Húsið á hálsinum
Austan í Bæjarfellshálsi sunnanverðum er rétt; Krýsuvíkurétt. Réttin sú er augljós og hefur því veriðs kráð sem fornleif í opinberum skráningum. Skammt ofan við vestanverða réttina er húsatóft. Þessarar tóftar er hins vegar hvergi getið, hvorki í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningum.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a: „Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við. Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin.“
Þegar FERLIR var að skoða bæjarsvæðin rákust augu í forna tóft á Bæjarfellshálsi. Tóftin er grjóthlaðin, um 6.00×4.80m. Op er mót suðri. Yfir henni liggur mosi og lyng. Hleðslur eru greinilegar. Að sjá virðist hún vera mjög gömul.
Í fyrstu mætti ætla að þarna hefði verið fjárborg, en lögun hennar sem og hleðsla í vesturenda benda til annarra nota. Þessarar fornleifar er hvorki getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg, sem á að liggja þarna skammt frá.
Tóftarinnar er, líkt og áður sagði, ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þar segir einungis: “Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin. Hér vestur undan fellinu er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði.”
Tóft þessi er hins vegar allgreinileg. Telja verður því líklegt að á Krýsuvíkursvæðinu kunni enn að leynast ófáar fornleifar, sem ekki hafa verið skráðar.
Heimild:
-Krýsuvík – örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar