hvarf hefur rof á skaganum minnkað verulega. Mörg ummerki eldvirkni eru einnig undir nýrri hraunum sem sífellt mynda ný lög ofan á skaganum en sem dæmi má nefna að síendurtekin hraunflæði hafa fært ströndina í Straumsvík fram um 1,5 til 2 kílómetra frá ísaldarlokum. Þar að auki eru fjöldi hrauna grafin undir yngri hraunum og sjást þau því ekki á yfirborði en þeirra verður aftur á móti vart í borholum).
Reykjanesgosbeltið og önnur gosbelti á Íslandi
Miðja heita reitsins er talin liggja djúpt undir yfirborðinu milli Grímsvatna og Bárðarbungu. Suðurlandsbrotabeltið er svæði sniðgengja sem liggur á milli Vesturgosbeltisins og Austurgosbeltisins og tengir þau saman.
Suðurhluti Austurgosbeltisins hefur verið að færast í suðvesturátt síðustu þrjár milljónir árin og talið er að á endanum muni það ná yfir á Reykjaneshrygg. Mun þá annað gosbeltanna á Suðurlandi hætta virkni og hitt taka við sem megingosbelti á svæðinu en Suðurlandsbrotabeltið mun einnig verða óvirkt. Miðað við hvernig gosbeltin hafa færst síðustu milljónir ára er ekki líklegt að þessi þróun muni hafa bein áhrif á næstu kynslóðir mannfólks sem búa munu á Íslandi. Til lengri tíma litið mun hún aftur á móti breyta talsvert eldvirkninni á Suður- og Vesturlandi.
Heiti reiturinn undir Íslandi og áhrif hans á gosbeltin og eldstöðvakerfin
Talið er að myndun Íslands hafi byrjað fyrir tilstilli samverkandi áhrifa heits reits og reksins á plötuskilum Mið-Atlantshafshryggsins fyrir um 24 milljónum ára en elsta berg á yfirborði er um 14-16 milljóna ára gamalt. Hefur heiti reiturinn verið virkur í um 65 milljón ár og myndaði hann Norður-Atlantshafsgossvæðið en Ísland er eini hluti þess sem enn er virkt.
Samverkandi áhrif heita reitsins og Mið-Atlantshafshryggsins á eldvirkni á Íslandi valda því að landið er stærsta svæðið þar sem úthafshryggur kemur upp fyrir sjávarmál á jörðinni en eldvirknin á landinu er mjög mikil miðað við úthafshrygg. Eru áhrif heita reitsins á þann veg að hann eykur á bráðnun jarðskorpunnar undir landinu vegna hærra hitastigs möttulsins og veldur þessi bráðnun myndun þykkari skorpu og varanlegs uppdrifs. Er jarðskorpan allt að 35 kílómetra þykk á Íslandi en þykktin minnkar eftir því sem fjær dregur heita reitnum og er skorpan ekki nema um 10-11 kílómetra þykk á Reykjanesi. Er sú þykkt engu að síður talsvert meiri en á venjulegri úthafsskorpu en þar er hún venjulega 6-7 kílómetra þykk.
Aukið hitastig möttulsins veldur enn fremur minni eðlismassa hans og verður deighvolfið því fyrir hitaknúnu uppdrifi.
Talið er að hitinn flytjist frá heita reitnum í gegnum deighvolfið (e. asthenosphere) eða efri hluta möttulsins (e. upper mantle) en hitinn fer lækkandi eftir fjarlægð frá reitnum. Hitastig heita reitsins undir Íslandi er talið um 150-200°C heitara en möttulsins sem umlykur hann. Mismunur í þykkt jarðskorpunnar á Reykjanesi, um 11 kílómetrar, sé miðað við jarðskorpuna á Suðvesturlandi, um 21 kílómetri, bendir til að hitastigið undir skaganum sé um 130°C lægra en í miðju heita reitsins.
Landsig á Reykjanesi af völdum eldvirkni
Landsig á Reykjanesi getur numið nokkrum millimetrum á ári og til að mynda er talið að Straumsvíkursvæðið sígi nú um um það bil 20 sentímetra á öld i um 500 metrum en finna má gömul yfirborðshraun á allt að 1.800 metra dýpi í borholum.
Landsigið á Suðvesturhorninu er að einhverju leyti tilkomið vegna höggunarhreyfinga, en berggrunnsblokkir lyftast þá eða síga um allt að nokkra metra, og vegna skriðs jarðskorpuflekanna í átt að kólnandi umhverfi og meira dýpi. Aðalástæðan fyrir siginu er þó talin vera bergupphleðslan en á Reykjanesi hafa síendurtekin eldgos valdið auknu fargi á skorpuflekana og þeir síga smám saman niður í deighvolfið.
Af ofansögðu má sjá að um víxlverkun er að ræða á Reykjanesi. Heiti reiturinn á sinn þátt í hversu mikil eldvirknin er á svæðinu með tilheyrandi gosefnaupphleðslu en á sama tíma lyftir hann einnig skaganum upp. Sama gosefnaupphleðsla veldur því að skaginn sekkur niður í deighvolfið á móti uppdrifinu.
Jarðskjálftahrinur á Reykjanesi
Jarðskjálftar á Reykjanesi koma oft í hrinum, með hundruðum og þúsundum lítilla skjálfta sem standa jafnvel mánuðum eða árum saman. Oft gerist þetta án þess að fólk verði þess vart þar sem skjálftarnir koma eingöngu fram á jarðskjálftamælum. Jarðskjálftahrinur gengu yfir skagann á árunum 1971 og 1972 og í mestu hrinunni, sem stóð í um það bil 8 sólarhringa, mældust um 14.600 jarðskjálftar. Önnur hrina gekk yfir í lok 20. aldarinnar á
Hengilssvæðinu.
Kvikuinnskot í eldstöðvakerfum geta bæði dregið úr skjálftavirkni eða aukið hana tímabundið á aðliggjandi brotabeltum.
Eldsumbrotahrinur í eldstöðvakerfum Reykjaness
Í síðustu eldsumbrotahrinu á Reykjanesi færðist virknin frá austri til vesturs. Á 10. og 11. öld brann í Brennisteinsfjallakerfinu, á 12. öld í Krýsuvíkurkerfinu og á 13. öld í Reykjaneskerfinu. Hraungosin á þessum tímabilum voru samtals 15 talsins og var áður talið að þau næðu yfir um 143 km2 landsvæði á Reykjanesi með hraunum sem eru samtals um 2,3 km3 að rúmmáli.
Með nýjum rannsóknum hefur tekist að ákvarða aldur fleiri hrauna í kerfunum. Talið er að í Brennisteinsfjallakerfinu hafi tvö hraun, Hvammahraun og Vörðufellshraun, samtals um 40 km2, runnið á 8. eða 9. öld og á svipuðum tíma hafi Hrútafellshraun, um 6,8 km2, runnið í miðju Krýsuvíkurkerfinu, í Móhálsadal. Þessar nýlegu upplýsingar valda því að síðasta eldsumbrotahrina lengist um 200 ár frá því sem áður var talið og nær hún samtals yfir um 500 ár, frá 750 til 1240. Ná hraunin frá síðustu hrinu á Reykjanesi sömuleiðis yfir talsvert stærra svæði en áður var talið, eða um 190 km2 (143 km2 + 47 km2).
Eldsumbrotahrinan á Reykjanesskaga fyrir um 1.900 til 2.400 árum einkenndist af eldgosum í öllum eldstöðvakerfunum þremur og í sjó undan Reykjanesi. Auk þessa urðu eldgos á Hengilssvæðinu en þar varð einnig gjóskugos í Þingvallavatni. Er talið að hraunin frá þessari hrinu séu að minnsta kosti ellefu talsins.
Á Reykjanesi skiptast á tímabil sem einkennast annars vegar af rekgliðnun og eldgosum og hins vegar af sniðgengishreyfingum og tilheyrandi jarðskjálftum. Standa tímabilin yfirleitt í sex til átta aldir. Dæmi er fyrir eldgosum í tveimur eða fleiri kerfum á svipuðum tíma á Íslandi. Gæti því hugsanlega gosið úr fleiri en einu kerfi á sama tíma á Reykjanesinu.
Eldstöðvakerfi Reykjaness
Tvær kenningar hafa komið fram um hvernig kvika kemur upp í rekgliðnunarhrinum á eldstöðvakerfum. Önnur kenningin snýr að megineldstöðinni og er þá reiknað með að kvika frá kvikugeymi á mörkum jarðskorpu og deighvolfs berist upp í kvikuhólfið undir megineldstöðinni á nokkurra kílómetra dýpi og valdi þenslu. Yfirvinni þrýstingurinn vegna aukinnar kviku og þenslu styrk jarðskorpunnar gliðnar hún og innskot geta skilað sér til megineldstöðvarinnar eða borist skáhallt til hliðar yfir á gossprungureinarnar. Ef innskotin ná yfirborði á öðru hvoru svæðinu verða eldgos.
Hin kenningin snýr að kvikugeyminum en þá er reiknað með að kvika berist beint frá honum vegna aukinnar kvikumyndunar og aukins þrýstings. Berst hún þá sem nær lóðrétt innskot beint upp í gossprungureinarnar og kvikuhólfið undir megineldstöðinni og allt eldstöðvakerfið virkjast í einu.
Meginmunurinn á þessum kenningum er sá að í fyrrnefndu kenningunni er reiknað með að kvikan frá kvikugeyminum hafi fyrst viðkomu í kvikuhólfinu og berist þaðan til gossprungureinanna. Í hinni kenningunni berst hún beint frá kvikugeyminum til gossprungureinanna og megineldstöðvarinnar.
Eldstöðvakerfin byrja að myndast yfir því svæði þar sem grynnst er niður á kvikugeyminn þar sem kvika safnast fyrir á mörkum efri möttuls og neðri hluta jarðskorpunnar. Kvikuhólf ofar í jarðskorpunni hafa ekki náð að myndast á þessum byrjunarstigum. Er því kvikan í öllum eldgosum og allri innskotavirkni upprunnin djúpt neðan úr kvikugeymunum og því frumstæð og yfirleitt basalt. Sum eldstöðvakerfanna á rekbeltunum hafa ekki náð að mynda kvikuhólf og dæmi um slíkt eru kerfin á Reykjanesgosbeltinu.
Auk áhrifa heita reitsins verða eldsumbrot í eldstöðvakerfum vegna þess að jarðskorpuflekana rekur í sundur. Rekið veldur því að jarðskorpan rofnar en slíkt gerist í hrinum en ekki jafnt og þétt. Virkjast þá eitthvert eldstöðvakerfanna á gosbeltinu og eldsumbrot hefjast en yfirleitt er eitt kerfi virkt á gosbeltinu í einu þótt undantekningar þekkist og tvö eða fleiri verði virk í einu. Þegar eldstöðvakerfi virkjast geta þau verið virk í nokkur ár eða áratugi með endurtekinni jarðskjálftavirkni og eldgosum. Gýs þá helst í megineldstöðinni eða á gossprungureininni, allt eftir því hvort megineldstöð er að finna í eldstöðvakerfinu.
Áralöng virkni eldstöðvakerfa er jafnan kölluð „eldar“ en dæmi um slíka atburði eru meðal annars hinir fyrrnefndu Kröflueldar þegar gaus alls 9 sinnum. Annað dæmi um slíka atburði eru Krýsuvíkureldar sem brunnu árin 1151 til 1188 í Krýsuvíkurkerfinu.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesi og á Íslandi
Eldstöðvakerfin á Íslandi, um 30 talsins, hafa myndast við að Norður-Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur frá hvorum öðrum á mörkum Mið-Atlantshafshryggsins. Flest eldstöðvakerfanna eru um 40-150 kílómetra löng og 5-20 kílómetra breið en nákvæm mörk kerfanna eru yfirleitt frekar óljós. Goshegðun kerfanna stjórnast bæði af reki flekanna og áhrifum heita reitsins en eldstöðvakerfin á rekbeltunum eru yfirleitt með eldstöðvum sem gjósa basalti auk gossprungu- og sprungureina á yfirborði en innskotum undir yfirborðinu.
Þar sem ekki er um eiginlega megineldstöð að ræða á Reykjaneskerfinu, Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallkerfinu, fyrir utan veika vísbendingu um kaffærða öskju í Krýsuvíkurkerfinu, er miðstöð þeirra að finna þar sem mest hraunaframleiðslu fer fram í sprungugosum en þær miðstöðvar má sjá sem rauðan fláka vinstra megin á mynd 9 en rauði flákinn til hægri táknar Suðurlandsbrotabeltið.
Lega vatnasviða höfuðborgarsvæðisins við eldstöðvakerfi Reykjaness
Höfuðborgarsvæðið er staðsett norðan við eitt af fjórum virkum eldstöðvakerfum á Reykjanesi, Krýsuvíkurkerfinu. Til að geta ákvarðað mögulegar leiðir framtíðarhraunflæðis inn á höfuðborgarsvæðið er ekki nóg að kanna fjarlægð svæðisins í beinni loftlínu frá eldstöðvakerfunum heldur þarf einnig að kanna hvernig landinu hallar á milli kerfanna og borgarinnar.
Krýsuvíkurkerfið
Talið er að Krýsuvíkurkerfið sé frekar lítið þroskað en kerfinu virðist ekki fylgja ein sérstök virknimiðja með öskju og kvikuþró. Jarðhitasvæði við Sveifluháls og Trölladyngju eru þó talin hluti af slíku svæði en á svæðinu við Sveifluháls má finna sprengigíga frá nútíma auk lítillar gossprungu. Hafa þessir sprengigígar myndast samfara eldgosum eða innskotavirkni. Mynduðust þessir gígar fyrir meira en 6.000 árum síðan en hraunmagnið úr þeim hefur verið mjög lítið og er talið að þeir hafi myndast á skjálftatímabili þegar skjálftarnir hreyfðu við storknandi kvikumassa. Auk þessa fylgdu gosunum mikið magn gabbróhnyðlinga. Einn sprengigíganna, Grænavatn, myndaðist í gosi sem einkenndist fyrst af mikilli kvikustrókavirkni og útkasti og mjög litlu hraunrennsli en á seinni stigum sprengingum á allt að tveggja til þriggja kílómetra dýpi sem sköpuðu gíginn.
Jarðhita í Krýsuvíkurkerfinu má meðal annars rekja til eldvirkni á síðari hluta nútíma og óreglna í gerð svæðisins en hlykkur hefur myndast þar sem dyngjubeltið á Reykjanesi og gossprungukerfið skerast og gossprungukerfið hnikast frá Núpshlíðarhálsi yfir á Sveifluháls. Jarðhitasvæðin á miðhluta eldstöðvakerfisins virðast tengjast sama hlykk en á honum er að finna gíg Hrútagjárdyngju sem myndaðist fyrir um 3-4.000 árum síðan. Er þetta dyngjugos mesta hraungosið í Krýsuvíkurkerfinu á nútíma.
Svo virðist sem eldgos í Krýsuvíkurkerfinu myndi sprungur sem eru í sömu stefnu og sjálft kerfið. Má þá nefna sprunguna þaðan sem Krýsuvíkureldar runnu og sprunguna þaðan sem Afstapahraun rann. Núpshlíðarháls og Sveifluháls gætu einnig verið merki um álíka sprungugos eða eldsumbrotahrinu undir jökli en slík gos mynda móbergshryggi.
Brennisteinsfjallakerfið
Gosið hefur að minnsta kosti 10 sinnum í Brennisteinsfjallakerfinu á sögulegum tíma og 30 til 40 sinnum á nútíma. Kerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjaness á nútíma en það hefur framleitt mest hraun að rúmmáli og flatarmáli. Hafa gostímabil á Reykjanesi vanalega hafist um 200 til 300 árum fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu sé tekið mið af Krýsuvíkurkerfinu og Reykjaneskerfinu en fyrir um 1.900 árum síðan hóf Hengillinn þó leikinn.
Berg í Brennisteinsfjöllum er eingöngu basalt. Mikið magn móbergs í miðju Brennisteinsfjallakerfisins er til komið vegna þess að eldgosin verða oft í miðju eldstöðvakerfa þar sem landið er hærra og jöklun meiri og lengri. Á jökulskeiðum hlaðast því upp brött móbergsfjöll en hraun breiða lítið úr sér.
Á hlýskeiðum myndast aftur á móti dyngjur og hraun renna og fylla upp í dældirnar á milli móbergsfjallanna en þar er jafnframt þykkustu hraunstaflana að finna. Er til dæmis talið að milli Grindaskarða og Bláfjalla sé nokkur hundruð metra þykkur hraunstafli en yfirborð svæðisins er frekar flatt og bendir það til þess að hraunin hafi hlaðist upp afmörkuð af móbergsfjöllunum allt í kring. Mjög þykkir staflar hrauna eru einnig milli Bláfjalla og móbergshryggs sem liggur frá Brennisteinsfjöllum og í norðaustur og einnig í kringum Geitafell en hjá fellinu er talið að hraunin nái allt að 100-200 metra þykkt.
Loks ber að geta að norðan Svínahrauns er landið mjög flatt og mælingar gefa til kynna að þar sé að finna þykkan hraunstafla. Móbergshryggir eru svo víða alveg grafnir undir nýrri hraunum en til dæmis má finna hryggi undir hraununum fyrir ofan Heiðmörk og undir Heiðinni há er mikill móbergsstafli. Stýrast hraunin því af móbergsfjöllum, hylja þau að hluta eða kaffæra þau jafnvel alveg.
Mikil dyngjuhraun frá nútíma hafa runnið í kerfinu, meðal annars frá Heiðinni há og Leitunum, en söguleg hraun þekja einnig mikið svæði. Hraun sem runnið hafa á nútíma í kerfinu eru talin vera 15 +/- 6 km3 út frá þykktarmælingum en þær móbergsmyndanir sem mynduðust á síðasta jökulskeiði eru talin vera um 30 km3.
Ásamt því að hafa skapað landslagið í Brennisteinsfjallakerfinu sjálfu hafa hraun sem komið hafa upp innan Brennisteinsfjallakerfisins einnig skapað landslagið í Krýsuvíkurkerfinu. Hafa þau runnið um langa leið til sjávar sunnan við Hafnarfjörð og því þverað allt Krýsuvíkurkerfið.
Mismunandi eiginleikar eldgosa á Reykjanesi á nútíma og á ísöld
Þau landform sem gefur að líta á Reykjanesi eru til komin vegna fjölbreyttrar gossögu skagans. Má til dæmis nefna móbergshryggi, móbergsstapa, dyngjur og gígaraðir.
Á síðasta jökulskeiði lá jökull yfir Reykjanesi og sérstaklega á þeim svæðum sem hærri voru.
Athygli vekur að misgamlir og ílangir móbergshryggir eru mjög umfangsmiklir í Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjallakerfinu. Er þessi myndun sérstaklega áberandi í Krýsuvíkurkerfinu en þar virðast löng sprungugos hafa verið allsráðandi undir jökli sem og á nútíma. Raða móbergshryggirnir sér í svipaða stefnu og gossprungurnar á nútíma og virðast því vera mörg fordæmi fyrir því að eldgos teygi sig eftir endilöngu kerfinu, allt frá ströndinni í suðvestri til Helgafells í norðaustri. Ef upp kemur eldgos suðvestan til í Krýsuvíkurkerfinu, sem og í Brennisteinsfjallakerfinu en þar eru gossprungur nokkuð algengar, má því allt eins reikna með að eldgos taki sig upp norðaustar og á óheppilegri stað sé horft til sögunnar.
Staðan í dag hefði jökull ekki hulið Reykjanes
Hefði jökullinn ekki verið til staðar á þessum ísöldum hefðu þau eldgos sem mynduðu móbergsstapa, móbergshryggi og móbergsfjöll myndað dyngjur, gígaraðir og hraun í staðinn. Þessu til grundvallar má nefna að móbergsstaparnir eru yfirleitt svipaðir að rúmmáli og með svipaða efnasamsetningu og dyngjurnar. Í dag væri landslagið því mjög frábrugðið á Reykjanesinu hefðu jöklarnir ekki komið til sögunnar. Líklega væri skaginn breiðari, láglendari og með jafnari hraunlögum á hverjum stað enda myndu hraunin hlaðast ofan á hvort annað á tiltölulega ávölum eða flötum svæðum í stað þess að staflast upp í hryggi og fjöll.
Dyngjur
Íslenskar dyngjur eru yfirleitt frekar lágar og með litlum halla og endurspeglar það hversu þunnfljótandi basaltkvikan hefur verið þegar hún kom upp á yfirborðið í dyngjugosunum. Mjög margar dyngjur má finna á Reykjanesgosbeltinu. Flestar dyngjur á Íslandi eru eldri en 3.500 ára.
Dyngjurnar geta verið ansi víðáttumiklar en þar sem saman fara dyngjur og gosgígaraðir í eldstöðvakerfum hafa dyngjurnar vanalega gosið meira hraunmagni samanlagt þó gosgígarnir kunni að vera mun fleiri. Sem dæmi um rúmmálsmikla dyngju má nefna Heiðina háu, stærstu dyngjuna á Reykjanesi.
Dyngjurnar á Reykjanesinu eru ein umfangsmestu gosummerkin á yfirborði en þær væru enn meira áberandi hefðu yngri hraun úr sprungugosum ekki runnið yfir þær að hluta. Nokkur munur er á fjölda sprungugosa og dyngjugosa á Reykjanesi á nútíma en á heildina litið hafa myndast 26 dyngjur samanborið við 101 gossprungu. Munurinn á meðalrúmmáli hrauna úr dyngju- og sprungugosum er einnig mikill. Hafa sprungugosin því verið mun fleiri en dyngjugosin en dyngjugosin aftur á móti um tífalt rúmmeiri.
Á Reykjanesi eru dyngjurnar þessar helstar: Sandfellshæð (13.600 ára), Þráinsskjaldarhraun (14.100 ára), Hrútagjárdyngja (um 5.000 ára), Skúlatúnshraun/Stórabollahraun (2.000 ára), Kistufellshraun (yngra en 7.000 ára), Herdísarvíkurhraun (yngra en 7.000 ára), Þríhnjúkahraun (yngra en 7.000 ára), Heiðin há (eldri en 7.000 ára), Strompar (yngri en 7.000 ára) og Leitahraun (um 5.300 ára).
Myndun dyngja
Talið er að dyngjur myndist í einu gosi sem getur komið í nokkrum áralöngum hrinum. Kvikan sem kemur upp í slíkum dyngjugosum á
Íslandi er vanalega frumstæð og mjög heit en hún er ættuð beint neðan úr djúplægum kvikugeymum. Gosin byrja yfirleitt sem sprungugos en með tímanum afmarkast þau af nokkrum rásum. Myndast þá nokkrar dyngjur sem flæða yfir hverja aðra en á endanum ná gosin að afmarkast við eina rás. Flæða hraunin úr rásinni yfir minni dyngjurnar sem verða í vegi hraunflæðisins og á endanum byrjar að myndast stök hraunkeila (e. lava cone). Eldgosið gæti hætt á þessu stigi, eða fyrr, og myndað nokkrar dyngjur sem eru þá yfir hverri annarri.
Á byrjunarstigum dyngjugosa er hraunflæði á yfirborði þegar rennslið er hvað mest úr hrauntjörn í toppgígnum. Rennur þá mjög þunnt skelhelluhraun (e. shelly pahoehoe) næst upptökum en hægara og grófgerðara brothelluhraun (e. slabby pahoehoe) eða hreinlega apalhraun fjær þeim. Þegar rennslið minnkar rennur hraunið í undirgöngum frá hrauntjörn en hæg storknun vegna einangrunar í undirgöngum útskýrir meðal annars af hverju dyngjur geta náð yfir mikið flatarmál.
Hraunflæðið kemur svo fram á yfirborði í hlíðum dyngjunnar og myndar þar hraunsvuntu og tiltölulega flatlent helluhraun með bungum og hraunkollum.
Algengt er að hraun flæði um undirgöng frá efri hlutum rauntjarnarinnar en stundum getur hraun flætt frá neðri hlutum hennar eða hreinlega beint úr gosrásinni sem sér henni fyrir hrauninu. Á seinni stigum getur hrauntjörnin einnig flætt yfir bakka sína. Þegar hraunflæði frá upptökum hættir, til dæmis ef gosið hættir og hrauntjörnin verður þurrausin, og hraunið rennur allt niður undirgöngin svo þau tæmast myndast hraunhellar sem geta oft verið nokkuð langir.
Dyngjugos geta staðið nokkuð lengi, jafnvel í nokkur ár eða áratugi að því er talið er.
Móbergs- og dyngjumyndun, umræður
Dyngjur geta verið mjög rúmmálsmiklar og myndast hver þeirra vanalega í einu löngu gosi á Íslandi. Þær hafa flestar myndast fyrir meira en 3.500 árum síðan en Skúlatúnshraun, sem myndaðist fyrir 2.000 árum og Surtsey, sem myndaðist árin 1963 til 1967, sýna að dyngjur geta enn myndast á Íslandi og þar af leiðandi á Reykjanesinu þar sem þær eru algengastar.
Ekki er því hægt að útiloka þann möguleika að stór dyngjugos komi upp á skaganum eða í námunda við byggð. Er nóg að skoða muninn á einhverju þeirra hrauna sem komið hafa upp í sprungugosum, til dæmis Kapelluhrauni, og dyngjugosum, til dæmis Heiðinni háu, til að sjá að dyngjurnar breiðast meira út en hraun úr sprungugosum renna eftir afmarkaðri farvegum. Ber þó að geta þess að dyngjur geta verið af ýmsum stærðum og gerðum og er það vonandi að komi upp dyngjugos á Reykjanesi að það verði stutt og með takmörkuðu hraunmagni.
Eiginleikar sprungugosa og gosa úr einum gíg
Eldgos geta verið tvenns konar. Annars vegar geta þau raðað sér á gossprungur í eldstöðvakerfunum og hins vegar verið bundin við einn gíg. Í sprungugosum myndast röð af gígum ofan á gossprungunni. Algengast er að sprungan sé með einni meginstefnu, mynduð af nokkrum aðskildum sprungum sem liggja í sömu átt en næstu sprungur við hana liggja örlítið skáhallt (e. echelon) til annarrar hvorrar áttar. Í þessum sprungugosum myndast klepragígar, gjallgígar eða blanda af þessum tveimur tegundum en kvikustrókavirknin úr hverjum gíg orsakar myndun hans. Eldgos geta afmarkast við einn gíg en algengt er að slík gos hafi byrjað sem sprungugos en virknin svo færst nokkuð fljótt og alfarið yfir á eina rás. Í þessum gosum myndast svipaðir gígar eins og ef um sprungugos væri að ræða.
Lýsing á eiginleikum og flæði apalhrauna og helluhrauna
Apalhraun, og basalthraun yfir höfuð, eru vanalega um 1.200° heit þegar þau koma upp í eldgosum. Við þetta hitastig eru hraunin hvað mest þunnfljótandi og hraðfara og flæða þau um líkt og vökvi á yfirborðinu. Mikil útgeislun hraunsins veldur því að það kólnar fljótt og smám saman verður það seigara og meira hægfara. Hlutar hraunsins storkna á yfirborði og renna þeir sem dökkt hröngl í hraunstraumnum eða sem skán á yfirborði hans. Þegar enn lengra er komið frá upptökum eru hraunin orðin seigari og yfirborð þeirra storknuð lengra inn að miðju. Þrýstist hraunið þá áfram undan hraunflæðinu sem kemur frá upptökunum en hraunjaðarinn er hættur að renna sem vökvi. Þá brotnar storknað hröngl framan af jaðrinum og verður undir hrauninu þegar það þrýstist áfram. Af þessum völdum eru apalhraun nokkuð lagskipt en neðst er að finna hrönglið, oft ofan á bökuðum jarðvegi sem hefur orðið undir heitu hraunflæðinu. Í miðjunni er þéttara berg sem hefur kólnað hægar og efst er hröngl sem hefur brotnað í hraunflæðinu. Er yfirborðið því hrjúft, óreglulegt að lögun og oft með oddhvössum brúnum.
Líkt og apalhraunin eru helluhraunin mjög heit þegar þau koma upp í eldgosum enda oft um sömu gosgíga að ræða. Helluhraunflæði er því oft að finna nærri gígunum, þó þaðkunni að breytast síðar í apalhraunflæði áður en það stöðvast. Þau helluhraun sem hafa náð
að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast flæða á nokkuð annan hátt en apalhraun. Á þeim hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sé miðað við apalhraunið, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Rennur hraunið því heitt undir skorpunni uns það nær jaðrinum. Við slíkar aðstæður myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast svokölluð reipi ofan á hrauninu en þau myndast vegna núnings deigrar skorpunnar við fljótandi hraunbráðina. Eru því hraunreipin til komin vegna mismunandi hraða yfirborðs og hraunbráðinnar undir því. Eftir storknun hafa helluhraunin mun sléttara yfirborð en apalhraunin.
Kapelluhraun (861 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Kapelluhraun er úfið apalhraun sem rann úr gígum hjá Vatnsskarði. Hefur það runnið til sjávar í Straumsvík eftir dæld milli Eldra Hellnahrauns og Hrútagjárdyngju. Hraunið rann á sögulegum tíma og benda örnefnin „Nýjahraun“, „Nýibruni“ og „Bruninn“ til þess að menn hafi horft upp á hraunið renna. Samtímis eldgosinu áttu sér einnig stað miklir jarðskjálftar sem er getið í Flateyjarbók. Ljóst er því að mikið hefur gengið á þegar Kapelluhraun rann og eldgosið því ekki farið fram hjá mörgum á svæðinu.
Kapelluhraun er um 10 kílómetra langt þar sem það er lengst en alls þekur það 13,7 km2.
Ef reiknað er með 5 metra meðalþykkt er rúmmál þess um 0,07 km3. Hraunið er því um það bil af svipaðri stærð og meðalbasalthraun á Íslandi.
Krýsuvíkureldar brunnu, að talið er, í nokkra áratugi á 12. öld. Kapelluhraun er hluti þessarar goshrinu en gossprungan, sé hún talin sem ein heild, nær frá austurhlíð Núpshlíðarháls í suðvestri til austanverðs hluta Undirhlíða í norðaustri. Vegalengdin endanna á milli er um 25 kílómetrar en 8 kílómetra löng eyða er á gossprungunni. Syðri hluti gossprungunnar er um 10,5 kílómetrar að lengd en nyrðri hlutinn, þaðan sem Kapelluhraun rann, er um 6,5 kílómetrar að lengd. Flatarmál hraunanna úr þessum eldum er 36,5 km2 og áætlað rúmmál þess mun vera 0,22 km3. Runnu þá einnig Ögmundarhraun í suðri við Krýsuvík og Mávahlíðarhraun norðaustur af Trölladyngju.
Mestur hluti Kapelluhrauns rann frá gígum við Vatnsskarð, rétt neðan vesturhluta Undirhlíða, og til sjávar í Straumsvík. Því miður eru þessir gígar nú horfnir að mestu sökum gjallvinnslu.
Ná þessir gígar yfir tvo syðstu kílómetra gossprungunnar í Undirhlíðum en mest gaus úr syðsta og vestasta gígnum. Næst þessum gíg hefur hraunið runnið eftir hrauntröð og þaðan stefnt í norðvesturátt til sjávar. Þess ber að geta að hraunin í Krýsuvíkureldunum hafa yfirleitt verið þunnfljótandi og gasrík og því hafa myndast þunn helluhraun næst gígunum í þessum eldum. Þegar hraunin hafa farið nokkur hundruð metra hefur gasið að miklu leyti horfið úr þeim, þau orðið seigari og smám saman breyst í apalhraun. Er þetta ástæðan fyrir því að apalhraunin úr eldunum eru yfirleitt úfnara eftir því sem fjær dregur upptökunum enda er Kapelluhraunið mjög úfið næst Straumsvík en sléttara nær upptökum.
Þegar Kapelluhraun rann voru gígarnir við Vatnsskarð ekki einu upptökin. Enduðu hraunin þar að auki ekki öll sem úfin apalhraun fjær upptökum þeirra. Úr öðrum hlutum 6,5 kílómetra langrar gossprungunnar runnu að mestu leyti þunnfljótandi helluhraun en þau náðu þó ekki jafn mikilli útbreiðslu og meginstraumurinn sem rann niður í Straumsvík.
Sem dæmi má nefna hraunin sem runnu til vesturs og norðurs úr Kerunum norðan við Bláfjallaveg en hraunið norðan við þessa litlu gíga eru mjög slétt. Slétt helluhraun hefur einnig runnið frá Gvendarselsgígum austan í Gvendarselshæð í norðurenda Undirhlíða.
Hraun þetta þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðarinnar, Valahnúka og Helgafells en það hefur einnig runnið niður í norðausturhluta Kaldárbotna í nokkuð mjórri totu. Einnig hefur örmjór hraunstraumur runnið niður Kýrskarð og myndað lítinn hraunfláka ofan á Óbrinnishólahrauni og undir Gvendarselshæðinni. Þykkt þessara sléttu helluhrauna sem talin hafa verið upp hér að ofan, og teljast sem hluti af Kapelluhrauni, er frekar lítil en víðast virðist hún vera um 1 metri eða minni.
Tvíbollahraun (1.112 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
Hraunið sem er í daglegu tali nefnt Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hér eftir verða kölluð Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) og Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun).
Tvíbollahraun er dæmigert helluhraun með sprungnum og ávölum hraunkollum. Það hefur runnið sunnan úr Tvíbollum sem eru tveir
gígar, um það bil 20 og 60 metra háir, við Grindaskörð en í þessum skörðum hefur verið mikil eldvirkni á nútíma.
Hefur hraunflæðið verið að mestu um undirgöng. Sé hraunið rakið alla leið til byggðar hefur það runnið frá fyrrnefndum Tvíbollum, austur með Helgafelli og suður fyrir það, norðaustur með Gvendarselshæð , vestur með Kaldárseli, meðfram Stórhöfða og Hamranesi, undir núverandi íbúabyggð í Vallahverfinu og loks hefur það stöðvast hjá Hvaleyrarholti um 300 metrum frá sjó. Hefur Tvíbollahraun runnið nánast sömu leið og Skúlatúnshraun rann um 900 árum fyrr. Tvíbollahraun er þó mun minna um sig á þessum slóðum en Skúlatúnshraunið en fjallað verður um það síðarnefnda á næstu síðum.
Tvíbollahraun og Skúlatúnshraun eru einsdæmi á Reykjanesinu. Hafa bæði hraunin runnið frá Brennisteinsfjallakerfinu, þvert yfir Krýsuvíkurkerfið og endað í nokkurra kílómetra fjarlægð frá austustu sprungunum í Reykjaneskerfinu. Þau hafa því runnið úr einu kerfi, þverað það næsta og endað skömmu frá því þriðja.
Óbrinnishólabruni (2.203 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Fyrir um 2100 árum gaus í Krýsuvíkurreininni. Nyrstu gosstöðvarnar voru á svipuðum slóðum og gosstöðvarnar sem mynduðu Kapelluhraunið eða nánar tiltekið í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg. Frá þessum gígum rann Óbrinnishólabruni. Því miður eru gígar þessir að mestu horfnir í dag en þeir hafa verið grafnir út í grjótnámi.
Nafn hólanna er talið þýða að á þeim hafi ekki brunnið þegar Kapelluhraun rann yfir Óbrinnishólabrunann. Í austanverðum Óbrinnishólunum er um 900 metra löng gígaröð en hún er nú ekki svipur hjá sjón. Hæsti gígurinn þar náði um 44 metra hæð yfir nánasta umhverfi. Hraunflæðið hefur að mestu komið úr syðsta gígnum en þaðan hefur runnið fyrst í austurátt til Undirhlíða en svo hefur hraunflæðið beygt í norður, runnið langleiðina að Kaldárseli og svo í vestur í átt til sjávar þar sem það hefur líklega náð út í sjó. Er hraunið apalhraun að mestu leyti. Hraunið er þó ekki á yfirborði við ströndina enda runnu Skúlatúnshraun og Kapelluhraun þar yfir um það bil 200 og 1340 árum síðar.
Fáar greinar eru tiltækar um Óbrinnishólabruna og styðjast þær sem til eru oftast við grein Jóns Jónssonar frá 1974, Óbrinnishóla. Jón telur að tvö hraun hafi runnið frá Óbrinnishólum og að fyrra hraunið hafi þá runnið frá næst syðsta gígnum. Við könnun á hraunlögum undir og við hlið yngri Óbrinnishólabruna (hafi gosið tvisvar) fannst hraunlag sem er svo líkt Búrfellshrauni að varla má greina á milli þeirra. Telur Jón því að fyrra gosið í Óbrinnishólum hafi jafnvel orðið á sama tíma og gosið í Búrfelli.
Líkt og kemur fram í umfjöllun um Búrfellshraun hér á eftir er talið að hraun þetta sé jafnvel komið alla leið frá Búrfelli. Getur því verið að hraunið undir Óbrinnishólabruna því ekki bara líkt Búrfellshrauni heldur sé einfaldlega um sama hraun að ræða.
Skúlatúnshraun (u.þ.b. 2.000 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Líkt og áður hefur komið fram er Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar. Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli (falið undir neðra vinstra horni myndarinnar af byggðinni) og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts.
Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn.
Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.
Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en líkt og sjá má í umfjöllun um gervigíga fyrr í ritgerðinni þeytast meðal annars upp hraun og setlög þegar þeir myndast. Er þetta ástæðan fyrir því að í fyrrnefndum gervigígum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.
Búrfellshraun (8.151 ár; Krýsuvíkurkerfið)
Búrfellshraun heita þau hraun sem runnið hafa niður í mið- og norðurhluta Hafnarfjarðar og suður af Garðarbæ fyrir rúmum 8.000 árum síðan. Nafnið er samheiti yfir nokkur hraun og má til dæmis nefna Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun, Lækjarbotnahraun, Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Urriðakotshraun en það síðastnefnda stíflar upp Urriðakotsvatn. Hraunin breiða úr sér alla leið norðvestur til sjávar í Hafnarfirði og Skerjafirði (Ingibjörg Kaldal, 2001) og þekja þau stór svæði sem nú eru undir byggð.
Þess ber að geta að þegar hraunin runnu var sjávarstaðan mun lægri og því hafa hraunin að einhverju leyti myndað þá strandlínu sem nú afmarkar firðina. Hafa firðirnir tveir því væntanlega náð talsvert lengra inn í landið en þekkist nú.
Búrfellshraun er talið hafa runnið úr einu og sama gosinu úr Búrfelli sem er um 7,5 kílómetrum suðaustur af miðbæ Hafnarfjarðar. Búrfell er kambur sem er samsettur úr hraunkleprum og gjalli utan um eldgíginn Búrfellsgíg en hann er um 140 metrar að þvermáli og um 26 til 58 metra djúpur. Þessi gígur er um margt frábrugðinn þeim gígum og gossprungum sem finna má á öðrum stöðum á Reykjanesi en hann virðist hafa verið eina virka eldvarpið á tiltölulega stóru svæði en oftast hafa gos byrjað á sprungum á skaganum og gígarnir raðað sér þéttar saman. Einnig liggur hann ekki í stefnu annarra sprungna á nesinu heldur er hann næstum því kringlóttur. Því liggur fyrir að Búrfell hefur einungis gosið einu sinni. Fræðimenn greinir á um hvort Búrfell hafi verið eitt að verki í þessari goshrinu því fram hafa komið kenningar um að á sama tíma hafi hraun runnið úr Hraunhól allt norður til sjávar í Straumsvík eftir dældinni austan Hrútagjárdyngju. Hraunhóll er við suðvesturjaðar Kapelluhrauns og því er stóran hluta hraunsins, sé þetta rétt, að finna undir Kapelluhrauni sem rann eftir sömu dæld.
Búrfellshraun er í stærra lagi sé miðað við nýlegri gos úr Krýsuvíkurkerfinu en rúmmál þess er um 0,36 km3 sé miðað við áætlaða 20 metra áætlaða meðalþykkt og það 18 km2 svæði sem hraunið þekur. Hraunið rann að mestu leyti í tveimur meginkvíslum í norðvesturátt frá gígnum og rann önnur vestur af Kaldárseli en hin hjá Gjáarrétt. Vegna landslagsins norðaustan og austan gígsins rann hraunið nánast ekkert í þær áttir og komst það einnig skammt í suður- og suðausturátt en þó að rótum Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. Er suðurhraunið frekar lítið miðað við hin hraunin. Í vestri hverfur Búrfellshraun undir nýrri hraunlög um 1 til 2 kílómetrum frá upptökum í Búrfelli.
Að mati Árna Hjartarsonar hefur Búrfellshraun einnig runnið til sjávar í Straumsvík en hann telur að það hafi gerst á fyrstu stigum gossins og séu þau hraun nú grafin undir yngri hraunum. Aðeins er eftir smá hluti þess sem nefnist nú Selhraun. Næst hafi hraunið runnið til sjávar í Hafnarfirði yfir það svæði þar sem nú er Gráhelluhraun. Þar næst hafi hraunið runnið til sjávar í Skerjafirði, milli Álftaness og Arnarness, yfir það svæði þar sem nú eru meðal annars Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Að lokum hafi hraunið svo runnið til suðurs. Er talið að hraunið hafi byrjað að renna til suðurs vegna þess að gat brast neðarlega á suðurvegg gígsins. Hrauntjörnin, sem fyllti áður gíginn, leitaði því út um þetta gat enda var það tugum metrum neðar en útfall hraunsins niður í hrauntröðina til norðvesturs. Vegna lækkunarinnar í tjörninni gat hraunið ekki runnið aftur í norðvesturátt.
Þegar hraunið rann allt til Skerjafjarðar myndaðist hrauntröðin sem nefnd var að ofan og liggur í norðvesturátt. Er þessi hrauntröð betur þekkt sem Búrfellsgjá og er hún um 3,5 kílómetrar að lengd. Er hrauntröðin nokkuð kröpp og U-laga næst upptökum í Búrfelli en þegar neðar dregur er hún grynnri og fyllt hrauni. Hrauntröðin hefur varðveist á svo stórum kafla vegna þess að hraunið hefur skyndilega hætt að renna um hana. Hefur hún þá tæmst nokkuð snögglega efst en neðar hefur hraunið setið eftir og storknað. Önnur hrauntröð myndaðist einnig fyrr í gosinu en hún stefnir í vesturátt frá Búrfelli og liggur nálægt Kaldárseli. Hefur hún fyllst af hrauni síðar í gosinu og því er lítið eftir af henni.
Leitahraun (5.316 ár; Brennisteinsfjallakerfið)
Leitahraunið er upprunnið í dyngjugígnum Leiti sem er í miðjum austanverðum Bláfjallahryggnum og skammt vestan Syðri-Eldborgar. Nær hraunið allt suður til Þorlákshafnar og norður til Elliðaárvogs í norðri.
Lega Leitahraunsins í Elliðaárvogi merkir að það hafi runnið þangað um 28 kílómetra langa leið frá gígnum í Leitum. Hraunið er dæmigert helluhraun og hefur það verið mjög heitt, þunnfljótandi og runnið nánast eins og vatn. Dæmi sem styðja þá fullyrðingu má sjá á nokkrum stöðum en þar hefur hraunið fyllt hverja glufu í klettum sem það hefur runnið utan í. Má einnig sjá merki þess hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið í því hversu þunnt það er sums staðar en á vissum stöðum getur þykktin verið einungis 0,6 til 0,75 metrar.
Fulllangt yrði að fjalla ítarlega um alla þá leið sem Leitahraun hefur runnið til norðvesturs í átt að Reykjavík en í grófum dráttum hefur hraunið breitt úr sér á flatlendum svæðum, runnið í þröngum fossum og er sums staðar einungis nokkurra metra breitt þar sem hallinn er hvað mestur. Norðurjaðar hraunsins er skýr enda engin nýrri hraun sem runnið hafa að honum að norðan. Suðurjaðar hraunsins er aftur á móti óskýrari en ýmis nýrri hraun hafa runnið að honum að sunnan, til dæmis nokkur Hólmshraun. Gervígígaþyrpingar hafa myndast þar sem Leitahraunið rann yfir votlendi og af þeim má til dæmis nefna Tröllabörn vestan við Lækjarbotna og Rauðhóla austan við Elliðavatn.
Á síðustu árum og áratug hefur nokkuð verið skrifað um hönnun hraunflæðilíkana. Mismunandi útfærslur má finna í hinum ýmsu greinum en þessi líkön eiga þó margt sameiginlegt.“
Heimild:
-https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2023/07/BS_Daniel_Pall_Jonasson_Landfraedi_Juni_2012.pdf