Hraunssel II

Hraunssel

Gengið var upp frá Mjöltunnuklifi ofan við Ísólfsskálaveg af hinni fornu leið millum Krýsuvíkur og Grindavíkur áleiðis að Hraunsseli undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrrum lá selsstígurinn upp með Lyngbrekkum Gnupurúr Drykkjarsteinsdal, Leirdal, ofan Skála-Mælifells og síðan til austurs milli Höfða og Sandfells yfir Grákvíguhraun að Neðri-Þrengslum gegnt Framfelli. Þaðan var stutt í selið. Ef farin var gamla þjóðleiðin um klifið þurfti að fara yfir Leggjabrjótshraun. Vagnvegur var gerður yfir það snemma á þriðja áratug síðustu aldar að boði Hlínar Johnsen, bústýru í Herdísarvík og Krýsuvík. Síðar var vegurinn ruddur með jarðýtu, en hina gömlu göngu- og reiðleið má sjá á köflum norðan hans, einkum á móts við brúnavörður, en þær munu upphaflega hafa varðað þá leið.
Ef haldið er upp með vestanverðum (G)núpshlíðarhálsi er fljótlega komið að Gnúpi; stórum móbergskletti undir hálsinum. Ef að er gáð má sjá að steinninn sá hefur áður staðið á stalli ofar í hálsinum, en einhvern tímann og af einhverri ástæðu fallið af honum og komið „standandi“ niður.

Framfell

Gnúpur er stærsti steinninn undir Gnúpshlíðarhálsi og því hefur verið talið sjálfsagt í virðingarskyni að fornefna hann hálsinum öllum. Rétt er að minna á að Molda-Gnúpur var fyrsti landsnámsmaðurinn á þessu svæði ef marka má Landnámu og Íslendinga-bók. Festi hann búsetu um 930. Telja margir að það hafi verið á svæði undir (G)núpshlíðarjálsi þar sem nú heitir Húshólmi (eða þar í kring).
Haldið var upp með vestanverðum hálsinum, framhjá Lynghvammi, yfir Öxlina og framhjá Framfelli, í gegnum Þrengslin og inn á Hraunsselstúnið.
Í túninu eru greinilegar grónar tóftir tveggja selstaða. Telja má líklegt að þær séu frá Hraunsbæjunum, sem lengst af voru tvíbýli. Syðsta tófin er dæmigerð seinni tíma sel; þrjú rými í reglulegri röð. Vestast er eldhúsið, baðstofan í miðjunni og búrið austast, næst hlíðinni.

Selsvallafj

Miðtóftin er tvískipt; baðstofa og búr austar. Eldhúsið er sjálfstætt skammt norðan hennar. Enn norðar eru leifar af skjóli.
Vestan þessara tófta eru leifar eldra sels. Það hefur verið dæmigert sem slíkt; þrískipt. Enn vestar má sjá hlaðinn stekk. Norðar eru leifar stekkst, sem tilheyrt hefur gamla selinu.
Í örnefnaskrá Gísla Hafliðasonar, bónda, á Hrauni og Guðmundar Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála, sem Ari Gíslason skráði, má lesa eftirfarandi:
„Nú byrjum við aftur austur við Núpshlíð, og má vel vera, að eitthvað af því, sem hér verður fyrst talið, sé í landi Ísólfsskála. Núpshlíðin hefur fyrr verið nefnt, og rís hún upp norður af Ögmundarhrauni. Framhald af henni til norðausturs er Núpshlíðarháls, sem hér verður á merkjum móti Krýsuvík. Syðst í Núpshlíð liggur vegurinn til Krýsuvíkur gegnum lægð í hlíðina.

Hraunsse-2

Innan við veginn, inn með hlíðinni, er grasivaxinn hvammur með lynggróðri, og heitir hann Lynghvammur. Hann er beint á móti há-höfðanum, er síðar getur. Krossgil er að austan í hálsinum, en það er að mestu leyti í Krísuvíkurlandi. Vestur af hlíðinni tekur við hraunbreiða nokkur, sem heitir Grákvíguhraun. En norðar er það hraun nú nefnt Skolahraun. Eldra nafn á því mun vera Þráinsskallahraun. Vestan við Grákvíguhraun er Höfðinn, sem er nokkuð hár. Suður úr honum er Méltunnuklifið, er getið var hjá Ísólfsskála. Vestur af Höfðanum er annar hraunstraumur, sem heitir Leggjarbrjótshraun. Í því er nafnlaus mosahóll.

Hraunsse-3

Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni. Sandfellið er stórt fell. Hér nokkru norðar slítur hraunhaft þrengslin í sundur, og heitir þar norðar Selsvallafjall, og Selsvellir er gróið landsvæði þar, fallegt um að sjá.“
Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar segir um þetta svæði sem og svæðið vestan við Núpshlíðarhálsinn: „Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Hraunsse-5

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir).

 

Hraunssel-6

Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.
Austan við Einihlíðar er hraun sem heitir Leggjarbrjótshraun. Austan við það er allhátt fjall sem heitir Höfði og þar norðan við aðskilið af smáskarði er Sandfell. Um þetta skarð og austan við Sandfell er reiðgatan frá Grindavík til Selsvalla. Austan við Höfða er hraun og heitir það Grákvíguhraun. Það nær austur að Núpshlíðarhálsi. Norðar heitir það Skolahraun (eldra nafn Þráinsskallahraun) og nær þessi hraunfláki alla leið inn að Hafnarfirði. Í þessu hrauni suðaustur af Keili er Driffell.
Austan við þetta hraun er mikill fjallarani og skilur hann land á milli Krýsuvíkur, Ísólfsskála Hraunsse-4og Hrauns. Er hann ýmist nefndur Núpshlíðarháls eða Vesturháls.
Selsvellir eru grasi grónir vellir vestur undan Vesturhálsi. Heitir fjallið þar upp af Selsvallafjall. Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel. Nyrsti hluti Selsvalla heitir Kúalágar og þar var hver sem hét Hverinn eini en hann tók af í jarðskjálftum 1910. Þar upp af er hæsti hluti Vesturháls og heitir Trölladyngja (venjulega nefnt Dyngja). Norðaustan við Kúalágar eru Grænavatnseggjar og þar upp á fjallinu er Grænavatn í djúpri kvos. Á Selsvöllum er lækur nefndur Selsvallalækur. Hálsinn á milli Kúalága og Höskuldarvalla heitir Bergsháls.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Hraun (ÖÍ).

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.