Húshellir I

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Djúpavatnsvegi vestast í Hrútagjárdyngju. Rétt eftir að lagt var af stað fannst hlaðin refagildra neðan við hraunkant. Gengið var yfir mosahraun í norður. Þá var komið inn á gamla leið er liggur niður norðvestanverðan hraunkant dyngjunnar og með honum í báðar áttir. Reykjavegurinn liggur einnig þarna um.

Húshellir

Í Húshelli.

Áður en farið var ofan dyngjunnar blasti við mikill hraunbolli í austri. Gæti verið einn aðalgígur sjálfrar Hrútagjárdyngju. Fallegur staður. Þar vestan afvar komið að tveimur holum ofan í jörðina, gömlum gígrásum. Þær eru 5-6 metra djúpar. Hægt er að fara ofan í þá vestari. Það var gert og kíkt inn. Þröngur gangur gæti legið þar inn undir hraunið. Hellarannsóknarfélaginu verður eftirlátið að skoða það nánar. Vinnuheiti þessarar holu verður “Kokið”.

Híðið

Í Híðinu.

Skoðað var í Híðið, um 140 metra langan helli, sem er í Hrútadyngjuhrauni skammt sunnan við fjallið, í hæðinni sem þar er. Inngangurinn er lágur. Þegar inn er komið þarf að fara til vinstri. Þar er lágt gat, en fyrir innan það tekur meginrásin við. Mjög fallegir dropasteinar og strá eru í hellinum. Fara þarf varlega þarna um til að skemma ekki neitt. Híðið er með fallegustu hraunhellum landsins. Leggja þarf hverja leið vel á minnið til að minka líkur á að villast í hellinum. Ekki var farið alla leið í botn að þessu sinni því talsvert er um að skríða þurfi hér og þar.

Í suður frá Híðinu er Húshellirinn. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við mikill geymur og eru gangar í allar áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Maístjarnan er í vestur frá Húshelli. Opið snýr á móti suðaustri. Á milli þessarra hella er a.m.k. þrír aðrir hellar, þar af tveir nokkur hundruð metra langir. Annað opið er á milli Húshellis og Maístjörnunnar, en hitt er norður af Húshelli. Þegar komið er niður blasir “augað” við, hringlaga slétt op, rúmlega meters langt. Innan opsins er komið í hraunrás er liggur þvert á opið. Að ofanverðu eru margir dropasteinar á gólfi. Ofan þeirra er þverrás, mjög falleg. Þegar gengið er niður rásina og litið aftur sést í þrjú op. Leggja þarf rétta opið á minnið.

Maístjarnan

Í Maístjörnunni.

Mikil litadýrð er í hellinum, fallegir dropasteinar og ýmis jarðfræðifyrirbrigði. Í Maístjörnunni eru svo til öll fyrirbrigði er prýða hraunhella á Íslandi. Skammt neðan við opið var farið niður eftir hraunrás. Á hana kemur þverrás, um 60 cm neðar en hin. Haldið var áfram og var þá komið í geymi, en engin rás virðist vera úr honum. Haldið var spölkorn til baka, að þverrásinni, og síðan til vinstri upp eftir henni. Hún þrengist en ef haldið er áfram er komið að opi Maístjörnunnar, utan við “augað”. Hægt er að fara fram og aftur um hellinn eftir ýmsum rásum, en gæta þarf vel að því að villast ekki í göngunum.
Neyðarútgöngudyrahellirinn var skoðaður, en hann er um 90 metra langur, víð hraunrás er liggur í hálfboga og opnast síðan að nýju.
Frábært veður.

Neyðarútgöngudyrahellir

Neyðarútgöngudyrahellir.